Það er sífellt að verða skynsamlegra að minnka við sig og búa sér heimili í minna rými. Minna þarf aftur á móti alls ekki að vera verra og það eru ýmis ráð til að láta litlu íbúðina virka rúmbetri og opnari og veita þannig heimilismeðlimum enn meiri ánægju.

Farðu í gegnum dótið þitt

Byrjum á að horfa ekki á smæðina sem hamlandi heldur sem möguleika á að vera virkilega skapandi. Ef lágt er til lofts og gólfpláss af skornum skammti er mikilvægt að huga að því hvernig þú fyllir rýmið og af hverju. Mínimalismi hefur tröllriðið innanhússarkitektúr undanfarin ár og er góð leið í þessu tilfelli enda mikilvægt að troðfylla ekki heimilið af dóti, minna dót lætur heimilið virka opnara og hreinlegra. Þetta ætti að vera markmiðið í öllum minni herbergjum.

Notaðu liti til að skapa dýpt

Veldu veggmálningu í litum sem opnar rýmið fremur en að lokar því, sérlega í aðalrýmum heimilisins, stofu og eldhúsi. Hvítur verður oftar en ekki fyrir valinu en er ekkert endilega alltaf það sem fólk vill. Ef þig langar að brjóta þetta upp með öðru en hvítu ættirðu að íhuga að mála loftið í í öðrum lit, þannig virðist lofthæðin meiri, önnur leið er að velja þér gólfefni í ljósari lit.

Gardínur geta hjálpað

Hangandi gardínur skapa vissulega hlýleika en þar sem lofthæð er lítil geta þær líka platað augað til að finnast hún meiri. Þumalputtareglan hér er að gardínustöngin sé 10 til 15 sentimetrum fyrir ofan gluggann. Hugmyndin er sem sagt að þær séu háar og dragi þannig augun upp á við. Vandaðu valið þegar kemur að mynstrinu og gættu þess að það passi rýminu vel. Fallegt mynstur gleður augað og tekur jafnvel athyglina frá því að rýmið er mögulega aðeins of aðþrengjandi.

Síðar gardínur geta sett fallegan svip á lítil rými en þá er mikilvægt að stöngin sé 10 til 15 sentimetra fyrir ofan gluggann. Fréttablaðið/Getty

Skipuleggðu húsgögnin

Ef þú ert að flytja inn í litla íbúð ættirðu að taka ákveðna birgðastöðu á húsgögnum. Stærri húsgögn í minna rými plata augað og láta rýmið virka mun stærra en það í raun er. Við erum auðvitað ekki að tala um að fylla rýmið af risastórum hlunkum en hafðu stærðina í huga þegar þú velur þér sófa, stóla og þess háttar. Þó stærðarhlutföll húsgagna séu mikilvæg þá er nýting þeirra enn mikilvægari. Veldu þér húsgögn sem geta nýst á fleiri en einn hátt, sófa sem breytist í rúm eða hliðarborð sem raðast hvert undir annað. Festu sjónvarpið upp á vegg í stað þess að hafa það á sjónvarpsborði eða skenk og notaðu plássið undir sjónvarpinu fyrir auka sæti. Það er gaman og gefandi að fara óhefðbundnar leiðir í þessum efnum.

Njóttu þess að gera heimilið að þínu

Hvort sem um tímabundna ráðstöfun er að ræða, fyrstu íbúð eða að einfaldlega minna rými sé það eina í boði, er um að gera að njóta þess að gera heimilið hlýlegt, leyfa sköpunargleðinni að njóta sín og ekki bera litlu íbúðina saman við einbýlishús frænda þíns.