Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir er forstjóri og eigandi Torgs ehf., sem gefur út Fréttablaðið, tímaritið Glamour og Iceland Magazine, fyrir ferðamenn. Ingibjörg er þekkt úr viðskiptalífinu og er meðal annars sjöundi stærsti hluthafi í Högum og eigandi og hönnuður 101 hótels. Ingibjörg var alin upp í Hagkaup af föður sínum, verslunarmanninum Pálma Jónssyni, og fetaði snemma í fótspor hans og fór út í eigin rekstur. Henni er staða kvenna á vinnumarkaði hugleikin.

„Það er vitaskuld þannig að sögulega hafa konur verið beittar óréttlæti á vinnumarkaði og þeim er síður treyst fyrir ábyrgðarstöðum. Það er reyndar ekki svoleiðis innan minna fyrirtækja. Það var samt mjög lífrænt ferli, gerðist eiginlega af sjálfu sér,“ segir Ingibjörg, en konur eru áberandi í stjórnunarstöðum fyrirtækja í hennar eigu. Þannig er útgefandi Fréttablaðsins kona, annar tveggja ritstjóra blaðsins, fjármálastjórinn og framkvæmdastjóri rekstrarsviðs allt konur. Hótelstjórinn, aðstoðarhótelstjórinn og veitingastjórinn á 101 hótel eru allar kvenkyns. 

„Svo er það þannig í öllum fyrirtækjum að það er einhver sem græjar allt. Hjá mér er það kona í smiðsbuxum sem lærir rafvirkjun á kvöldin,“ segir hún. Rekstur eignarhaldsfélags Ingibjargar, IP Studium, er í höndum kvenna.

Litið á kynjakvóta sem kvöð

Ingibjörg segist heppin með stjórnendur í sínum fyrirtækjum. „Það er mín upplifun að konur og karlar séu ólíkir starfskraftar að mörgu leyti, áherslurnar eru gjarnan öðruvísi. Eftir því sem ég öðlast meiri reynslu, sé ég alltaf betur og betur hversu mikilvægt er að sjónarmið beggja kynja heyrist innan fyrirtækja og það er eiginlega sama um hvernig rekstur ræðir. Mér finnst ekki síður mikilvægt að veita ungu fólki tækifæri til þess að þroskast og dafna og ná árangri. Um daginn var svo kosið í stjórn Haga, sem ég fylgdist náið með, og mér fannst það mjög áhugavert ferli, verð ég að segja,“ segir Ingibjörg og bendir á að fyrir tæpum áratug hafi verið gerð breyting á löggjöf um hlutafélög og þeim skylt að hafa að minnsta kosti 40 prósent hlutfall hvors kyns í stjórninni.

„Mér hefur því miður fundist þróunin sú að fólkið sem ræður lítur á þennan kynjakvóta sem kvöð. Box til að haka við. Mér hefur sýnst þurfa að leita sérstaklega eftir konum til að bjóða sig fram, til að mynda í stjórnir í skráðum félögum. Það sem svo gerist, aftur og aftur er að það er leitað til þeirra sömu og þar með, óumflýjanlega, er komið í veg fyrir að nokkur endurnýjun eigi sér stað. Þarna finnst mér við þurfa að staldra við. Hvers vegna eru konur ekki að bjóða sig fram í stjórnir eins og karlarnir? Þarna er einhver tregða. Þurfa þær ef til vill meiri hvatningu frá konum sem ráða? Það er beinlínis nauðsynlegt að sé samkeppni milli kvenna, eins og á milli karla, um stjórnarsæti. Þannig fáum við besta fólkið í stjórnirnar. Ég vil að við finnum út úr því hvernig við getum breytt þessu, að við sem höfum reynsluna hvetjum konur okkur yngri til þess að bjóða sig fram og vera óhræddari. Trúðu mér, karlarnir eru óhræddir.”

Full skoðanaglöð á köflum

Sjálf segist hún ekki hafa farið varhluta af því að vera kona í rekstri. 

„Það er til dæmis þannig að þegar er fjallað um fyrirtæki í minni eigu er gjarnan látið að því liggja að ég sé einhvers konar hliðarsjálf eiginmanns míns. Það er frekar súrt. Þótt ég sé kona, þá á ég nefnilega þau fyrirtæki sem eru skráð í minni eigu. Þetta hefur sérstaklega verið erfitt fyrir ákveðna fjölmiðla að skilja, Ríkisútvarpið og svo nokkra smámiðla sem Ríkisútvarpið svo hampar, að ég hafi skoðanir og jafnvel úrslitavald um eigin rekstur. Þetta fer alveg nett í taugarnar á mér, að ég hafi orðið að einhvers konar viljalausu verkfæri þegar ég gifti mig tæplega fimmtug og missti greinilega sjálfræði og allar mínar eignir um leið. Mér fannst það alveg merkilegt að maðurinn minn varð ekki eignalaus við ráðahaginn eins og ég,“ segir Ingibjörg og hlær. „Það breytir því ekki að maðurinn minn er minn besti samstarfsfélagi, bæði í leik og starfi. Hann er mjög hrifinn af kvennaveldinu í kringum okkur.

Steinunn Guðbjartsdóttir, sem var formaður skilanefndar Glitnis, gekk meira að segja svo langt að lögsækja mig fyrir dómstólum fyrir að vera hliðarsjálf eiginmanns míns. Megi hún hafa ævarandi skömm fyrir. Skemmst frá því að segja að það dómsmál var látið niður falla. Góður vinur okkar hjóna kom nokkru síðar með rauðvínsflösku heim, gaf mér, en tegundin heitir Alter Ego de Palmer. Þessi flaska er óupptekin og stendur inni í glerskáp í eldhúsinu og við hlæjum að þessu reglulega vegna þess að ég held að allir sem þekki mig geri mér það ekki upp að vera hliðarsjálf nokkurs manns,“ segir Ingibjörg, hlæjandi. „Það er kannski frekar hitt, að fólkinu mínu finnist ég full skoðanaglöð á köflum.“

Ingibjörg segir mikilvægt að þeir reynslumeiri hjálpi þeim sem yngri eru að feta sig í atvinnulífinu, þvert á kynin. „Það má ekki skilja það sem svo að ég ráði ekki líka karla, ég er í grunninn bara að leita að góðu fólki. En þessar hæfu konur hafa einhvern veginn komið til mín í bunkum og endað efst í skipuritinu sem fer þeim mjög vel. Það hefur verið mjög náttúrulegt, sennilega af því að ég er opin fyrir því,“ segir hún að lokum.

Þessi grein birtist í sérblaðinu Konur í atvinnulífinu sem fylgdi með Fréttablaðinu.