Í íbúð sem samanstendur af þremur svefnherbergjum og tveimur baðherbergjum búa þau Erla Jónsdóttir og Bjarki maðurinn hennar, dætur þeirra þrjár, Ninja, Úlfrún og Valkyrja, og hundurinn Snúður. „Húsið var byggt 1973 og íbúðin var upprunaleg þegar við keyptum hana 2020, en í mjög góðu standi. Við tímdum engan veginn að skipta út flísunum í forstofunni og eldhúsinu, enda féll ég algerlega fyrir þeim þegar við skoðuðum íbúðina fyrst,“ segir Erla.

Flísarnar í forstofunni heilluðu Erlu enda bæði gullfallegar og einstakar.
Valli

Litirnir koma með tímanum

Erla er ein af þeim sem líður best með liti í kringum sig. Æskuheimilið var litríkt og það hefur fengið að halda sér í íbúðinni í Breiðholtinu. „Hvert svefnherbergi hafði þar sinn lit og eldhúsið var alltaf málað í lit. En að mestu voru húsgögnin antík, dökk á litinn og þungt yfir þeim en sjálf heillast ég ekki af þeim stíl.

Minn stíll? Ég held ég sé maximalisti. Ég vil hafa fullt af skrauti og húsgögnum alls staðar og fallega liti. Og helst vil ég hafa hluti sem fáir eða engir aðrir eiga. Ég fylgi ekki neinni ákveðinni tísku heldur vel frekar hluti og húsgögn sem heilla mig. Það er svolítið bland hvaðan ég fæ húsgögnin. Sumt er keypt notað, sumt í Ikea og sumt í Húsgagnahöllinni eins og sófinn. Við reynum að kaupa sem mest notað en þar sem við höfum enga aðstöðu til að lappa upp á eða mála stærri húsgögn hentar það ekki alltaf.

Það bætist hægt og rólega við þennan einstaklega skemmtilega og forvitnilega myndavegg.
Valli

Ég fæ innblástur frá TikTok, Pinterest og Instagram og leita þá helst að litríkri innanhússhönnun og bleikum „eccentric maximalisma“. Þá finnst mér skemmtilegast þegar allt innbúið er í lit. Ég held ég geti sagt að minn stíll sé kannski svolítið skrítinn. Það verða alla vega margir svolítið hissa á að sjá píkur og annað óhefðbundið skraut á veggnum.

Hægt og rólega erum við að bæta við fleiri litríkum hlutum inn á heimilið og höfum til dæmis verið að setja upp myndavegg þar sem ég er búin að mála nokkra ramma og jafnvel búið til skúlptúra til að hafa með. Annars er ég mjög hrifin af flestu sem er „krípí“ og öðruvísi þegar kemur að heimilisskrauti. Þá málaði ég kanínuhaus sem ég keypti í Ikea, sem var að mínu mati ekki nógu fallegur á litinn. En þetta tekur allt tíma og eftir að hafa búið hér í tæp þrjú ár er enn margt eftir. Þetta kemur vonandi með tímanum.“

Húsmóðirin er hrifin af alls konar öðruvísi skrauti og hér prýða dásamleg millifótakonfekt vegginn.
Valli

Féll fyrir bleika baðherberginu

Eldhúsinnréttingin í íbúðinni var upprunaleg en hentaði illa fyrir stærð fjölskyldunnar svo henni var skipt út. „Það vantaði meira geymslupláss. Ég hafði lengi gengið með þann draum í maganum að vera með bleikt eldhús svo það kom eiginlega ekkert annað til greina en að fá okkur bleika innréttingu og mála veggina bleika. Það eru líka mjög fallegir upprunalegir loftlistar sem fyrrverandi eigandi bjó til sjálfur í stofu/borðstofu, eldhúsinu og forstofu sem passa mjög vel með bleika litnum.

Erlu hafði lengi dreymt um að eiga bleikt eldhús svo það kom ekki annað til greina en að fá sér bleika innréttingu og mála veggina bleika.
Valli

Baðherbergin tvö voru bæði upprunaleg. Annað var allt blátt með bláum vaski, klósetti og flísum en við skiptum bæði vaskinum og klósettinu út. Bleika baðherbergið er svo aðalástæðan fyrir því að ég féll gjörsamlega fyrir íbúðinni. Við erum að tala um bleikt baðkar, klósett, vask og bleikar blómaflísar. Það er sjúkt og mig langar helst aldrei að taka það í gegn. En ef við þurfum að gera það þá verður það haft bleikt og jafnvel enn litríkara. Þá myndi ég vilja hafa hafmeyjubaðherbergi: sægrænt, bleikt og glimmer,“ segir Erla.

Hver er uppáhaldsliturinn og er hann bleikur?

„Já, bleikur er algerlega uppáhaldsliturinn minn og ég lita reglulega hárið á mér bleikt. Hægt og rólega verður allt bleikt í kringum mig,“ segir Erla og hlær dátt.

Upprunalega bleika baðherbergið með blómaflísunum og bleiku hreinlætistækjunum fékk að halda sér enda einstaklega sjarmerandi í seventís stíl.
Valli

Klagaði mömmu fyrir litagleðina

Erla hefur ekki látið við það sitja að mála veggi í uppáhaldslitnum heldur hefur hún einnig strokið penslinum yfir húsgögnin á heimilinu. „Ég fékk spegil á Facebook fyrir slikk sem var upprunalega hvítur. Mér fannst hann of daufur á hvítum veggnum svo ég ákvað að mála hann. Það var reyndar miðjudóttirin, Úlfrún, sem stakk upp á því að mála hann í nokkrum litum í stað eins. Ég elska pastelliti svo það var svona aðalplanið þegar ég byrjaði. Annars skipulagði ég þetta ekkert. Málaði hann bara eftir að hann var kominn upp á vegg og það gekk furðuvel. Litina keypti ég bara í föndurbúð en þetta eru akríl-föndurlitir.

Valli

Ég keypti líka skenk í Góða hirðinum fyrir nokkrum árum sem var brúnn og töluvert hærri en hann er í dag. Með aðstoð tók ég fæturna af svo hann passaði undir sjónvarpið. Ég málaði hann strax hvítan og hann var þannig í nokkur ár. En það breyttist eitthvað þegar við fluttum hingað inn. Ég var loksins farin að þora að nota liti, svo ég settist bara niður eitt kvöldið og byrjaði að mála mynstrið á skápnum í alls konar litum. Ninja, elsta dóttir mín, var frekar hneyksluð á mér þegar ég byrjaði og hljóp strax til pabba síns og klagaði mig,“ segir Erla og hlær. „Ég notaði líka akríl-föndurliti þar sem það mæðir ekki svo mikið á skápnum. Ég á eftir að lappa aðeins upp á miðjuskápinn í skenknum, en mig langaði alltaf í kertaarin svo hann hefur verið notaður sem slíkur.“

Erla málaði þennan fallega skenk í skemmtilegum litum og uppskar undrun dóttur sinnar.
Valli

Er eitthvað sem þig dauðlangar að mála á heimilinu?

„Ó já, eiginlega bara allt sem er ekki bleikt. Ég er með annan viðarskenk úr Ikea en planið er að mála hann í skemmtilegum lit, jafnvel bleikum. Svo er sófaborðið orðið frekar lúið. Ég er að reyna að tala Bjarka inn á að mála það en það gengur hægt. Eins stefni ég á að mála hurðarkarmana í pastellitum og jafnvel gera einhver mynstur á hurðirnar.

Allir heimilismeðlimir eru til í litagleðina en sumt læt ég þó vera. Tvær yngri dætur mínar deila herbergi sem er líka bleikt (þeirra val). Unglingurinn vill ekki liti inn til sín en er dugleg að hrósa mér þegar ég tek upp pensilinn. Svo er Bjarki mjög mikill tölvuleikjaáhugamaður. Áhugamálið tvinnast inn í heimilisskreytingarnar og er nú oft litríkt,“ segir Erla að lokum.

Íbúðin er notaleg og hlýleg og þar er mikið af fallegum hlutum.
Valli