Erla var mikið í íþróttum sem barn og unglingur og lærði íþróttafræði á Laugarvatni og lauk námi í íþróttavísindum og þjálfun frá Háskólanum í Reykjavík.

„Ég hef alltaf haft áhuga á íþróttum og hugsað um heilsuna á vissan hátt. Það var ekki fyrr en ég var búin að vinna sem flugfreyja í fimm ár sem ég fann í fyrsta sinn á ævinni fyrir heilsuleysi,“ segir Erla.

„Ég var síþreytt en það var samt ekki fyrr en eftir langan tíma í starfi sem ég áttaði mig á hvað var að. Það var engin rútína, óreglulegur vinnutími þar sem ég vann stundum á nóttunni, stundum á morgnana og stundum á daginn og ég var að borða á öllum tímum sólarhringsins. Ég var þess vegna byrjuð að líta í aðrar áttir og farin að hugsa um að byrja að vinna aftur sem íþróttakennari.“

Erla frétti síðan af flugfreyju sem hafði lært heilsumarkþjálfun og ákvað að láta slag standa og skráði sig í námið.

„Þetta var eins árs nám og ég algjörlega féll fyrir þessu. Svo vatt þetta upp á sig og ég er farin að halda fyrirlestra og get líka nýtt mér þessa markþjálfun í kennslu og bara í lífinu sjálfu,“ segir Erla sem kennir íþróttir í MH samhliða markþjálfuninni.

Erla útskýrir að heilsumarkþjálfun gangi út á að einblína á alla heilsuþætti. Ekki bara mataræði, hreyfingu og svefn.

„Það eru svo ótrúlega margir þættir sem hafa áhrif á heilsuna. Það er vinnan, hvar við búum, menntun og samskipti við aðra. Allt í lífinu hefur áhrif,“ segir hún.

Hún segir mikilvægt að koma því til skila til unglinga sérstaklega að heilsa er ekki útlit. Einhver sem þau sjá á samfélagsmiðlum lítur kannski rosa hraustur út, en við vitum ekkert hvort hann er við góða heilsu.

„Heilsa er líka andleg og félagsleg. Ef fólk er í einhverjum rosa öfgum til að líta hraust út þá er kannski félagslega og andlega heilsan í vaskinum af því það setur sér svo strangar reglur. Það er mikilvægt að finna jafnvægi á milli allra þátta heilsunnar.“

Vinnur með hænuskref

Grunnur markþjálfunar að sögn Erlu er að spyrja djúpra góðra spurninga og reyna að fá viðkomandi til að koma með svarið sjálf.

„Maður veit svarið nefnilega oft best sjálfur. Ef einhver segir þér að gera eitthvað þá er ekki víst að þú gerir það. En ef þú ákveður að gera eitthvað sjálf þá er líklegra að þú standir við það,“ segir hún.

„Þetta er ekki beint ráðgjöf heldur þjálfun. Ég kem auðvitað oft með ráðleggingar um hvað fólk getur gert til að bæta heilsuna því fólk hefur kannski ekki þekkinguna. En þau átta sig kannski á því sjálf að það er svefninn sem þarf að taka í gegn, eða eitthvað annað, og ég ráðlegg þá út frá því.“

Erla heldur úti bloggi á síðunni heilsuerla.is þar sem hún skrifar heilsupistla og ræðir við fólk um ýmislegt heilsutengt. Á Instagramsíðu hennar heilsuerla_heilsumarkþjálfun er einnig að finna ýmsan fróðleik um heilsu, markmiðasetningu og fleira.

„Ég hef nýtt það sem ég hef lært í mínu lífi. Ég vinn með hænuskref, að taka einn dag í einu, eitt skref í einu og breyta bara einni venju í einu en ekki umturna öllu lífinu á einum degi. Það er aldrei vænlegt til árangurs. Ég brenn fyrir að sýna fólki að það þarf ekki öfga. Mér finnst samfélagið ganga svo mikið út á öfga í báðar áttir, það er annað hvort allt eða ekkert. En rannsóknir hafa sýnt að það eina sem virkar er að vera með góðan lífsstíl og breyta venjum sínum smám saman til góðs,“ segir hún.

„Þannig ertu heilbrigð alla ævina. Það þarf að horfa til framtíðar og hugsa að ákvörðun sem þú tekur í dag, hún hefur ekki bara áhrif á morgun heldur alla ævi. Mig langar til dæmis að verða hraust gamalmenni. Það er mitt mottó, mig langar að geta staðið á höndum þegar ég verð níræð.“