Landsbyggðin hefur sjaldan boðið upp á jafn mikil gæði í mat, drykk og gistingu. Þar eru perlur sem vert er að skoða, dýfa sér út í, smakka og njóta. Starfsfólk Fréttablaðsins hefur flakkað um landið í sínum sumarfríum og smakkað á ýmsu góðu og gleðilegu. Óformleg skoðanakönnun meðal starfsfólks leiddi í ljós að víða er gott betra utan höfuðborgarinnar.

Sushi-ið

Staðurinn Norð Austur – Sushi & Bar á Seyðisfirði kom sá og sigraði í keppninni um besta sushi landsbyggðarinnar. Mikið lagt í hvern disk og útlit og umhverfi sem setur punktinn yfir i-ið.

Sjeikinn

Amma Habbý á Súðavík er með besta sjeik í Evrópu, sagði einn starfsmaður blaðsins sem fór um Vestfirði. Erfitt að keppa við það.

Bakan

Hreindýrabakan á Skriðuklaustri kostar vissulega mikið, um fjögur þúsund krónur, en hún er sögð vera vel þess virði. Fæst aðeins á hádegismatseðli.

Fiskurinn

Eðlilega var mikið rifist um fiskinn enda er fiskur yfirleitt betri á landsbyggðinni en í Höfuðborginni. Það voru nokkrir staðir sem fengu hrós eins og Tjöruhúsið á Ísafirði, Kaffi Rauðka, Akureyri Fish & Chips og silungurinn í Vogafjósi í Mývatnssveit.

Sund­laugin

Flestar sundlaugar eru betri úti á landi. Þar er Akureyri eina vatnapardís landsins. En raðirnar geta verið langar í rennibrautirnar. Þá er Vesturland með frábærar laugar. Hofsós er með útsýni sem enginn getur keppt við.

Sundlaugar fyrir fullorðna

Það eiga ekki allir börn. Bjórböðin eru í sérflokki fyrir pör. Lýsuhólslaug er sérstök, Hellulaug við Flókalund í Vatnsfirði og Hveravellir eru paradísir á hálendinu.

Tjaldsvæði

Vissulega fer þetta allt eftir veðri og öll tjaldsvæði eru dásamleg í sól og blíðu. Húsafell er drottning tjaldsvæðanna, Kjarnaskógur á Akureyri og Hólar í Hjaltadal eru einnig dásamleg og það er hægt að losna við íslenska bolinn uppi á hálendinu.

Leikvellir

Fyrir utan Kaffi Rauðku hefur verið komið upp skemmtilegum kastala með fjöldann allan af rennibrautum og rólum. Skriðuklaustur er með lítið völundarhús, Bjössaróló er í Borgarnesi. Þarna hefur höfuðborgin þó klárlega vinninginn.

Bakaríið

Þarna var rifist og það harkalega. Það er ljóst að bakkelsið er gott úti á landi. Ástin og alúðin finnst á bragðinu og þar er minna fjöldaframleitt eins og í borginni. Eina ofmatið var Bakaríið við brúna á Akureyri – það voru vonbrigði.

Eftirrétturinn

Davíð Örn Hákonarson gerir listaverk á Hótel Laxá í Mývatnssveit. Það er erfitt að keppa við list í matargerð

Pitsan

Gæsapitsan á Aski, Egilsstöðum, tólftommutöffarar. Bragðbomba í hverjum munnbita. Pitsugerð er framarlega á mörgum stöðum á landsbyggðinni þótt pitsan kosti stundum meira en kíló af nautalundum. Slíkt er óþarfi.

Aðrir góðir kostir úti á landi
Kokteilar - „Fékk magnaðan kokteil í Vogafjósi í Mývatnssveit.“
Skyrdrykkur - „Útgerðin í Ólafsvík er með frábæra drykki sem entust langt fram á daginn.“
Grænmetisrétturinn - „Móðir Jörð í Vallanesi. Það keppir enginn við þau.“
Grænmeti – „Laugarás við dýragarðinn Slakka. Það þarf ekkert að ræða það meira. Sjálfsafgreiðsla þar sem maður borgaði með glöðu geði meira en minna.“
Nautakjöt – „Nýibær undir Eyjafjöllum. Byrja öll mín frí á að panta kjöt frá Eddu og Jóni.“

Móðir Jörð í Vallanesi