Ragnhildur útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010 og hefur unnið ötult að myndlist síðan þá. „Á svo til hverju ári frá útskrift hef ég gefið út nýtt bókverk og haldið sýningar, bæði hér heima og erlendis. Í upphafi vann ég meira með bókverk og skúlptúra en síðari ár hef ég snúið mér að málverkinu.“ Meðal annars má líta nokkur málverk eftir Ragnhildi á sýningunni Allt sem sýnist sem stendur yfir í Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum.

Nýr og blautur miðill

Upp á síðkastið hefur Ragnhildur verið að þreifa sig áfram í nýjum miðli.

„Það er stutt síðan ég greip í vatnslitina og fór að nota þá eitthvað að ráði. Fyrst og fremst var það vegna þess hve hentugur þessi miðill er til þess að nota hvar sem man er stödd hverju sinni.“

Ragnhildur stendur vaktina í versluninni Hjarta Reykjavíkur, ásamt manni sínum, listamanninum Jóhanni Ludwig Torfasyni, sem er jafnframt eigandi verslunarinnar. Hjarta Reykjavíkur er bæði gjafavöruverslun og verkstæði þar sem Jói, eins og hann er vanalega kallaður, vinnur vörur verslunarinnar, rammar inn og fleira.

Ragnhildur beitir tækni þar sem hún notar litinn þéttar en í hefðbundinni vatnslitamálun. Þannig nær hún fram þessum safaríku litatónum.

„Það er ekki óvanalegt að unnið sé með höndunum í búðinni og sjálf stend ég vaktina við afgreiðsluborðið sem búið er til úr gömlum hefilbekk sem pabbi minn skildi eftir sig. Þar sit ég með vatnslitina og vinn þessi litlu verk mín. En ég valdi að nota vatnsliti fyrst og fremst vegna þess hve handhægir þeir eru við svona kringumstæður. Þeir þorna fljótt og eru lyktarlausir. Verkin vinn ég á pappír svo ég get setið með þetta í kjöltunni og vatnslitað. Heima er ég svo með stúdíó þar sem ég mála olíumálverk og geri stærri og plássfrekari verk. Þar vinn ég meðal annars að nýjum olíumálverkum fyrir nýja sýningu.“ Ragnheiður segir þó að verkin séu ekki komin nógu langt á veg til að hún geti gefið upp nákvæma tímasetningu.

Ragnhildur hyggur á að opna sýningu í nýju sýningarrými Hjarta Reykjavíkur með kyrralífsmyndunum í september.?Fréttablaðið/?Sigtryggur Ari

Notaleg stemning

Hönnunar- og gjafavöruverslunin Hjarta Reykjavíkur er til húsa við Laugarveg þar sem Rauða kross búðin var áður til tveggja áratuga. Þar fást ýmsar spennandi vörur svo sem púsl, könnur, glasamottur og veggspjöld sem eru myndskreyttar með teikningum eftir Jóa af völdum húsum í miðborginni.

„Konurnar sem stóðu vaktina í þessu húsi sátu oft á nákvæmlega sama stað og ég og prjónuðu á milli þess sem þær afgreiddu fólk. Sjálf er ég engin prjónakona svo ég greip í vatnslitina til þess að hafa eitthvað í höndunum. Svo er líka bara svo indælt að vera í Hjartanu. Þar er maðurinn minn að vinna og við erum í sífellu að þróa nýjar vörur og bæta í vöruflokka. Svo kemur kötturinn Negull sem býr í næstu götu daglega í heimsókn til okkar, vinir og vandamenn og okkar dásamlegu viðskiptavinir koma við. Það er góð stemning í miðborginni.“

Í búðinni má yfirleitt sjá Ragnhildi mála vatnslitaverkin sín og myndefnið er iðulega grænmeti og eldpipar. „Mig vantaði eitthvað viðfangsefni til að mála í búðinni. Þegar ég skrollaði í gegnum myndirnar í símanum mínum var ég fljót að reka mig á gífurlegan áhuga minn á ávöxtum og grænmeti í kyrralífsmyndum. Síðustu ár hef ég verið dugleg að taka kyrralífsmyndir af matvöru án þess að gera neitt meira við þær. Ég ákvað því að koma við í Bónus á Laugavegi og grípa þar nokkur vel valin aldin í vatnslitaverk.“

Grænmeti, ávextir og eldpipar verður iðulega fyrir valinu í vatnslitaverkunum hennar Ragnhildar.
Sigtryggur Ari

En af hverju eldpipar?

Vatnslitamyndirnar hennar Ragnhildar eru af ýmiss konar grænmeti en iðulega innihalda þær einnig eldpipar. „Fyrst og fremst er það vegna þess að ég elska eldpipar! Ég elska sterkan mat og elda mikið með chili. Svo er þetta einfaldlega svo svakalega fallegur ávöxtur!“

Laumuleg erótík

Verk Ragnhildar slá allajafna skemmtilegan erótískan tón þar sem hún leikur sér með mörkin á milli þess hversdagslega og kynferðislega. „Ég er víst sek um þetta,“ segir hún. „Oftast finnst mér svolítið gaman að því að slá erótískan tón á óljósan hátt. Til dæmis er hálf asnalegt að uppstilling sem inniheldur tómata og chili geti verið erótísk, en á einhvern undarlegan hátt er það samt. Það er það sem mér finnst svolítið gaman að leika mér með, því ég vinn ekki eingöngu kyrralíf, heldur verður að vera eitthvað annað í því en bara grænmeti og ávextir. Þetta eru því myndir sem þú annað hvort setur upp í eldhúsinu eða svefnherberginu,“ segir Ragnhildur og glottir.

Sigtryggur Ari

Ný aðferð ný tækni

Vatnslitatæknin er þekkt fyrir að vera nokkuð ólík öðrum aðferðum í málverki. Oftast er unnið frá ljósu yfir í dökkt og það þarf að passa vel að skilja eftir ljósa fleti, því ekki er hægt að nota ljósari lit til að þekja dekkri. Í olíumálverkinu er hins vegar hægt að fara með ljósum lit ofan á dökkt svo lengi sem flöturinn er þornaður. Ragnhildur segist ekki hafa haft mikla reynslu af vatnslitun áður en hún byrjaði að mála grænmeti í Hjarta Reykjavíkur.

„Ég hef vatnslitað af og til síðan að ég var krakki en núna nota ég annarskonar tækni þar sem ég nota litinn mun þéttar en ég hef áður gert. Svo þessi aðferð er alveg ný fyrir mér. Satt að segja læri ég á þetta með hverri myndinni sem ég geri, stundum gengur það upp og stundum klúðrast það rækilega. Ég fann líka grein á netinu, sem ég hálflas, um undirstöðuatriði vatnslita og hef í raun stuðst við eitt gott ráð úr henni. Það er að ráðast í erfiðasta part verksins og reyna að tækla það fyrst. Ef það klikkar og gengur ekki upp þá er man ekki búin að leggja of mikla vinnu og tíma í heilt verk sem klikkar. Þetta atriði á til dæmis alltaf við eggaldin hjá mér sem mér finnst bæði skemmtilegt að vinna en líka mjög erfitt.“

Kötturinn Negull kemur daglega í heimsókn til að heilsa upp á gesti og gangandi.
Sigtryggur Ari

Fallegar myndir fyrir heimilið

Vatnslitaverkin hennar Ragnhildar verða til sýnis í glænýju sýningarrými verslunarinnar í september. „Þar má skoða og kaupa myndirnar innrammaðar. Einnig verða til sölu hágæða eftirprent af þeim á gæðapappír í tveimur stærðum, A3 og A4, á góðu verði.“