Leikkonan Alyssa Milano hefur lagt til að konur neiti að stunda kynlíf með mönnum þar til að löggjöf um þungunarrof í Georgíu-fylki í Bandaríkjunum er dregin til baka. Sérstaklega ströng löggjöf var samþykkt þar á dögunum og tekur hún gildi í janúar.

Það er greinilega tekist á um rétt kvenna til þungunarrofs á fleiri stöðum en á Íslandi. Tilefnið að verkfallsboðun Milano er nýlega samþykkt löggjöf í Georgíu-fylki, þar sem lagt er til að þungunarrof verði bannað eftir að hjartsláttur fósturs er mælanlegur. Slíkt gerist oftast í kringum sjöttu viku meðgöngu, og hefur löggjöfin vakið harða gagnrýni í ljósi þess að sjaldan eru konur meðvitaðar um þungun sína svo snemma á meðgöngunni.

Milano er einkum þekkt fyrir leik sinn í þáttunum Charmed, þar sem hún leikur góðviljuðu nornina Phoebe Hailliwell. Á Twitter síðu sinni leggur hún til að konur neiti karlmönnum um kynlíf þar til að slakað sé á löggjöfinni í Georgíu og víðar. „Það er verið að útrýma réttindum okkar. Þar til konur geta stjórnað eigin líkama getum við ekki hætt því að verða ófrískar. Fylgið mér í því að stunda ekki kynlíf þar til við fáum sjálfræði yfir okkar eigin líkama á ný,“ skrifar leikkonan á Twitter.