Þegar blaðamaður náði tali af Ivu var hún stödd á Luton flugvelli að bíða eftir flugi til Íslands, en hún hefur búið í Holl-andi frá árinu 2018 þar sem hún lærir klassískan söng í Tónlistarháskólanum í Rotterdam.

„Þetta er annað árið mitt í skólanum, líklega af fjórum, þar sem miðað er við að BA-námið taki fjögur ár,“ segir Iva. En nú hefur öll kennsla lagst af til að minnsta kosti 6. apríl vegna heimsfaraldursins og Iva segir að ekkert sé vitað um framhaldið.

„Ég er þess vegna að fara heim til þess að vera með nánasta fólkinu mínu. Það er spáð útgöngubanni fljótlega í flestum löndum Evrópu og þá er betra að vera bara í örygginu heima hjá fjölskyldunni minni,“ segir hún, en bætir við að það sé skrýtið að hafa ekki hugmynd um hvað taki við og hversu lengi hún verði í burtu frá náminu.

Iva Marín Adrichem á hollenskan föður og íslenska móður og talar því bæði góða hollensku og íslensku, sem hún segir að hafi vissulega gert flutningana til Hollands auðveldari fyrir sig.

„Ég á líka fjölskyldu úti, að vísu frekar langt frá Rotterdam, en ég reyni að heimsækja þau í hverjum mánuði,“ segir hún.

„Það voru skemmtileg viðbrigði að flytja út og standa á eigin fótum. Ég hélt það yrði meira mál en það varð. Maður vonar oft það besta en býst við því versta einhvern veginn. Mér hefur fundist gaman að prófa að búa ein, kynnast einhverju nýju og finna mig betur.“

Iva lýsir tónlistinni sinni sem draumkenndri. MYND/EDLAND MAN

Hefur sungið frá barnæsku

Iva hefur verið viðloðandi söng frá barnæsku. Hún stundaði nám í Söngskólanum í Reykjavík og tónlistarskóla Garðabæjar, þar sem hún ólst upp að mestu.

„Ég hef verið að læra söng frá því ég var svona 12-13 ára. Það hefur alltaf verið draumurinn að verða atvinnusöngkona. Hjá flestum sem hafa þann draum fer áhuginn eitthvert annað en þetta hefur alltaf verið markmiðið hjá mér,“ segir hún.

Iva segir að það hafi verið tilviljun að hún sendi lag inn í Söngvakeppni Sjónvarpsins síðasta haust, en lagið samdi hún með Richard Cameron.

„Richard er gamall vinur pabba míns en ég kynntist honum ekkert almennilega fyrr en ég flutti til Rotterdam. Hann hefur verið búsettur í Berlín í mörg ár og hafði samband við mig þegar hann var í stuttri heimsókn í Rott-erdam og spurði hvort ég væri til í hádegismat með sér. Upp úr því hófst skemmtilegt samstarf. Hann er náttúrulega mjög reyndur pródúsent og lagahöfundur og það er mjög gaman að vinna með honum.“

Það varð úr að þau sömdu lagið Oculis Videre saman og ákváðu að senda það inn í forvalið.

„Það kom okkur rosalega á óvart að við værum valin í topp 10,“ segir Iva, sem hefur átt þann draum frá því hún var barn að taka þátt í keppninni enda hefur hún fylgst með henni ár eftir ár, bæði söngvakeppninni hér heima og Eurovision keppninni sjálfri.

Iva segir þátttökuna í söngvakeppninni hafa verið dýrmæta reynslu.

„Ég myndi segja að þetta hafi verið stærsta verkefni sem ég hef tekið þátt í hingað til, en þau verða vonandi mörg fleiri. Söngvakeppnin er rosalega flottur stökkpallur fyrir ungt fólk.“

Hún segist hafa verið í sjokki þegar hún frétti að Eurovision keppninni í Rotterdam hefði verið aflýst.

„Það er nánast óhugsandi, þetta er svo mikill partur af vorinu hjá manni að fylgjast með Eurovision. Svo allt í einu, í fyrsta sinn í 64 ár er keppnin ekki haldin.“

Það hefur verið draumur Ivu frá barnæsku að gera sönginn að atvinnu. MYND/RICHARD CAMERON

Óvissan er mikil núna

Iva hafði vonast til að geta mætt allavega eitt kvöld í höllina í Rott-erdam til að fylgjast með. Annars var það á planinu hjá henni að túra með kammerkórnum í skólanum sínum á sama tíma en núna er óvissan um hvað verður mikil.

„Ég og Richard erum í áframhaldandi samstarfi með nokkrum flottum tónlistarmönnum frá Berlín. Við höfum verið í stúdíói og ég er búin að taka upp tvö lög. Það er spurning hversu mikið vinnslunni á þeim seinkar út af vírusnum. En ef allt gengur vel þá gef ég eitthvað út núna í lok apríl. Það verður þá aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum.“

Iva segir að einnig hafi verið á dagskrá að syngja mikið um páskana en því hafi öllu verið aflýst. Hún stefnir því að því að nýta tímann á Íslandi til að læra.

„Það er verið að reyna að halda uppi einhverri fjarkennslu og svo missti ég líka mikið úr út af söngvakeppninni og ætla að vinna það upp. En þátttakan var alveg skóli út af fyrir sig. Ég lærði meira á þessum eina mánuði en ég hef lært á tveimur árum í skólanum. Maður er að vinna með professional fólki alla leið. Það er mjög góð reynsla og frábært að vera búin að þessu 21 árs gömul.“

Hvort Iva taki einhvern tímann aftur þátt í söngvakeppninni á svo eftir að koma í ljós. Hún segir að það verði allavega einhver bið á því.

„Mig langar að fara að skapa meira sjálf. Það er svo mikill munur á að keppa í tónlist og að skapa sitt eigið og vera ekki háð neinni formúlu eða tímalengd. Það væri gaman að geta fylgt útgáfu nýju laganna eftir með tónleikaprógrammi. En við Richard stefnum á að gefa út fleiri lög. Planið var að nýta sumarið vel. En við bíðum bara og sjáum hvað verður.“