SOS sinfónían er í fimm þáttum og einleikari á morssendi verður Arngrímur Jóhannsson, sá þekkti flugmaður.

„Ég varð fyrir miklum áhrifum á Norðurslóðasetrinu á Akureyri þegar Arngrímur, eigandi safnsins, morsaði á gamalt morstæki setninguna Ljósið skín í myrkrinu og hjálparákallið SOS,“ segir Jón Hlöðver. „Þetta var árið 2017 og ég var að fikta við að semja sinfóníur fyrir sjálfan mig. Ég fann að þarna var efniviður enda er svo margt táknrænt við morsið. Með morsi er verið að kalla á hjálp og þegar hún berst kemur gleðin. Ég fór líka að hugsa um það að ef maður morsar í kolniðamyrkri þá kemur ljósið með björguninni. Ég hafði sem barn lært þjóðvísuna Ljósið kemur langt og mjótt og sá fyrir mér að ef maður væri inni í göngum í gömlum bæ og sæi svo ljósið koma á móti sér, myndi maður fyllast gleði. Í Jóhannesarguðspjallinu er talað um að ljósið skíni í myrkrinu og myrkrið nái ekki að kæfa það. Ég vildi líka koma því að. Sinfónían fjallar um það að fara úr myrkrinu í ljósið og leiðina inn í björgunina – ekki veitir af á þessum tíma.“

Takk í morsi

Ekki kemur á óvart að fyrsti þáttur sinfóníunnar hefst á neyðarópum, SOS. Arngrímur morsar orð Jóhannesarguðspjalls um ljós og myrkur í öðrum þætti og þriðji þátturinn er svar við því morsi. Í fjórða kaflanum birtast í tónum hugleiðingar um stríð og frið og í lok verksins segir hljómsveitin takk í morsi.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jón Hlöðver og Arngrímur leggja saman. Árið 2008 samdi Jón Hlöðver verkið Flugvalsinn. Verkinu var útvarpað og Arngrímur var með útvarp í flugvél sinni og hreyfði vélina í loftinu í takti við tónlistina.

Lífið er glíma

Jón Hlöðver er lamaður og í hjólastól eftir að hafa fengið æxli í höfuð og gengist undir aðgerð. Það var árið 1988 og hann var fjörutíu og fjögurra ára gamall. „Ég var skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri og í alls konar stússi sem tengdist tónlist og öðru, var til dæmis leiðsögumaður. Ég hafði lítinn tíma til að semja, en hellti mér í það eftir veikindin.“

Blaðamaður spyr hann hvort áfallið hafi ekki verið gríðarlega mikið. Hann svarar: „Þegar maður lendir í svona held ég að það sé miklu meira áfall fyrir aðra en mann sjálfan. Lífið er glíma við sjálfan sig og ég reyndi að halda mér gangandi. Það er mitt verkefni.“

Þess skal getið að tónlistarmaðurinn og félagsfræðingurinn Kjartan Ólafsson mun halda kynningu fyrir tónleikana um verkin og höfundana. Kynningin fer fram á veitingastaðnum Garúnu í Hofi og hefst klukkustund fyrir tónleikana.