Hinir ýmsu fornu menningarheimar hafa gjarnan persónugert martraðir og kennt við ýmist manneskjur og/eða dýr, enda má víða finna hrollvekjandi þjóðsagnir um martraðarverur sem ráða illum draumförum. Þar má nefna hinar algengustu, mörur, en fyrirbærið tengist martröðum órjúfanlegum böndum.

Í fornum germönskum og slavneskum þjóðsögum eru mörur óvingjarnleg fyrirbæri eða verur, sem koma sér fyrir á bringu sofandi fólks og valda slæmum draumum eða martröðum. Í fornensku eru verurnar kallaðar mære og mara heitir þetta í fornnorrænu, fornháþýsku og fornum slavneskum málum. Flestir tungumálafræðingar hafa rakið orðið eins og það kemur fyrir í þessum fjölda tungumála til orðhlutans „mer“ sem tengist því að kremja, þvinga, þrýsta, undiroka, eða eins og í íslensku: að merja.

Í mörgum frásögnum er maran sögð ríða dreymandanum eins og hesti, sem myndi útskýra hversu algengt er að dreymandi vakni upp í svitakófi. Einnig var sagt að maran flækti hár dreymandans sem útskýrir það þegar fólk vaknar upp með flókahnút í hárinu eftir langa umbyltinganótt.

Mörur á þrettándu öld.

Í Ynglingasögu sem rituð var á þrettándu öld má finna eina frægustu frásögnina um möru, sem ásótti konung Svíþjóðar, Vanlanda Sveigðisson. Hún var send af finnsku seiðkonunni Huldu sem starfaði í umboði Drífu, konu sem konungur hafði yfirgefið. Þá bað Drífa Huldu um að lokka konunginn heim eftir tíu ára fjarveru, ellegar valda dauða hans.

Maran í Póllandi

Í pólskum sögnum tengist maran orðsifjafræðilega vetrarforynjunni Marzönnu, en um er að ræða goðmagn sem tengist árstíðaskiptum frá hausti til vetrar, dauða og endurfæðingu. Samkvæmt pólskum sögnum gat maran ýmist verið syndug kona, kona sem dó án þess að gera játningu eða kona sem einhver hafði komið illa fram við í lifanda lífi. Mörur gátu einnig verið sjöundu dætur, voru í einhverjum tilfellum með mislit augu eða voru sambrýndar. Stundum hafði nafn þeirra verið rangt borið fram við skírn.

En alla jafna trúði fólk að mörur gætu breytt sér í ýmis dýr og hluti eins og til dæmis ketti, froska, garn, strá eða epli. Mörurnar þurrjusu mannfólk og húsdýr af orku og jafnvel blóði á nóttunni. Í þjóðsögum Sama eru til frásagnir af illum álfi sem kallast Dettán. Hann breytir sér í fugl eða annað dýr, situr á brjóstum manna og kallar fram martraðir.

Algengar aðferðir til að verjast mörum í Póllandi voru:

- Drekka kaffikorg fyrir svefninn

- Taka hattinn af mörunni

- Kasta snöru að henni

- Sofa með leður, brúðkaupsbelti eða ljá

- Bjóða mörunni í morgunmat

- Skipta um svefnstellingu

- Smyrja úrgangi á útidyrahurðina

- Setja heyböggul í rúmið og sofa annars staðar

- Til þess að vernda húsdýr hengdi fólk spegil yfir jötuna eða kom dauðum ránfuglum fyrir á hlöðudyrum til að hræða möruna burt. Stundum var rauður borði settur á hesta eða þeir smurðir illa lyktandi efni.

Mara eða lömun?

Það er ekki að ástæðulausu að svefnrofalömun hefur hvað oftast hefur verið tengd við þjóðsögur um mörur. Um er að ræða ástand sem felur í sér lömun á þverrákóttum vöðvum í svefnrofunum, þegar viðkomandi er um það bil að festa blund eða losa svefn. Svefnrofalömun kemur snögglega og varir oftast í nokkrar mínútur, hættir jafn snögglega og hún kom eða smá hverfur.

Á meðan á svefnrofalömun stendur finnst viðkomandi að hann sé vakandi, eða í svefnrofunum og geti hvorki hreyft legg né lið. Þá reynir hann oftast að hreyfa sig og vakna að fullu en getur það ekki. Stundum fylgja svefnrofalömunum ofsjónir eða ofheyrnir. Til er fjöldi frásagna í nútímanum af fólki sem hefur að öllum líkindum upplifað svefnrofalömun. Dæmigerð frásögn er einhvern veginn svona:

„Ég vaknaði og vanalega hefði ég einfaldlega risið upp úr rúminu. En þetta var ekki venjulegt. Ég fann strax að ég var ekki einn. Það var einhver annar í herberginu. Eða eitthvað annað. Einhver óútskýranleg nærvera sem ég gat ekki skilgreint, hreyfði sig eins og skuggi og breytti um lögun. Ég vissi að veran var komin vegna mín. Það versta var að ég gat ekkert gert. Ég reyndi að hreyfa mig en vöðvarnir hlýddu ekki. Ég gat ekki staðið upp og flúið. Né heldur gat ég snúið höfðinu til að sjá hvað væri um að vera. Ég gat ekki lyft svo mikið sem litla fingri til að verja mig. Ég gat ekki einu sinni öskrað því ég hafði enga rödd. Ég bara lá þarna hreyfingarlaus á meðan veran nálgaðist.“

Eins óhugnanleg og vísindalega útskýringin á svefnrofalömun hljómar, þá er hún líklega margfalt viðráðanlegri en óútskýranleg forynja sem liggur á brjóstkassa manna og sýgur úr þeim orku og veldur jafnvel dauða í svæsnustu tilfellum.