Skarp­héðinn Guð­munds­son, dag­skrár­stjóri RÚV, segir að birting Euro­vision lags Ís­lendinga 2021, „10 years,“ eftir Daða Frey, á netinu í gær sé klár þjófnaður. Hann segist líta málið al­var­legum augum, að því er haft eftir honum af RÚV.

Þar segir Skarp­héðinn að laginu hafi verið skilað inn til Euro­vision keppninnar á þriðju­daginn. Innan við sólar­hring síðar var lagið komið á netið.

„Þetta er klár þjófnaður, þetta er í sjálfu sér ekki leki. Þetta hef­ur gerst áður, oft­ar en einu sinni. Þetta seg­ir til um hversu mik­il eft­ir­vænt­ing­in er, þegar kem­ur að því að fólk vilji heyra þessi lög. Það er eitt­hvað sem við get­um litið já­­kvæðum aug­um, það er mik­il eft­ir­vænt­ing eft­ir því að heyra fram­lag Daða og Gagna­­magns­­ins í ár,“ seg­ir Skarp­­héðinn.

Hann segir ó­mögu­legt að vita hvernig þetta hafi komið fyrir. „Eins og ég segi, þetta eru ein­hverj­ir ó­prúttn­ir aðilar sem stunda þetta. Það eru veð­bank­ar í kring­um þetta og þetta hef­ur ör­ugg­­lega eitt­hvað með það að gera líka. En eins og ég segi, þá er ó­mögu­­legt að rekja það og það eina sem við get­um gert er að halda okk­ar striki og við ber­um okk­ur vel og Daði og er ró­­leg­ur, við erum ró­­leg og höld­um okk­ar striki.“

Þá segir Skarp­héðinn að málið sé litið al­var­legum augum. „Við erum í sam­bandi við for­svars­­menn keppn­inn­ar og höf­um gert þeim grein fyr­ir því að þetta hef­ur lekið og að við lít­um það al­var­­leg­um aug­um,“ segir Skarp­héðinn. Lagið verður hins­vegar frum­flutt í sjón­varpi í allri sinni dýrð á laugar­dag eins og ekkert hafi í skorist.