Síðastliðið eitt og hálft leikár hefur ekki átt hliðstæðu í íslenskri sviðslistasögu. Ekki vegna þess sem gerðist á sviði heldur vegna atburða í samfélaginu sem urðu til þess að leikhúsin tæmdust, sviðslistafólk sat heima, áhorfendur sömuleiðis og enginn vissi hvað framtíðin bæri í skauti sér. Leikárinu 2019 til 2020 var skellt í lás um vorið. Leikárið 2020 til 2021 náði að byrja og enda en komst aldrei fyllilega á flug. Tvær langar lokanir yfir haust- og vormánuði léku leikárið grátt.

Í kófinu var sviðslistafólk nauðbeygt til að aðlaga sig snögglega eftir fordæmalausa tíma og löng barátta, sem sér ekki fyrir endann á, hófst til að halda sér á fjárhagslegu floti. Í Borgarleikhúsinu hefur Brynhildur Guðjónsdóttir ekki enn þá fengið tækifæri til að hefja sitt eigið leikár sem listrænn stjórnandi og stofnunin berst í bökkum, enda kemur mikið af rekstrarfé Leikfélags Reykjavíkur frá sölu aðgöngumiða. Framgangur Þjóðleikhússins hefur heppnast aðeins betur, en stofnunin, undir tiltölulega nýrri stjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar, er auðvitað rekin af ríkinu. Mikil endurnýjun á starfsfólki hefur átt sér stað hjá báðum stofnunum og verður forvitnilegt að sjá hvaða verkefnavali stóru leikhúsin tefla fram á næsta leikári.

Of mikil áhætta

Sjálfstæða senan varð þó verst úti. Sem dæmi má taka að Leikhópurinn Lotta fer ekki út á land í sumar, í fyrsta skipti í mörg ár, áhættan er hreinlega of mikil. Þau sem og annað sjálfstætt starfandi sviðslistafólk fóru illa út úr efnahagsaðgerðum ríkisins, flækjustig stjórnsýslunnar og raunverulegt rekstrarumhverfi grasrótarinnar áttu ekki leið saman. Það er deginum ljósara að taka þarf til í kerfinu. Leikhópar eiga ekki að treysta á umsóknir fyrir hvert verkefni fyrir sig heldur fá þróunarstyrki fyrir langtímavinnu, leikskáld sömuleiðis, og þau þarf að styrkja miklu betur. Kjarabarátta dansara og danshöfunda stendur ennþá yfir, sömuleiðis umræða um framtíð óperu á landinu.

Þegar samkomutakmörkunum var aflétt að hluta til voru aðstæður ekki alls staðar betri. Tjarnarbíó hafði ekki bolmagn til að halda úti sýningum fyrir hálftómum sal, enda mikið innanhúss púsluspil sem fylgir slíkri starfsemi. Friðrik Friðriksson hefur verið forsprakki þessarar baráttu og á hrós skilið fyrir framgöngu sína í mjög krefjandi kringumstæðum.

Á landsbyggðinni virðast Benedikt búálfur og Foreldrar hafa komið Leikfélagi Akureyrar til bjargar. Tæring, samstarfsverkefni MAK og Hælisins, var ansi merkileg upplifun á meðan þriðja bylgjan lék þjóðina grátt í haust. Einnig er loksins búið að hækka menningarfjárframlög til bæjarfélagsins, sem boðar vonandi gott fyrir landsbyggðina alla.

Tæring var merkileg upplifun, segir gagnrýnandinn.

Eru þær þess virði?

Eins og áður sagði kom Þjóðleikhúsið betur út úr þessum óvanalegu tímum. Vertu úlfur, leikstýrt af Unni Ösp Stefánsdóttur, sló í gegn, Nashyrningarnir eftir Ionesco í leikstjórn Benedikts Erlingssonar ruddust inn með látum og Kópavogskróníka náði einnig um þrjátíu sýningum. Því miður tókst ekki eins vel til í Borgarleikhúsinu þó að Oleanna með Hilmi Snæ Guðnasyni og Völu Kristínu Eiríksdóttur hafi trekkt inn áhorfendur. Aðrar stórar sýningar á borð við Sölumaður deyr í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur heppnuðust ekki eins vel.

Barnasýningar voru fjölbreyttar en þar stendur Fuglabjargið, með leikhópnum Hin fræga önd, upp úr. Ný-sirkusinn, Allra veðra von, og smærri óperusýningar, til dæmis Kok og Ekkert er sorglegra en manneskjan, blésu ferskum vindum um leiksviðin. Vorblót, verkefni Reykjavík Dance Festival, í Tjarnarbíói, bryddar ætíð upp á tilraunakenndum nýjungum.

En hvað með framtíðina? Mörgum sýningum sem áttu að fara á fjalirnar þurfti að fresta ítrekað, sumar eru komnar yfir á þriðja leikárið. Kardemommubærinn í Þjóðleikhúsinu, sem náði ansi mörgum sýningardögum, og 9 líf í Borgarleikhúsinu, sem er enn þá í bið, eru ágætis dæmi um þessa klemmu. En stóra spurningin vofir yfir stærri leikhúsum höfuðborgarsvæðisins um stærri leiksýningar. Eru þær þess virði? Þær taka upp mikinn tíma innanhúss, eru dýrar í rekstri og smærri verkefni líða fyrir.

Nú er kominn tími til að stærri leikhúsin bjóði til sín fleiri erlendum leikstjórum og öðru fagfólki til að auðga flóruna og bjóða áhorfendum upp á ný sjónarhorn. Að sama skapi er nauðsynlegt að bjóða Íslendinga af fjölbreyttum uppruna velkomna í miklu meiri mæli, Tjarnarbíó hefur staðið sig einkar vel í þessum málum og þar má nefna Polishing Iceland sem dæmi. Einnig þarf að leggja meiri áherslu á ný, íslensk verk, Útlendingurinn eftir Friðgeir Einarsson og The last kvöldmáltíð eftir Kolfinnu Nikulásdóttur sýna að hæfileikana skortir ekki. Þýðingar á leikritum Tyrfings Tyrfingssonar á erlend tungumál sýna líka að áhuginn fyrir íslenskum leikritum er svo sannarlega til staðar erlendis.

Liggur á að mæta

Útskriftarnemar leiklistardeildar Listaháskóla Íslands frumsýndu á dögunum útskriftarverkefnið sitt, breska leikritið Krufning á sjálfsmorði eftir Alice Birch, í Þjóðleikhúsinu, leikstýrt af Mörtu Nordal og Önnu Maríu Tómasdóttur. Í sumar verður ýmislegt á boðstólum sem vert er að fylgjast með. Reykjavík Fringe Festival verður á sínum stað og Act Alone sömuleiðis.

En fortíðinni má heldur ekki gleyma. Leikminjasafn Íslands hefur fundið framtíðarstaðsetningu innan veggja Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Nýr, sérhæfður starfsmaður hóf störf á þessu ári og til að gæta gagnsæis var undirrituð ráðin í verkefnið. Þetta er stórt skref til að tryggja varðveislu ómetanlegra menningargagna sem endurspegla þrekvirki listafólks á landinu.

Leikhúsin eru að opna dyr sínar og samkomutakmarkanir eru að líða undir lok, vonandi varanlega. Ekki er ólíklegt að leikhúsfólk sem og áhorfendur bíði spenntir eftir að hlaða batteríin í sumar, en þá skiptir máli að viðbragðið í haust láti ekki á sér standa og að sem flestir kaupi sér miða í leikhús á næsta leikári. Það liggur nefnilega á að mæta og fagna fjölbreytileikanum í leikhúsinu, kaupa miða á sviðslistaviðburði af öllu tagi, styðja sjálfstæða leikhópa og íslensk leikskáld.

Sjáumst í leikhúsinu!