Það eru fáir sem þekkja króka og kima landsbyggðarinnar jafn ítarlega og Guðni Ágústsson, en hann segir frá ferðum sínum um landið í nýútgefinni bók sinni, Guðni – á ferð og flugi.

Þar má finna viðtöl frá heimsóknum Guðna um dreifbýlið og þær oft kostulegu sögur sem heimamenn höfðu honum að segja.

„Rauði þráðurinn í bókinni er auðvitað sauðkindin,“ segir Guðni. „Þetta fólk á flestallt kindur, enda eru sauðfjárbændur skemmtilegustu menn landsins.“

Í för með Guðna var Guðjón Ragnar Jónasson, kennari í Menntaskólanum í Reykjavík, sem átti hugmyndina að ævintýrinu.

Félagarnir heimsóttu fólk hér og þar og settu upp samkomur þar sem lagt var upp úr góðum sögum og Guðjón gerði sitt besta við að skrásetja stemninguna.

„Við áttum samtöl við alls konar fólk sem hafði frá svo mörgu að segja, en öllu skemmtilegu,“ segir Guðni.

„Guðjón skrifaði þetta svo niður en umgjörðin er okkar beggja.“

Grindvískur krimmi

Í bókinni fer Guðni um víðan völl og í hópi viðmælenda kennir ýmissa grasa.

„Þarna koma fyrir hálfbrjálaðir sauðfjárbændur í Grindavík þar sem við upplýsum glæpasögur af því hvernig þeir stálu eigin kjöti af heimaslátruðu sauðfé úr innsigluðum gámum lögreglunnar,“ lýsir Guðni.

„Síðan fórum við í Vestmannaeyjar þar sem má finna magnaða bændur sem hafa fé sitt í eyjunum. Við fórum meðal Húnvetninga og hittum sjálfan Geirmund Valtýsson í Skagafirði sem hefur sungið fyrir þessa þjóð í sextíu ár. Það hafa fleiri hjónabönd orðið til undir vangalögum Geirmundar en nokkurri annarri hljómsveit.“

Þá heimsóttu félagarnir Axel Rúnar Guðmundsson á Valdarási sem gerðist svo frægur að spila með Manchester United.

„Albert Guðmundsson ráðherra fór svo með hann til Frakklands, enda gríðarlegt efni sem hann var þessi drengur,“ segir Guðni.

„Við heimsóttum líka biskupssoninn, hagfræðinginn og bóndann á Einarsstöðum, Jón Magnús Sigurðarson, sem rekur sauðfé og leiðsegir í einni frægustu laxá landsins, Hofsá.“

Þótt Guðni hafi í gegnum árin þvælst út um landið og heimsótt hvert einasta hérað var þó eitt og annað sem kom honum á óvart á fyrrnefndri ferð og flugi.

„Suma ætluðum við ekkert að tala við, en þeir urðu frábærir viðmælendur,“ lýsir Guðni.

„Það var eins og við værum leiddir af himnum ofan til sumra sem við vissum ekki að væru til. Það var vakað yfir okkur. Fyrir vikið er þetta lifandi bók full af húmor og skemmtilegu fólki og á erindi til fólks sem saga þjóðar.“