Áslaug Hulda er mörgum hæfileikum gædd og eitt af því sem hún nýtur sín hvað best í er eldamennskan. Hún er mikill matgæðingur og veit fátt skemmtilegra en að vera í góðra vina hópi og snæða sælkeramáltíð þar sem gleðin er við völd. Sumrin eru svo sannarlega hennar tími og kátína skín úr andliti hennar þegar hún er spurð út í sumarið.

Skemmtilegast að vera í bústað Þegar hún er beðin um að segja eina setningu sem lýsir henni best á sumrin er hún fljót að svara. „Berfætt og brosandi í baðfötum og smá brunnin,“ segir Áslaug Hulda og hlær.

Hvað heillar þig mest að gera þegar þú ert að ferðast innanlands, vera á hóteli, í sumarbústað eða hjólhýsi eða þess háttar gistingu?

„Ég elska að ferðast um landið og vera úti í íslenskri náttúru. Við skipuleggjum veiðiferðir en aðrar ferðir eru meira spontant og háðar góðu veðri. Ég er samt voðalega heimakær og þarf oftast ekkert að fara mikið lengra en upp í Heiðmörk í góða göngu. Þegar ég er ekki heima finnst mér skemmtilegast að vera í sumarbústað með góðu fólki þar sem gott eldhús, grill og heitur pottur eru í aðalhlutverki. Ekki verra ef það er nálægt vatni, á eða við sjó.“

Í vöðlum og sól er alvöru parmaskinka, aioli og baguette æðislegt combó, að sögn Áslaugar.

Nautakjötssalat í uppáhaldi

Áslaug Hulda segir að matarvenjurnar breytist klárlega með árstíðunum. „Matseðillinn breytist á sumrin og í ár er engin breyting á því þrátt fyrir sólarleysið á suðvesturhorninu. Hægeldaðir lambaskankar og kröftugar haustsúpur víkja fyrir léttari réttum. Ég geri mikið af alls konar salati á sumrin með grilluðum kjúklingi eða nautakjöti, uppáhaldið mitt er nautakjötssalat. Síðan er fátt sem toppar kolagrillað kjöt. Með grillmatnum á sumrin erum við oft með chimichurri, heitt smjör með kryddjurtum og hvítar kaldar sósur, hvílum þungu rjómasósurnar. Risotto með til dæmis aspas og sjávarfangi er líka sumarlegt og gott.“

Skemmtilegt að smakka nýtt

Einnig finnst Áslaugu Huldu spennandi að prófa eitthvað nýtt. „Maður dettur oft í það að elda mikið það sama, það er því alltaf skemmtilegt að fatta og smakka eitthvað nýtt. Nýjasta nýtt hjá mér er grillað lamb með dijon-sinnepi og ferskum kryddjurtum. Í upphafi sumars fórum við í ferðalag sem sameinaði nokkra ómissandi þætti fyrir sumarið; sumarbústað, góðan mat, fluguveiði og frábæran félagsskap. Í hópnum voru meistarakokkar, hjón, sem töfruðu fram ómótstæðilega rétti. Einn af þeim var þetta lamb sem ég ætla að gefa ykkur uppskriftina af sem ég er nú þegar búin að gera oftar en einu sinni. Þar er mintan í stóru hlutverki en ég hef einmitt verið að nota hana mikið í alls kyns mat í sumar.“

Já, þvílík dýrðarinnar veisla. Lambakórónurnar með mintunni eru fremst, í bakgrunni má sjá fleiri freistandi krásir Áslaugar Huldu.

Fær að sitja að pikknikk-teppinu

Af því þú nefnir ferðalag í sumarbústað og veiðiferðir, hvernig er það, áttu pikknikk-körfu og -tösku og pikknikk-teppi í stíl til að taka með?

„Nei, en Inga Lind, vinkona mín, á sennilega huggulegustu pikknikkkörfu sem sögur fara af og teppi í stíl. Ég fæ oftast að sitja með henni á teppinu og njóta þess sem er í körfunni. Ég á hins vegar alls konar bakka og fötur sem ég nota mikið, bæði í garðinum heima og í ferðalögum. Það er nefnilega ekki nóg að matur bragðist vel, hann þarf líka að líta vel út. Við borðum nefnilega líka með augunum.“

Ertu til í að ljóstra upp þínu uppáhaldsnesti í dagsferðina?

„Eins og ég elska að vesenast í eldhúsinu er ég lítil nestiskona. Í dagsferðina tek ég með mér harðfisk og smjör og einn ískaldan, bjór getur líka verið hinn besti dósamatur. Flatkökur með miklu smjöri og hangikjöti klikka síðan aldrei.“

Ef þú værir að setja saman pikknikk í körfu, hvað væri á óskalistanum?

„Ég fer mjög sjaldan í pikknikk en happy-hour í veiði er sennilega systir pikknikk. Þegar ég set saman happy-hour finnst mér einfaldleikinn skipta máli. Ekki of flókið eða of margar tegundir. Í vöðlum og sól er alvöru parmaskinka, aioli og baguette æðislegt kombó. Bitar af franskri súkkulaðiköku. Gott cava gerir allt betra. Í rigningu og roki er gott að grípa í djúsí roastbeef samloku og bjór, hraunbita til að loka maganum. Heiðarlegt og gott.“

Hvað er ómissandi að taka með í pikknikk?

„Skemmtilegt fólk, það er örugglega hálfasnalegt að setja einn í pikknikk eða happy-hour – sama hversu huggulegar veitingarnar eru. Þetta er svona gaman, saman.“

Sumarsnittur Áslaugar Huldu er konfekt fyrir braglaukana en ekki síður fyrir augað.

Vöðlurnar uppáhaldsferðafötin

Áslaug er með á hreinu hver hennar uppáhaldsferðaföt eru. „Uppáhaldsferðafötin mín eru vöðlurnar á sumrin og skíðabuxur um vetur. Annars ferðast ég í þægilegum fötum og á sumrin er ég yfirleitt í skóm sem ég er snögg að henda af mér því ég elska að vera berfætt. Sundbolurinn er svo alltaf með, konur þurfa að bleyta sporðinn. Það er eins með sumarið og lífið – við getum ekki bara beðið eftir því að eitthvað gerist, við verðum að taka ákvörðun, skipuleggja og koma okkur af stað, gera eitthvað skemmtilegt. Og auðvitað í anda þessa viðtals, borða eitthvað gott.“

Ómótstæðilegt, ferskt og einstaklega gómsætt nautasalat Áslaugar Huldu.

Nautasalat að hætti Áslaugar Huldu

Blanda saman nokkrum tegundum af grænu salati og kreisti safann úr vænni appelsínu yfir. Paprika, gúrka, belgbaunir, rauðlaukur eða annað gott grænmeti fer líka með. Set svo fetaost ásamt olíu, líka gott að setja smá brie eða annan góðan ost. Grilla nautalund, læt standa og sker svo niður í sneiðar. Sneiðum dýft í Asian Duck Sauce og set yfir salatið. Stundum bæti ég við pönnusteiktum sveppum og/eða aspas. Yfir þetta fara síðan hnetur (nota oftast kasjú- og/eða furuhnetur), bláber og/eða önnur ber, spírur og ferska steinselju.

Dýrindis lambakórónur hjúpaðar með mintu bráðna í munni.

Mintuhjúpaðar lambakórónur

Lambakórónur, kryddaðar með SPG og sítrónupipar, grilla. Ekki fullelda, taka af grillinu, smyrja með hunangs-dijon-sinnepi og hjúpa með smáttsaxaðri mintu, steinselju og vorlauk. Hendið inn í heitan ofn í stutta stund. Borið fram með krydduðu kúskús, grænu salati og kaldri jógúrt- eða hvítlaukssósu. Muldar pistasíuhnetur fara yfir lambið áður en það er borið fram. ■