Eva Dögg, sem starfar bæði sem jógakennari og fatahönnuður, er annar eigandi Rvk Ritual sem er vettvangur þar sem að fólk getur sótt sér innblástur af hvers konar tagi um líkamlega og andlega heilsu. Eva Dögg og Dagný Berglind Gísladóttir stofnuðu þennan vettvang saman, en þær halda úti heimasíðu, Insta­gram-reikningi, vefverslun og halda ýmsa „pop up“ viðburði, fyrirlestra og námskeið tengd til dæmis sjálfsrækt og heilsu.

„Ég er mikil talskona eiturefnalauss lífstíls, elska krem, olíur og aldagamla fegurðar-ritúala af öllu tagi og hef í gegnum tíðina haldið námskeið, fyrirlestra og skrifað pistla um þessi áhugamál mín. Ég trúi því að best sé að nota einföld lífræn hráefni. En það má alltaf flækja aðeins hlutina ef áhugi er fyrir hendi.

Eva Dögg segist alltaf hafa haft áhuga á sjálfsrækt og vellíðan, kremum og olíum, jurtum og ilmkjarnaolíum, Ayurveda-fræðunum og svo framvegis. „Ég er svolítill nörd og sérfræðingur í mér, ég elska að lesa og læra um eitthvað nýtt og þegar ég veit eitthvað hef ég mjög sterka þörf fyrir að deila því með öðrum. Ég starfa sem ilmkjarnaolíuráðgjafi hjá Young Living og hef lært ansi margt hjá þeim, en ég er einnig að klára ilmmeðferðarvottunina mína, hjá kennara sem heitir Tania Magdalene, svo það styttist í að ég sé viðurkenndur ilmheilari.

Eva Dögg er að klára ilmmeðferðarvottun sína og hefur að eigi sögn fært sig úr eldhúskuklinu. Mynd/Thelma Arngrímsdóttir

Hugur og líkami nátengdir

Annars er þetta að mestu leyti sjálflært. Eftir að ég kynntist jóga og þá sérstaklega kundalini jóga og svo út frá því Ayurveda-fræðunum fann ég betur og sá hvað hugmyndafræði þess um fegurð er heilnæm og mun fjölbreyttari en flestir halda eða eru að ganga út frá. Hugur og líkami tengist og er það sama, það sem þú borðar, hugsar og gerir hefur áhrif á hvernig þú ljómar sem manneskja, hvernig húðin þín er, hárið vex, hversu stór áran þín er og þar fram eftir götunum.“

Færir sig úr eldhúskukli

Eva Dögg segist hingað til aðallega hafa framleitt vörur sínar í eldhúsi sínu í Vesturbænum en sé nú loks komin með vottað framleiðslueldhús. „Eftir að eftirspurnin varð meiri er ég farin að færa mig út úr eldhúskukli og kremsölu á svarta markaðinum og er hægt og rólega að komast upp á yfirborðið og er með stór markmið í framtíðinni,“ segir Eva Dögg í léttum tón.Eva Dögg hefur verið að prófa sig áfram með vörur undir merki Rvk Ritual og hefur m.a. framleitt krem sem hún kallar Blue Moon en nú hefur hún hafið framleiðslu á sleipiefni til að nota í ástarleikjum og segir það búa yfir heilandi eiginleikum.

„Ég fékk þessa hugmynd þegar ég fór að skoða og skrifa mikið um „Yoni Care“ og ýmsa Yoni-ritúala á rvk­ritual.com. Yoni er sanskrítarorð yfir æxlunarkerfi kvenna, Yoni er einnig helg uppspretta sköpunarkraftsins og auðvitað kynhneigðarinnar. Yoni er uppspretta lífsins og þess vegna mikil ábyrgð að vera með eitt stykki Yoni. Stundum kemur blóð úr þeim, stundum börn og stundum langar þig kannski að bjóða einhverju eða einhverjum inn. Þess vegna viljum við halda þeim hreinum, heilbrigðum og safaríkum.

Evu Dögg langaði að gera heilnæmt sleipiefni sem hefði margfalda virkni fyrir líkama, huga og sál.

Kryddar kynlífið

Yoni hefur sitt eigið vistkerfi, örveruhormón og sýrustig. Eins og það sé ekki nógu flókið er hún einnig mjög næm fyrir streitu, áföllum og alls kyns verkjum. Hún geymir kvenlega kraftinn okkar (Shakti) og hún getur líka haldið fast í tilfinningar og áföll. Það er mikilvægt að við sinnum Yoni-svæðinu okkar á meira náttúrulegan og heilbrigðan hátt. Það getur haft ótrúlega kosti, ekki aðeins á líkama okkar, heldur einnig sál okkar og líðan. Yoni skapar líf, hún er heilög og svo miklu meira en bara líkamshluti. Við skulum sýna henni virðingu og taka fulla ábyrgð á okkar Yoni-heilsu, ekki láta plata okkur til að kaupa sótthreinsaða tappa, sápur og svo framvegis sem gera meiri skaða en gagn.

Mig langaði að gera heilnæmt sleipiefni sem hefði margfalda virkni fyrir líkama, huga og sál. Fyrst og fremst er það heilandi, það nærir slímhúðina, er sýkla- og sveppadrepandi og styður einnig við andlega kynheilsu. Það er svartur pipar í sleipiefninu sem hitar, piparmynta sem kælir og múskat sem kitlar. Einnig inniheldur sleipiefnið ylang ylang-jurtina sem þekkt er fyrir kynörvandi eiginleika sína og er mjög hjartaopnandi jurt. Svo segja má að sleipiefnið kryddi kynlífið í bókstaflegri merkingu en það nærir líkamann og kveikir á kynþokkanum.

Mig langar líka bara að normalísera svolítið sleipiefni, taka þau inn í rútínuna þegar kemur að því að huga að sjálfum sér. Frekar en að tengja þau bara við fullorðins leiktækjaiðnaðinn, eða sem eitthvert praktískt stöff sem þú notar ef þig vantar smá hjálp í kynlífinu, ert að eldast, eða ert að díla við einhvers konar vandamál. Sleipiefni er fyrir alla og það er mjög gaman og hollt að nota það,“ segir Eva Dögg með áherslu.

Áhugasamir geta nálgast vörurnar á vefsíðunni www.rvkritual.com en einnig er hægt að hafa samband við Evu Dögg í gegnum instagram @evadoggrunars.