Sjónvarpsþáttarisinn HBO tilkynnti í gær lista af leikurum sem munu koma til með að leika í svokölluðu „forframhaldi“ (e. prequel) af Game of Thrones þáttunum sem munu gerast þúsundum ára á undan upprunalegu seríunni. Áður hafði komið fram að leikkonan Naomi Watts hefði hreppt hlutverk í seríunni en svo virðist vera sem þar sé stærsta nafnið á ferðinni. Flestir leikararnir eru ekkert gífurlega vel þekktir og helst það í hendur við fyrri seríuna.  

Það eina sem hefur verið staðfest varðandi söguþráð nýju seríunnar er að hann mun að einhverju leyti snúast um uppruna hvítgenglanna svokölluðu og atburði sem tengjast baráttunni við þá en nokkuð ljóst er að Stark og Targaryen fjölskyldurnar munu koma fram með einhverjum hætti.

Sjá einnig: Ný kitla gefur vísbendingar um endalokin

HBO hefur líkt og hingað til ekkert gefið upp um hlutverk leikaranna og hefur gefið að því skóna að þættirnir muni koma mörgum á óvart. Meðal leikara sem staðfestir hafa verið í seríunni eru Jamie Campbell Bower og Toby Regbo en báðir fóru þeir meðal annars með hlutverk í Fantastic Beasts: The Crimes of Grindelwald og léku þar ungan Grindelwald og ungan Dumbledore.

Þá munu einnig leika í þáttunum þau Georgie Henley, sem hve þekktust er fyrir hlutverk sitt sem Lucy í myndunum um Narníu auk Ivanno Jeremiah sem fór með hlutverk í Black Mirror þættinum Shut Up and Dance þar sem dularfull aðili neyðir unglingsstrák nokkurn til að ganga erinda sinna í gegnum textaskilaboð.

Þá munu Naomi Ackie, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt í Lady Macbeth,  Denis Gough úr kvikmyndinni Colette, Sheila Atim úr Hulu þáttunum Harlots auk Alex Sharp sem þekktust er fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni To The Bone fara með hlutverk í þáttunum. 

Tökur eru nú í gangi og búist er við því að nýja serían muni koma út á næsta ári.