Lára Ómarsdóttir, samskiptastjóri og fyrrverandi fréttakona, lagðist í lagasmíðar í kófinu og er tilbúin með Þá sé ég þig, lag og texta, sem hún stefnir á að gefa líf í hljóðveri.
„Mér er sagt að næsta skref sé að finna einhvern góðan til að útsetja lagið og síðan er bara að kýla á að finna hljóðfæraleikara og fara í stúdíó,“ segir Lára.

Og ætlarðu þá að syngja lagið sjálf?

„Já, af hverju ekki?“ segir hún og hlær. „Það kemur í ljós. Kannski fæ ég bara einhvern annan til að gera það en mér finnst það nú eiginlega aukaatriði,“ heldur hún áfram og bætir aðspurð við að líklega sé laginu best lýst sem popplagi. „Þetta er dægurlag sem fjallar náttúrlega um ástina og eitthvað þannig,“ heldur hún áfram hlæjandi.

Ómar hefur ekkert heyrt

Lára er dóttir Ómars Ragnarssonar sem er, eins og alþjóð veit, einn afkastamesti laga- og textahöfundur síðari tíma en hefur þó ekki borið Þá sé ég þig undir hann.

„Nei. Nei, nei. Maður verður að vera svolítið sjálfstæður sko,“ segir hún, hlær og bætir við að eftir því sem hún best viti hafi Ómar hvorki fengið veður af laginu né áformum hennar um að taka það upp og jafnvel syngja.
Hún er hins vegar ekki fjarri því að Ómar hafi óafvitandi haft einhver áhrif á að hún sé nú komin á kaf í tónsmíðar. „Já, já, það voru alveg hljóðfæri heima og svoleiðis þannig að maður var eitthvað smá að glamra á þetta.

Ég var eitthvað að spila á hljómborð þegar ég var yngri og þykjast vera að semja lög, texta og ljóð og eitthvað svona dót. Ég taldi mig vera mjög mikið ljóðskáld um tíma,“ segir Lára og hlær áfram eins og henni er eðlislægt.

Gripið í gítar

„Ég gerði alls konar svoleiðis en svo hætti það bara. Ég eignaðist barn þegar ég var nítján og svo eignaðist ég bara fleiri börn og fullt af þeim og þetta sat bara einhvern veginn á hakanum.“

Lára segist síðan hafa tekið þennan þráð upp fyrir fjórum eða fimm árum. „Þegar ég var með meiri tíma greip ég í það að fara að glamra á einhvern gítar og fór í hljómsveit. Lét svona gamla drauma rætast og mér finnst þetta eðlilegt skref eftir það.

Þannig að í Covid fór ég á lagasmíðanámskeið hjá Jóni Ólafssyni í Ný dönsk. Þar þurfti ég alltaf að læra heima og semja einhver lög og það endaði með því að ég var komin með lag og texta sem mér fundust bara nokkuð góð. Þá hugsaði ég með mér hvað ég væri að eiga lag og texta ef ég ætla ekki að gefa það einhvers staðar út og leyfa einhverjum að heyra það. Það er svona pælingin.“