Á langkeyrslum er kyrrseta mikil og því er mikilvægt að hugsa sem best um heilsuna, borða hollt, drekka nóg vatn og stoppa til að hreyfa sig og hvílast.

Við þjóðveginn eru matsölur sem bjóða orðið heilnæma rétti í bland við hefðbundinn grillmat og heimilismat. Þar geta freistingarnar borið menn ofurliði en einnig getur verið langt í næsta stopp þegar hungrið sverfur að og þá er vissulega skynsamlegt og hagkvæmara að útbúa sitt eigið ljúffenga nesti áður en haldið er af stað.

Hægt er að útbúa ómótstæðilega girnilegar og gómsætar samlokur sem eru bæði matarmiklar og góðar fyrir kroppinn og hver stenst úttroðið nestisbox sem hefur verið nostrað við með grófu brauði, prótínríku áleggi og nóg af ávöxtum, grænmeti og hnetum til að maula við fagran foss eða fjallasýn? Nestið getur líka innihaldið kjöt, grænmeti, harðfisk eða harðsoðin egg sem seðja svangan maga og vissulega er hægt að grípa með sér skyr eða graut. Niðurskornir eplabitar með hnetusmjöri eru freistandi snakk, skorið grænmeti sem hægt er að dýfa ofan í dýrindis og hollan hummus, jógúrt með góðu múslí, vefja með kjúklingi, osti og grænmeti eða þá brakandi gott hnetumix.

Umfram allt væri gott að sneiða sem mest hjá gos- og orkudrykkjum en drekka meira af íslensku vatni og hægt er að brydda upp á tilbreytingu með því að setja út í það ávexti eða ber.