Systurnar og tónlistarkonurnar Anna og Fríða Hansen hafa lengi íhugað að semja sérstakt Landsmótslag enda aldar upp við hrossarækt og hafa alla tíð sótt Landsmót með fjölskyldunni.

„Við Anna störfum báðar í tónlist og höfum verið að gefa okkar eigið efni út hvor í sínu lagi. Ég hér heima og Anna í Köben,“ segir Fríða og nú skella þær systur loksins á skeið með laginu sínu Drottning um stund sem Fríða syngur ásamt Hreimi Erni.

„Pabbi hefur lengi hvatt okkur til að gera eitthvað skemmtilegt saman, eins og til dæmis Landsmótslag,“ heldur Fríða áfram og bætir við að hugmyndin hafi síðan tekið flugið þegar feðginin fóru að huga að undirbúningi keppnis- og kynbótahrossa fyrir sumarið.

„Þá prufuðum við Anna að henda hugmyndum á milli okkar og fengum svo meistarann Vigni Snæ Vigfússon með okkur í lagasmíðarnar og upptökur.“

Hugmyndin var síðan borin undir Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóra Landsmóts 2022, sem leist vel á og þá var ákveðið að gefa lagið út. „Maggi var hissa að heyra í mér en er nú þannig gerður að hann segir yfirleitt já við góðum hugmyndum.

Innblásturinn að laginu er náttúr­lega hestamennskan öll, þessi æðislega tilfinning að vera á góðum hesti og í góðra vina hópi.“ Hún bætir við að hestamenn séu vitaskuld margir þekktir fyrir mikla sönggleði þegar þeir koma saman.

Þeim systrum þótti við hæfi að sækja andann til skáldjöfursins Einars Benediktssonar. „Ljóðið hans, Fákar, er eitthvað það fallegasta sem skrifað hefur verið um samband manns og hests. „Knapinn á hestbaki er kóngur um stund,“ segir Fríða og vonar að fólki muni finnast lagið fanga stemninguna í brekkunni á Landsmóti.

Fríða og Hreimur Örn hafa lengi verið góðir félagar og frá því hún söng lagið hans Lítið hús með honum 2019 hefur stefnan verið að hann syngi með henni og Fríða segir Landsmótslagið hafa gefið þeim kærkomið tækifæri til þess.
Fréttablaðið/Aðsend