Fyrrverandi körfuboltaleikmaðurinn Lamar Odom segist sjá eftir því að hafa haldið fram hjá fyrrverandi eiginkonu sinni til fjögurra ára, Khloé Kardashian, og fyrir að hafa leynt hana, vini og vandamenn þá staðreynd að hann átti við fíkniefnavanda að stríða.

„Ég vildi óska þess að ég hefði verið meiri maður,“ segir Odom í nýrri ævisögu hans, Darkness To Light, sem kemur út 28. maí. Þar segir hann ennfremur að í upphafi hafi hjónin, sem skildu fyrir fimm árum eftir fjögurra ára hjónaband, verið í skýjunum.

„Ég var henni trúr í upphafi hjónabands. Að vera með henni var himneskt og ég hef sennilega aldrei verið hamingjusamari en þá.“

Fljótlega hafi frægðin og fíknin tekið við, á sama tíma árangursríkur ferill hans í NBA var að taka enda. „Ég réði ekki við hinn banvæla kokteil sem samanstóð af sviðsljósinu, fíkninni og versnandi ferli,“ segir Odom sem er edrú í dag.

„Ó, og gleymdi ég að minnast á ofsóknarkenndina, kvíðann og þunglyndið? Ég gat ekki haldið limnum í buxunum eða kókaíninu úr nefinu,“ bætir hann við. Hann hafi haldið fram hjá henni ítrekað og leynt hana fíkninni sem hann glímdi við.

Fíknin dró Odom næstum því til dauða en árið 2015 var hann lagður inn á bráðamóttöku eftir að hafa tekið of stóran skammt. Khloé var mætt honum við hlið, þrátt fyrir allt sem á undan hafði gengið, og kom það Odom á óvart.

„Ég gleymi því ekki þegar ég vaknaði og hún sýndi mér myndir af móður minni,“ segir Odom. Cathy, móðir hans, lést úr krabbameini þegar hann var tólf ára. „Það kom mér í opna skjöldu hvað hún var fljót að sýna hversu trú hún var mér.“

Hann segir eftirsjána gífurlega og ljóst að hann muni þurfa að lifa með henni um ókomna tíð. „Ég verð bara að læra að lifa með þessari eftirsjá.“

People fjallaði um óútgefna ævisögu körfuboltakappans fyrrverandi.