Kanadíski leikarinn Ryan Grant­ham var á þriðju­dag dæmdur í lífs­tíðar­fangelsi fyrir að skjóta móður sína til bana í mars 2020.

Grant­ham, sem er 24 ára, þótti efni­legur leikari á sínum tíma og lék hann meðal annars í myndinni Diary of a Wimpy Kid, eða Dag­bók Kidda klaufa, árið 2010.

Dómurinn var kveðinn upp í Vancou­ver í Kanada og getur Ryan sótt um reynslu­lausn í fyrsta lagi árið 2034. Í frétt CBC kemur fram að Ryan hafi glímt við and­lega erfið­leika um langa hríð; al­var­legt þung­lyndi meðal annars og ein­angrað sig mjög í kjöl­farið. Hann er sagður hafa eytt löngum stundum í að horfa á of­beldis­full mynd­bönd á myrkra­netinu svo­kallaða, í­hugað að fremja fjölda­morð og í­hugað að drepa for­sætis­ráð­herra Kanada, Justin Tru­deau.

Daginn eftir morðið á móður sinni gaf hann sig hins vegar sjálf­viljugur fram við lög­regluna í Vancou­ver. Verj­endur Grant­hams segja að hann hafi fengið góða að­stoð frá læknum og sál­fræðingi innan veggja fangelsisins og hvatti dómarinn hann til að halda þeirri með­ferð á­fram.

Grant­ham kom fram í litlum hlut­verkum í fjöl­mörgum þáttum á ferli sínum. Karakter hans í þáttunum River­da­le bar til dæmis á­byrgð á dauða karakters leikarans Luke Perry í þáttunum. Þá kom hann fram í þáttunum Falling Skies og Superna­tur­al svo ein­hverjir séu nefndir.