Kammersveit Reykjavíkur er ein af elstu starfandi kammersveitum á landinu og var upphaflega stofnuð árið 1974 af þrettán glæstum hljóðfæraleikurum sem flestir voru nýkomnir heim til Íslands frá námi erlendis og störfuðu í Sinfóníuhljómsveit Íslands og við Tónlistarskólann í Reykjavík. Stofnendur eru þau Graham Tagg, Jón H. Sigurbjörnsson, Lárus Sveinsson, Rut Ingólfsdóttir, Hans Ploder, Kristján Stephensen, Gunnar Egilsson, Sigurður Markússon, Jón Sigurðsson, Helga Ingólfsdóttir, Stefán Stephensen og Pétur Þorvaldsson. „Í dag er enginn eftir af upprunalega hópnum í sveitinni en stutt er síðan síðasti meðlimur dró sig í hlé. Það er hún Rut Ingólfsdóttir. Það er afar gott að geta leitað til hennar þegar á þarf að halda enda hélt hún utan um reksturinn í marga áratugi og hefur reynst okkur, sem tókum við af henni, einstaklega vel,“ segir Rúnar Óskarson, einn meðlimur Kammersveitarinnar og klarínettu- og bassaklarínettuleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Þessi frækna sveit mun halda tónleika á þriðjudaginn 1. júní klukkan 20.00 í Hörpu þar sem verða á dagskránni tvö verk sem hafa aldrei verið flutt áður á landinu, en að sögn Rúnars er það eitt af yfirlýstum markmiðum sveitarinnar að flytja verk sem mörg hver hefðu annars ekki verið flutt á Íslandi.

Sínir eigin framkvæmdastjórar

Upphaflegt markmið Kammersveitarinnar var að leggja áherslu á barokktónlist og tónlist 20. aldar, en einnig verk frá öðrum tímum og gefa áheyrendum kost á að heyra verk sem sjaldan eða aldrei höfðu verið flutt á Íslandi. „Það má segja að þetta markmið sé enn við lýði. Kammersveitin leikur alltaf eina barokktónleika á ári og frumflytur nýja íslenska og erlenda tónlist á Myrkum músíkdögum. Þess á milli er svo leikin kammertónlist frá ýmsum tímum, í smáum hópum sem stórum. Stærð hljómsveitarinnar er ekki föst og við komum fram í litlum sem stórum hópum, allt frá þremur hljóðfæraleikurum upp í 35. Þessi sveigjanleiki er mjög mikilvægur og leyfir okkur mikið frelsi í verkefnavali. Það er líka sérstaða okkar að valið er algerlega í höndum hljóðfæraleikaranna sjálfra. Við erum framkvæmdastjórn, hljóðfæraleikarar og rótarar hljómsveitarinnar.“

Stofnendur Kammersveitar í hléi á æfingu Sinfóníunnar í Laugardalshöll í júní 1974.

Huga skal að grasrótinni

Á þessum 47 árum sem Kammersveitin hefur starfað hefur hún haldið mörg hundruð tónleika, jafnt innanlands sem utan. Þá hafa margir kammerhópar komið og farið en Kammersveitin hefur staðið styrk á tónlistarsviðinu allan þennan tíma. „Við erum sérlega þakklát fyrir þennan stöðugleika sem nauðsynlegur er til að geta gert langtímaplön. Einnig höfum við átt gifturíkt samstarf við Ríkisútvarpið í langan tíma sem tekur meira og minna upp alla okkar tónleika og sendir út á Rás 1. Þannig náum við til enn fleiri heldur en bara þeirra sem koma á tónleikana okkar.“

Kammersveitin býður reglulega ungu og efnilegu tónlistarfólki að spila með hljómsveitinni sem einleikarar eða sem hluti af bandinu. Oktett Kammersveitar á Barnamenningarhátíð 2014. Rikki, Rúnar, Guðrún, Helga Þóra, Sigurgeir, Joe, Una og Arngunnur.

Kammersveit Reykjavíkur hefur gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku tónlistarlífi við að gefa ungu og efnilegu tónlistarfólki færi á að koma fram. „Það hefur verið eitt af aðalsmerkjum hljómsveitarinnar að hleypa ungu fólki inn í sveitina bæði sem einleikurum og einnig sem meðlimum sveitarinnar. Sjálfur fékk ég til dæmis mín fyrstu tækifæri í atvinnumennsku strax á námsárunum með Kammersveitinni og kom fram sem einleikari og tók upp geislaplötu þar sem Kammersveitin kom mikið við sögu,“ segir Rúnar. Þá bætir hann við að það sé algerlega lífsnauðsynlegt að vera í góðu sambandi við tónskáld og aðra hljóðfæraleikara. „Kammersveitin tekur til dæmis stolt þátt í Myrkum músikdögum á hverju ári og frumflytur þar íslensk og erlend verk með íslenskum og erlendum einleikurum. Í ár ætluðum við að frumflytja tvö íslensk og eitt nýtt sænskt verk á hátíðinni, en það frestast fram í janúar 2022. Einnig er mjög mikil eftirspurn eftir því að skrifa ný verk fyrir okkur en því miður getum við ekki sinnt öllum þeim sem það vilja. Þá hefur hljómsveitin mikið unnið með erlendum stjórnendum sem hafa komið með nýja strauma til okkar og lífgað upp á tónlistarlífið í landinu.“

Hér má sjá Kammersveitina í Ásmundarsafni árið 2015.

Hljómsveitin var tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna 2020 sem tónlistarflytjandi ársins í sígildri og samtímatónlist.

Hvaða þýðingu hefur þessi tilnefning fyrir sveitina?

„Íslensku tónlistarverðlaunin eru uppskeruhátíð íslenskra tónlistarmanna og auðvitað er alltaf gott að fá klapp á bakið eftir miklu vinnu. Á tónleikunum sem áttu mestan þátt í tilnefningunni fluttum við tvær kammersinfóníur. Annars vegar eftir A. Schönberg og hins vegar frumfluttum við á Íslandi kammersinfóníu eftir John Adams. Stjórnandi var Íslandsvinurinn Petri Sakari og þetta eru með eftirminnilegri tónleikum sem ég hef tekið þátt í með Kammersveitinni. Það er alltaf skemmtilegt þegar vel tekst til og tilnefningin var ánægjulegur lokahnykkur á þeim tónleikum.“

Vorlegir tónleikar þann 1. júní

Kammersveit Reykjavíkur mun halda glæsilega tónleika í Norðurljósasal Hörpu þriðjudaginn 1. júní klukkan 20.00. Á dagskránni verða tvö spennandi verk sem aldrei hafa verið flutt á Íslandi áður; Mechanic Song fyrir píanó og blásarakvintett eftir franska tónskáldið og organistann Thierry Escaich og Nonetto fyrir blásarakvintett og strengi eftir Nino Rota. „Hið fyrrnefnda ætluðum við að flytja á Myrkum músíkdögum 2021 en vegna faraldursins var þeim tónleikum frestað fram á næsta ár. Þegar við stóðum frammi fyrir þessari staðreynd ákvað sveitin að skella í nýja tónleika sem allra fyrst. Við ákváðum strax að hafa tónleika í styttri kantinum, án hlés. En sökum ástandsins mega áheyrendur ekki fara fram í hléi og þurfa að vera með grímu alla tónleikana.

Það var líka skemmtilegt að verkefnavalið kom fullmótað til okkar á fáeinum mínútum. Vanalega tekur svona ákvörðun nokkuð langan tíma vegna þess að í Kammersveitinni ríkir lýðræði og allir hafa sínar skoðanir, óskir og væntingar. Í þetta sinn gekk þetta óvenju hratt fyrir sig og við erum sérlega ánægð með að fá að vera með Íslandsfrumflutning á báðum þessum verkum. Mecanic song samdi Escaich árið 2006. Þetta er sérlega aðgengilegt nútímaverk, mjög krefjandi fyrir hljóðfæraleikarana og höfum við hlakkað lengi til að fá að spila þetta loksins. Þess má geta að Escaich kom hingað sjálfur til lands og lék á orgel í Hallgrímskirkju 2018,“ segir Rúnar.

Seinna verkið á tónleikunum, Nonetto, er eftir Nino Rota sem er þekktastur fyrir kvikmyndatónlist sína. „Rota samdi meðal annars tónlistina í Guðföðurnum en er einnig þekktur fyrir ýmislegt annað. Nonetto er mjög skemmtilegt verk sem einkennist af leikandi léttum laglínum sem leiða okkur inn í vorið og vonandi nær fólk að gleyma sér í þessa klukkustund sem tónleikarnir vara og njóta þeirra í botn.“

Hvernig hefur Covid-árið komið við Kammersveitina?

„Við höldum fjóra viðburði á hverju ári og í fyrra vorum við svo heppin að við þurftum bara að hætta við jólatónleikana okkar. Allir aðrir tónleikar smullu einhvern veginn inn þegar losað var um samkomutakmarkanir. Í ár var Myrkum músíkdögum frestað tvisvar og verða ekki fyrr en í janúar 2022. Á þessum tíma árs erum við oftast búin að halda tvenna tónleika en næstu tónleikar okkar þann 1. júní verða þeir fyrstu á árinu. Við krossum bara fingur með framhaldið.

Nú stefnum við á þrenna tónleika í haust, meðal annars stóra kammertónleika í lok september þar sem tveir tengdasynir Íslands koma fram með hljómsveitinni, tenórinn Stuart Skelton og Frank Hammarin hornleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.“

Kammersveitin hefur brallað ýmislegt um tíðina og er hér stödd ásamt gestgjöfum á sviðinu í Great Hall í Nanjing í Kína í október 1999.

Ráðast í útgáfu

Kammersveitin hefur gefið út á fjórða tug geisladiska. „Það er orðið nokkuð síðan sveitin réðst síðast í útgáfu en það stendur allt til bóta. Á teikniborðinu liggur ný geislaplata með verkum eftir Huga Guðmundsson. Covid-ástandið hefur aðeins frestað okkar plönum en við stefnum á að ljúka upptökum næsta vetur. Svo er kannski ágætt að ljóstra því upp hér til að auka pressuna að það eru líka hugmyndir um að leika inn á nýjan jólabarokkdisk, en jólatónleikar sveitarinnar eru án efa alltaf vinsælustu tónleikar okkar.“