Í dag laugardag lifna þau Lára og Ljónsi, sem urðu til í bókum Birgittu Haukdal, við á Litla sviði Þjóðleikhússins í jólasögu fyrir yngstu kynslóðina.

Birgitta Haukdal skrifaði árið 2017 fyrsta handritið að leiksýningunni sem nú fer á fjalirnar í fyrsta sinn. „Þá var ég með tveggja ára dóttur og langaði að skrifa leiksýningu sem hún hefði gaman af að fara á. Það ár varð sagan til.“

Ári síðar hafði hún svo samband við Guðjón Davíð Karlsson, Góa og fékk hann til að skrifa leikgerðina með sér.

„Gói er auðvitað einn af okkar færustu leikurum og er með sérstaka hæfileika til að skemmta börnum sem og fullorðnum. Við köstuðum handritinu á milli okkar í tvö ár og þegar okkur fannst það tilbúið höfðum við samband við Þjóðleikhúsið,“ segir Birgitta, en um er að ræða glænýja sögu um þau Láru og Ljónsa.

„Við Gói vinnum mjög vel saman. Erum bæði vandvirk en bæði með skemmtilega notalegt kæruleysi og gleði í okkar vinnu sem gerði ferlið mjög skemmtilegt og þægilegt. Eins erum við bæði með lítil börn og skrifum og vinnum auðvitað með þau í huga.“

Fyrst um sinn sá Gói algjörlega um leikæfingar á meðan Birgitta varði tíma í hljóðveri við að klára tónlistina og taka hana upp en ný tónlist eftir söngkonuna prýðir sýninguna og kemur út á tónlistarveitum á næstu dögum.

Félagarnir Lára og Ljónsi hafa lent í ótal ævintýrum og nú er komið að jólasögu.

Dásamlegt og óraunverulegt

„Svo smám saman fór þetta allt að fléttast saman og síðustu daga fyrir frumsýningu er samvinnan mikil auðvitað hjá öllum að fínpússa, breyta og bæta. María Ólafs vinnur með mér búningana og útlit á leikurunum og hún hannar einnig sviðsmyndina sem er alveg dásamlega falleg.“

Birgitta segir það bæði dásamlegt og óraunverulegt að sjá persónurnar sem hún skapaði lifna við á leiksviðinu.

„Að sjá Láru og Ljónsa lifna við úr bókunum eftir sex ár og 18 bækur er auðvitað magnað. Það sem gerir þetta enn dásamlegra er að horfa á börnin mín og þá sérstaklega stelpuna mína Sögu Júlíu, sem er sex ára og mikill leikhúsunnandi, bíða spennta eftir því að fá að sjá.

Leikverkið hentar vel yngstu áhorfendunum og er tilvalin skemmtun í aðdraganda jóla, enda gerist sagan á aðventunni þegar jólasveinar eru farnir að tínast til byggða og gefa börnum í skóinn. „Við hugsum þetta sem fyrstu leiksýningu barnanna eða fyrir hópinn frá tveggja til sjö ára,“ segir Birgitta og bætir við: „Auðvitað eru börn misjöfn og þótti mér æðislegt að sjá son minn tólf ára hafa gaman af sýningunni um daginn.“