Ég var orðin mjög spennt fyrir fermingunni minni en ég er ekki ósátt við að það hafi þurft að fresta henni. Ég hef ekki heldur fundið fyrir því að fermingarsystkin mín séu spæld. Við látum okkur bara hlakka til aðeins lengur og það er betra að halda fermingarveislu þar sem gestirnir geta komið án þess að eiga á hættu að smitast af kórónaveirunni en að bjóða í veislu þar sem fáir komast,“ segir fermingarstúlkan Matthildur Sigurjónsdóttir.

Hún átti að fermast í Lindakirkju í lok næstu viku, eða laugardaginn 4. apríl, en vegna samkomubanns hefur fermingin færst fram til 5. september.

Matthildur í fermingarferðinni til New York, nánar tiltekið í Empire States-byggingunni með útsýni yfir Manhattan í baksýn.

„Við vorum búin að undirbúa allt fyrir ferminguna og ég var meira að segja búin að fá fermingargjöfina mína frá mömmu og pabba aðeins fyrr,“ upplýsir Matthildur sem hafði látið sig dreyma um borgarferð til New York í fermingargjöf.

„Við mamma mín og pabbi flugum til New York 13. febrúar og gistum þar í fjórar nætur. Mig langaði að upplifa þessa stórborg og mér fannst ég þekkja hana fyrir fram því maður hefur séð svo margar hliðar á New York í bíómyndum og sjónvarpsþáttum,“ segir Matthildur sem fór utan til New York á hárréttum tíma því um miðjan febrúar voru engin viðbrögð orðin við kórónaveirunni vestra.

„Ég var mjög ánægð með ferðina. Það er svo margt spennandi að sjá í New York en skemmtilegast þótti mér að fara upp í Empire States-bygginguna og horfa yfir borgina. Við pabbi áttum svo erfitt með að venjast tímamismuninum og vorum komin út á Times Square klukkan sex um morguninn til að fá okkur morgunmat á Starbucks og sjá borgina vakna,“ segir Matthildur kát.

Hér stendur Matthildur fyrir utan Friends-bygginguna í New York en hún er mikill aðdáandi Friends-þáttanna.

Sólbrún í fermingu að hausti

Matthildur hafði safnað síðu hári fyrir fermingargreiðsluna.

„Ég var ákveðin í að láta klippa mig stutt eftir ferminguna, því ég vildi ekki taka áhættu fyrir fermingardaginn ef stutta hárið yrði ekki flott, en þegar fermingunni var frestað fór ég bara í klippingu. Ég er ánægð með stutta hárið en hef líka næstum hálft ár til að láta það vaxa meira niður fyrir ferminguna,“ segir Matthildur.

Veislan átti að fara fram á veitingastaðnum Verinu í Sjávarklasanum á Granda. Að Matthildi stendur stór frændgarður og hafði hún boðið um 130 gestum í dýrindis humarsúpu.

Matthíldur með Starbucks-drykk klukkan sex að morgni á Times Square.

„Ég hlakka mikið til að eiga skemmtilegan dag með fjölskyldu og vinum eftir að hafa fermst í haust. Mamma og pabbi eru bæði Norðfirðingar og nánast öll fjölskyldan mín býr í Neskaupstað. Ég er því virkilega spennt að allir séu að koma suður í ferminguna. Mér finnst svo fermingargjafir tilheyra fermingardeginum sjálfum í stað þess að fá þær áður sem eins konar sárabætur af því fermingin frestaðist,“ segir Matthildur sem hefur notið þess að vera í fermingarfræðslunni og syngur í unglingakór Lindakirkju.

„Ég hef lært margt í fermingarfræðslunni, eins og um reglur samfélagsins og gott siðferði,“ segir Matthildur sem er fædd í Vestmannaeyjum en fluttist í Kópavoginn á fjórða árinu og bjó á Englandi í tvö ár þegar faðir hennar, Sigurjón Gísli Jónsson, framkvæmdastjóri Norðanfisks, var þar við störf, en móðir hennar er Þóra Matthildur Þórðardóttir og á Matthildur tvær yngri systur.

Matthildur var ánægð með fermingarferðina til New York þar sem hún fór meðal annars að Ground Zero, þar sem þetta háhýsi stendur hjá.

„Fermingarfötin eru samfestingur sem lítur út eins og svartar buxur og hvítur blúndutoppur. Ég vona að hann passi enn þá á mig í haust og reikna ekki með að vaxa mjög mikið í sumar, ég er orðin svo hávaxin, 173 sentimetrar. Það er líka annar kostur við það að fermast eftir sumarið. Þá er maður orðinn sólbrúnn og sætur, hefur enn meiri tíma til að græja sig og veðrið er oft fallegt.“