Sögur útgáfa hefur gefið út sönghljóðbækur frá árinu 2015. „Þá komu Vögguvísurnar okkar út fyrst. Síðan erum við búin að gefa út tíu bækur, og svo komu út þrjár bækur í ár,“ segir Kristján Freyr Halldórsson, forleggjari og tónlistarmaður.

Þægilegar útsetningar

Að sögn Kristjáns var frá upphafi lagt upp með að leyfa yngstu lesendunum að kynnast tónlist í gegnum bækur. „Þarna er ekki verið að finna upp hjólið, en við huguðum að því frá fyrstu tíð að tónlistin sem slík væri ekki skerandi. Að hún væri haganlega útsett fyrir þessi gæði sem eru í þessari dós. Jón Ólafsson hefur unnið þessar útsetningar. Þær eru þægilegar og ekki mikið um trommur og popp,“ segir hann.

Kristján segir tónlistina hafa góð áhrif á börn, hún gleðji og sefi um leið. „Þarna fá börn frið og njóta bókanna með þessum tveimur skilningarvitum, þegar þau skoða og hlusta um leið.“

Snjókorn falla er jólalagabók sem heitir eftir hinni geysivinsælu ábreiðu Þórhalls Sigurðssonar, Ladda, á Shakin’ Stevens slagaranum Snow is falling. „Þarna eru Laddi og bestu vinir hans. Þar eru jólalögin sem hann hefur gert vinsæl í gegnum tíðina, og líka klassísku jólalögin. Jólasveinar ganga um gólf og Ég sá mömmu kyssa jólasvein og allt það. Lög sem þessir karakterar, eða skjólstæðingar Ladda syngja, í þessum útsetningum sem ég nefndi hérna áðan.“

Aðspurður segir Kristján að útgáfan hafi leitað til Ladda með hugmyndina þegar stóð til að gefa út jólalagabók í annað sinn. „Við gáfum út jólabókina Jólalögin okkar fyrir nokkrum árum og fengum rosalega góðar viðtökur og hún er uppseld. Okkur fannst skemmtilegra að gefa hana svona út og við fengum Ladda til að gera þetta með okkur,“ segir Kristján.

Jólaball í hljóðkerfið

Spotify-Wrapped árslistarnir hafa gengið manna á milli síðustu sólarhringa, þar sem áskrifendur tónlistarveitunnar deila mest spiluðu lögum ársins. Kristján segir marga foreldra hafa hlegið að því hvernig listarnir blanda saman stórstjörnum á borð við Beyoncé og Harry Styles við Leikhópinn Lottu og Hafdísi Huld. Kristján segir það erfiðleikum bundið þegar umræddir foreldrar reyna að vera töff. Þarna séu bækurnar hugsanlega svarið.

„Við teljum að við séum þarna með lausn. Börn fara með bækurnar í koju, með sinn playlista alveg í friði. Ég held að við getum öll verið sammála um að í stað þess að senda börn í bólið með einhver tæki, sé þetta miklu fallegra.“

Þá er hægt að nota bókina í ýmsum tilgangi, en á spiladósinni má finna tengi fyrir svokallaða „jack snúru“, fyrir heyrnartól eða hljóðkerfi.

„Ef þú vilt halda jólaball heima hjá þér ertu bara kominn með lausnina,“ segir Kristján. „Við erum búin að leysa mjög mörg vandamál með þessari bók.“

Valli rostungur í sókn

Auk jólalagabókarinnar og vöggu­vísnabókarinnar Sofðu rótt með Friðriki Dór, Hildi Völu og KK, er komin út bókin Rostungurinn Valli. „Hér erum við búin að spenna bogann allverulega. Þetta er sagan um Valla rostung sem kom til Íslands og braut smábáta við höfnina á Höfn í Hornafirði. Þetta er bók um ævintýri hans og þarna eru alvöru hvalahljóð sem fylgja. Börnin kynnast hvalahljóðum og hljóðum rostunga og sela. Svo er hljóðbók í þessu líka,“ segir hann. Ef fólk vill skoða og hlusta í leiðinni er þetta komið saman í eina bók, það eru ekki mörg fordæmi fyrir þessu,“ segir Kristján Freyr forleggjari hjá Sögum.