Það er verðugt verkefni að spreyta sig á nýjum vinklum við kunnugleg stef. Það getur reynst snúið að fanga nýja sýn á algengustu myndefnin, en mannsandanum eru engin takmörk sett og sífellt skjóta upp kollinum nýjar hugmyndir úr brunnum sem taldir voru þurrausnir.

Ljóssíur (ND filters) veita tilvalið tækifæri til frumlegrar nálgunar, en með þeim má lengja ljósop eftir smekk hvers og eins. Hér er notuð 10 stoppa sía sem gerir kleift að halda linsunni opinni í 5 mínútur við þessi birtuskilyrði. Afraksturinn er sléttur sjór og mjúkur himinn við annan syðsta odda landsins. Dyrhólaey missti vegtylluna í Kötlugosinu 1918, en Kötlutangi gefur sífellt eftir og brátt mun fyrri sess verða endurheimtur.

Girðingin í Ópi Edwards Munch er dæmi um lögmálið um leiðandi línu.

Ljósmyndarar notfæra sér sömu lögmál og myndlistarmenn hafa gert um aldir. Girðingin í Ópinu er dæmi um leiðandi línu og snilld Edwards Munch. Hér er sjávarmálið notað sem leiðandi lína (e. leading line) sem dregur augað að gatinu í Tónni þar sem Háadrang ber við sjónarrönd, en hann eykur enn á dýptina.

Það er verðugt verkefni að huga að mögulegum leiðandi línum til að styrkja myndbyggingu, ef til vill er það slóði, bryggja, brautarteinar eða rák í sandi, möguleikarnir eru óþrjótandi. Í myndvinnslu má skerpa á áherslum, ýta undir andstæður ljóss og skugga á sandinum og í móberginu.

Myndina má sjá í fullri upplausn á frettabladid.is og ragnarsson.com

Hallgrímur Tómas Ragnarsson, ljósmyndari.