Hægt er að gera mismunandi útgáfur af lasagna og um að gera að prófa sig áfram. Hér eru nokkrar hugmyndir að mjög góðu lasagna fyrir alla fjölskylduna. Afgangur af lasagna er upplagður matur til að hafa með sér í nesti.

Grænmetislasagna

Fyrir 4-6

2 stórir laukar, smátt saxaðir

4 stórar gulrætur, sneiddar

6-8 stórir sveppir, sneiddir

1 búnt spergilkál, skorið í bita

1 lítið blómkálshöfuð, skorið í bita

1 dós hakkaðir tómatar

1 dós tómatkraftur

1 dós kotasæla

2 hvítlauksrif, pressuð

4 tsk. óreganó

3 tsk. basil

1 tsk. timian

salt og pipar eftir smekk

2 dl vatn

1 tsk. rauðvínsedik

1 grænmetissúputeningur

Laukur, gulrætur, brokkólí, sveppir og blómkál svissað aðeins í ólífuolíu á pönnu með kryddinu. Allt hitt sett út í og látið krauma í hálfa klukkustund.

Ostasósa

30 g smjör

3 msk. hveiti

5-6 dl mjólk

200 g rjómaostur

Sósan er bökuð upp eins og jafningur og rjómaosturinn síðan bræddur út í. Þá er allt sett í stórt eldfast mót, fyrst ostasósan, þá lasagnablöð, grænmetissósan og svo koll af kolli. Efst er gott að strá rifnum osti. Bakað í ofni við 200 gráður eftir leiðbeiningum með pastanu. Það er gott að hafa hvítlauksbrauð með þessum rétti.

Lasagna með spínati og ricotta er mjög góð uppskrift.

Lasagna með spínati, sætum kartöflum og ricotta

Fyrir 6

2 sætkartöflur

2 msk. olía

2 dósir tómatar í bitum

1 msk. hunang

5 hvítlauksrif

500 g ricotta

20 g parmesan ostur

½ tsk. chilli-duft eða flögur

1 msk. fersk salvía

¼ tsk. múskat

2 tsk. salt

3 tsk. pipar

500 g ferskt spínat

1 kúrbítur

100 g rifinn mozzarella

Hitið ofninn í 180°C. Skrælið sætu kartöflurnar og skerið í bita. Sjóðið þar til þær verða mjúkar. Takið vatnið frá og músið bitana. Setjið chilli-duft saman við kartöflumúsina, múskat, pipar og niðurskorna salvíu.

Á meðan kartöflurnar sjóða er hægt að útbúa tómatsósu. Setjið olíu á pönnu og steikið hvítlaukinn. Bætið tómötum við en maukið síðan með töfrasprota. Þá er hunangi bætt saman við, salti og pipar. Blandið ricotta með rifnum parmesan, salti og pipar. Notið ostaskera og skerið kúrbítinn í lengjur.

Setjið tómatsósu í botninn á eldföstu móti, síðan spínat, kúrbítslengjur, sætkartöflumús og loks ricotta. Kúrbíturinn kemur raunar í staðinn fyrir pastablöðin en auðvitað má nota þau líka ef fólk vill. Endið á ricotta í efsta lagi og stráið mozzarella yfir. Bakast í ofni í 20-30 mínútur.

Lasagna með kjúklingahakki

Fyrir 8

400 g kjúklingahakk

1 laukur

2 hvítlauksrif

2 msk. olía

1 dós tómatar í bitum

1 dl vatn

½ kjúklingateningur

1 tsk. óreganó

1 tsk. sykur

Salt og pipar

Lasagnaplötur

Rifinn ostur

Steikið kjúklingahakkið á heitri pönnu og takið síðan til hliðar. Steikið því næst lauk og hvítlauk. Hellið tómötunum yfir og vatninu. Þá er kjúklingateningurinn settur út í ásamt óreganó, salti, pipar og sykri. Bætið kjötinu við og látið allt malla í tíu mínútur.

Leggið lasagnaplötur á milli kjötsósunnar, lag fyrir lag og stráið rifnum osti yfir.

Bakið í ofni eins og segir á leiðbeiningum á pastaumbúðum.

Tómatsósa fyrir lasagna

Ef þið viljið gera lasagna með nautahakki er hér mjög góð lasagnasósa.

2 dósir tómatar í bitum

2 msk. tómatpuré

2 laukar, smátt skornir

4 hvítlauksrif, smátt skorin

6 sveppir, skornir í sneiðar

2 rifnar gulrætur

1 sellerírót, rifin

1 chilli-pipar án fræja

2 tsk. chilli-duft

1 tsk. cumin

2 msk. ferskt óreganó, smátt skorið

¼ tsk. kanill

Salt og pipar

Hvít sósa með lasagna

2 msk. hveiti

4 dl mjólk

1 tsk. múskat

½ tsk. salt

½ tsk. pipar, hvítur

1 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 200°C. Steikið lauk og hvítlauk. Bætið síðan gulrótum, sveppum, sellerírót og chilli-pipar á pönnuna og steikið allt saman. Bætið kryddum saman við, tómötum og tómatpuré. Látið sósuna malla í um það bil 15 mínútur. Bragðbætið með salti og pipar. Ef notað er nautahakk er það steikt á annarri pönnu og sett saman við á eftir tómötunum.

Búið til hvíta sósu með því að hita 2 dl af mjólk. Notið hina 2 dl til að hrista upp í hveitinu svo það þykkist. Hrærið blönduna út í heitu mjólkina og látið sjóða í tvær mínútur. Hrærið stöðugt á meðan sósan þykknar svo hún verði jöfn og fín. Bætið múskati, salti og hvítum pipar út í.

Setjið fyrst hvíta sósu, síðan lasagnablöð og loks kjötblönduna lag fyrir lag. Endið á hvítri sósu og rifnum osti. Ef nota skal grænmeti í staðinn fyrir kjötið er gott að nota kúrbít, sellerí og eggaldin. Þá er sósan kjötlaus en niðurskornu grænmetinu er raðað á milli. Bakið í um það bil 30 mínútur.