Jóhanna Friðrika útskrifaðist sem leikkona árið 2005 en segir leiklistarferilinn hafa verið köflóttan. „Leiklistarferillinn minn er nú mun fyrirferðarminni en kokkaferillinn minn en eldamennska hefur tekið mikið pláss í mínu lífi og þannig hef ég unnið fyrir mér.“ Jóhanna ólst upp á Vík í Mýrdal og minnist þess að leikfélagið á Kirkjubæjarklaustri hafi reglulega komið í leikferðir þangað og sýnt verk í félagsheimilinu Leikskálum.

„Þar átti ég uppáhaldsleikara sem mig langaði alltaf svo að líkjast af því mér fannst hann geta gert svo marga svipi og fannst hann svo fyndinn. En leiklistaráhuginn kviknaði ekki af alvöru fyrr en í Menntaskólanum á Laugarvatni þar sem ég áttaði mig á því að svona landsbyggðartútta eins og ég gæti raunverulega farið í leiklistarskólann sem ég hélt alltaf að væri bara fyrir leikarabörn úr Reykjavík. Því á Laugarvatni var ein bekkjarsystir bróður míns nýkomin inn í Leiklistarskólann.“

Jóhanna í hlutverki Önnu Júlíu í Pabbahelgum en hún segist strax hafa heillast af handriti þáttanna.Mynd/Rúv

Áhuginn færðist yfir í leikstjórn og skriftir

Eftir útskriftina fór Jóhanna þó meira að leikstýra í menntaskólum og leikfélögum úti á landi en stóð ekki mikið sjálf á sviði. „Áhuginn færðist því fljótlega yfir í að leikstýra og út frá því að skrifa þar sem ég þurfti iðulega að skrifa verk fyrir leikfélögin eða aðlaga verk að hópum og þeim aðstæðum sem ég var að vinna með hverju sinni. Leiðin lá svo í ritlist í Háskóla Íslands þar sem ég útskrifaðist með master árið 2015 og hef mestmegnis verið að skrifa síðan þá en kvikmyndin Agnes Joy er sú fyrsta sem ég tek þátt í að skrifa. Hún var frumsýnd í síðustu viku við góðar undirtektir og hvet ég auðvitað alla til að skella sér í bíó,“ segir Jóhanna.

Anna Júlía hittir hér Karen, eiginkonu elskhuga síns í þáttunum Pabbahelgar. Það kom Karenu svo sannarlega í opna skjöldu að Anna Júlía hafi hitt börnin hennar án þess að Matti hafi beðið Karen um leyfi. Mynd/Rúv

Mikilvægt að gera það sem maður hræðist

Það var eftir tveggja ára hlé í leikhúsinu að Jóhanna fór með hlutverk í verkinu Loaboratorium í Borgarleikhúsinu að Nanna Kristín Magnúsdóttir, leikstjóri og handritshöfundur Pabbahelga, var áhorfandi á einni sýningunni. „Nanna sá mig þar og kallaði mig í kjölfarið í prufu fyrir þættina. Mér fannst handritið strax mjög spennandi og heildarhugmyndin öll en ég þurfti alveg að taka mér tíma til að hugsa málið vel þegar hún bauð mér hlutverkið. Þessir þættir eru svo dásamlega raunsæir sem getur verið svo hættulegt og þarna var mikil nekt og ég þurfti því að skoða hug minn vel, hvort ég hefði hugrekkið í þetta,“ segir Jóhanna einlæg.

„En þar sem mér finnst umfjöllunarefni þáttanna svo ferskt og af því að ég var alveg skíthrædd við að gera þetta ákvað ég að slá til, því það er svo mikilvægt að gera það sem maður er hræddur við."