Í kvöld verður gengið um slóðir listakonunnar Ástu Sigurðardóttur. Leikarinn og leikstjórinn Ólafur Egilsson leiðir gönguna og segir frá Ástu, en hann skrifaði og leikstýrir verki um þessa einstöku konu, sem vonandi verður frumsýnt 18. september.
„Við vonum að leikhúsunum verði treyst til að lifa með veirunni og við fáum loks að frumsýna verkið. Það verður vonandi búið að sleppa þessum 200 manna samkomutakmörkunum, sem eru að gera okkur lífið leitt að minnsta kosti fram til 27. ágúst.“
Upphaflega átti að frumsýna verkið á síðasta ári.
„Það var náttúrulega ekki mögulegt. Þannig að við fórum bara í meiri heimildavinnu og enn þá frekari rannsókn á lífi og list Ástu þannig að verkið verður vonandi bara betra fyrir vikið,“ segir Ólafur léttur í bragði.
Mikil heimildarvinna
Ólaf hafði lengi langað til að gera verk um Ástu. „Alveg frá því að ég las skáldskap Ástu í menntaskóla. Það þótti hipp og kúl, eins og það var kallað þá, að kunna skil á Ástu Sigurðardóttur og og þekkja Dag Sigurðarson og Jónas Svafár og hin bóhem-skáldin, svona ef maður vildi vera samræðuhæfur í listaspírugengin,“ segir Ólafur hlæjandi og bætir svo við: „Mig hafði því lengi langað að gera verk um Ástu, hennar skáldskap og hennar líf, sem skaraðist ansi oft.”
Mikil heimildavinna liggur að baki gerð verksins en Ólafur segir hana hafa gengið einstaklega vel „Uppi í Þjóðarbókhlöðu eru varðveitt ýmis skjöl úr hennar fórum, þar á meðal ritgerðir hennar úr kennaraskólanum, óútgefin ljóð og drög að leikriti svo eitthvað sé nefnt.
Í gegnum fjölskyldu Ástu fékk Ólafur líka aðgang að sendibréfum Ástu, sem sum hver hafa sést áður en önnur ekki.
„Það hefur líka töluvert verið skrifað um Ástu, Jón Óskar og Braga Kristjóns og henni bregður meira að segja fyrir sem sögupersónu í Sóleyjarsögu Elíasar Mar. Svo eru það auðvitað hinar munnlegu heimildir, bæði hef ég talað við börn Ástu, skyldmenni og líka fjölmarga vini og samferðamenn. Fólk sem kannski þekkti hana ekki mikið, eða jafnvel hitti hana ekki nema einu sinni, en hefur varðveitt minninguna um hana.“
Minnisstæð kona
Ásta var mjög minnisstæð manneskja að sögn Ólafs og muna því margir vel eftir henni. „Hvernig hún bar sig og hvernig hún klæddi sig. Fólk hefur verið duglegt að hafa samband við mig og svo hef ég líka leitað uppi fólk sem mögulega mundi eftir henni, samtímafólk hennar. Verkið er því samsett úr þessum skrifuðu heimildum, skáldskap Ástu, og minningum fólks um þessa einstöku og hæfileikaríku konu. Þær eru margar algjörlega frábærar,“ segir hann.
Þetta eina og hálfa ár sem bættist við ferlið vegna faraldursins, nýtti Ólafur í enn frekari heimildavinnu.
„Ég held að ég sé búinn að tala við í það minnsta 200 manns.“
Borgarbókasafnið hafði samband við Þjóðleikhúsið og kom með hugmyndina að baki kvöldgöngunni, þar sem Ólafur segði frá tímabili í lífi Ástu, þegar sem hún bjó og starfaði miðsvæðis í borginni.
„Mér fannst alveg upplagt að fá að miðla því sem ég hef viðað að mér um Ástu í þessum göngutúr. Ég hafði ekki beinlínis stúderað Reykjavík á þessum tíma per se, hvort þetta hús þar sem Ásta bjó eða starfaði stæði enn og svo framvegis, en þegar ég fór að kynna mér þá hlið kom margt áhugavert í ljós. Ég vissi til dæmis ekki að ljósmyndastofa Kaldals, þar sem fræg portrettmynd hans af Ástu var tekin, var einmitt til húsa á annarri hæðinni á Laugavegi 11, en á neðri hæðinni var auðvitað aðal listamannakaffihúsið á þessum tíma, Laugavegur 11, sem Ásta stundaði mikið ásamt sinni bóhem kreðsu.”
Umbrotatímar
Ásta starfaði um tíma í Kassagerðinni.
„Ég hafði alltaf hugsað mér kassagerðina þar sem hún er í dag, uppi í Laugarnesi. Amma mín, Margrét Erla Guðmundsdóttir , sagði mér að hún hefði þá verið uppi á Lindargötu, en hún ólst einmitt upp þar beint á móti. Ég var að lesa fyrir hana ritgerð Ástu þar sem hún lýsir því að mæta í vinnuna, koma inn í portið og bíða eftir því að bjalla hringdi, sem þýddi að fólk mátti stimpla sig inn. Amma gat sagt mér hvernig þessi bjalla hljómaði, enda á hún minningar um að sitja við gluggann sem ung stúlka og horfa á fólkið streyma að. Þá var Ásta algjörlega óþekkt, svo amma tók auðvitað ekkert sérstaklega eftir henni, en hún hefur líklega verið þarna.”
Gengið verður um miðbæinn sem rammar nokkurnveginn inn ákveðið tímabil í lífi Ástu.
„Hún bjó uppi í Garðastræti fyrst eftir að hún kom í bæinn, svo flutti hún í bragga í Vesturbænum, og þaðan seinna meir upp í Kópavog, þegar hún kynntist barnsföður sínum, Þorsteini frá Hamri. En þetta tímabil, þegar hún bjó í miðbænum og þar umkring var mikið umbrotatímabil í hennar lífi, þá birtir hún sína fyrstu sögu og er að sitja fyrir nakin í Myndlista- og handíðaskólanum og allur bærinn stóð hreinlega á öndinni yfir þessari dulúðugu og bráðgreindu stúlku, sem annaðhvort heillaði fólk eða hneykslaði upp úr skónum.”
Kvöldgangan hefst við Borgarbókasafnið í Grófinni klukkan 20.00.