Það getur verið slæmt fyrir fyrirtæki að missa starfsmenn sína, ekki síst lítil fyrirtæki þar sem hlutverk hvers einasta starfsmanns er mikilvægt. En mannauðsstjórar segja að það séu ákveðnir lykilþættir sem koma mjög oft upp þegar fólk segir starfi sínu lausu sem fyrirtæki geta hugað að til að koma í veg fyrir að þau missi frá sér gott starfsfólk.

Vöxtur og nýjar áskoranir

Skortur á tækifærum til að vaxa í starfi og stöðnun er ein algengasta orsök þess að fólk hættir. Með því að veita því athygli þegar fólk leggur hart að sér og setja upp skýra framabraut er hægt að láta starfsmönnum líða eins og þeir eigi framtíð innan fyrirtækisins. Það er líka mikilvægt að yfirmenn tali við starfsfólk sitt um markmið þess í starfi svo að það sé hægt að koma til móts við væntingar þess.

Ef vinnan er heilalaus er líka hætta á að fólk gefist upp. Þess vegna er mikilvægt að starfsfólki líði eins og það sé alltaf að læra eitthvað nýtt. Til þess þarf það sífellt að fá ferskar áskoranir og ný markmið.

Sýnið að starfsfólkið hafi gildi

Laun eru önnur mjög algeng ástæða fyrir því að fólk skiptir um vinnu. Starfsfólk getur auðveldlega komist að því hvernig aðrir í sama geira fá borgað og því er að sjálfsögðu mikilvægt að bjóða samkeppnishæf laun og fríðindi.

En peningar duga yfirleitt ekki einir og sér. Fólk þarf líka að finna að það sé metið að verðleikum og ef fyrirtæki tekur ekki eftir afrekum starfsmanna getur verið að þeir vilji fara og spreyta sig annars staðar. Þess vegna er mikilvægt að það sé eitthvert kerfi til staðar til að gefa góðu starfsfólki klapp á bakið og því sé látið líða eins og það sé mikilvægur hluti af fyrirtækinu.

Það er sniðugt að verja tíma með starfsfólkinu utan vinnu, til dæmis með því að borða hádegismat saman, og leita álits þess þegar það á við. Það bætir samskiptin og sýnir að framlag þess skiptir fyrirtækið máli. Það eykur líka vinskapinn, sem ýtir oft undir tryggð við fyrirtæki.

Jafnvægi vinnu og einkalífs

Ef starfsfólki er ekki boðið upp á sveigjanleika gæti verið meiri hætta á að missa það. Samkvæmt gríðarstórri könnun frá ráðgjafarfyrirtækinu Deloitte er þúsaldarkynslóðin líklegri til að vinna hjá sama fyrirtæki í að minnsta kosti fimm ár ef hún fær sveigjanleika varðandi hvar og hvenær unnið er. Með því að gera fólki kleift að vinna að heiman, bjóða upp á styttingu vinnuvikunnar eða annað slíkt er hægt að sýna starfsfólki að fyrirtækinu finnist frítími þess og einkalíf líka skipta máli. Það hvetur starfsfólk um leið til að leggja harðar að sér þegar það er í vinnunni, í stað þess að telja bara að niður klukkustundirnar.

Að sama skapi er mikilvægt að leggja áherslu á góða andlega heilsu starfsmanna og vinna gegn streitu. Það eru ýmsar leiðir færar á þessu sviði og minna álag og streita leiðir til ánægðari starfsmanna og yfirleitt betri afkasta.

Kostir þess að missa starfskraft

Það þarf ekki alltaf að vera að öllu leyti slæmt að missa verðmætan starfskraft. Margir atvinnurekendur líta á það sem kost að geta bætt nýjum hæfileikum við fyrirtækið, jafnvel þó að það kunni að vera eftirsjá að starfsmanninum sem fór. Það að fá nýtt fólk inn í fyrirtækið getur skapað ný tækifæri og möguleika. Þegar starfsmaður hættir býður það líka upp á tækifæri til að átta sig betur á því sem mætti betur fara innan fyrirtækisins og eiga opnar og heiðarlegar umræður um það sem er hægt að bæta.