LungA-há­tíðin hefur verið haldin á Seyðis­firði síðan 2000, há­tíðin byrjaði sem gras­rótar­fram­tak ungra Seyð­firðinga en hefur vaxið yfir í al­þjóð­lega lista­há­tíð er saman­stendur af lista­smiðjum, gjörningum, ung­menna­skiptum, sam­fé­lags­verk­efnum og svo auð­vitað sjálfum há­tíðar­tón­leikunum sem kóróna LungA á föstu­degi og laugar­degi há­tíðar­vikunnar.

Undir­ritaður hefur mætt á LungA nánast ár­lega frá 2014 og var nú við­staddur há­tíðina í fyrsta sinn sem blaða­maður. Ó­gjörningur væri að fjalla um alla dag­skrá LungA í einum pistli auk þess sem yðar ein­lægur gat því miður ekki verið á Seyðis­firði alla vikuna sökum vinnu.

LungA hefur gengið í gegnum ýmsar um­breytingar á síðustu árum. Co­vid setti auð­vitað sitt mark á há­tíðina eins og á allar aðrar fjölda­sam­komur, LungA var af­lýst 2020 en hún var þó ein af fáum há­tíðum sem tókst að halda sumarið 2021. Það sem varpaði þó lík­lega enn stærri skugga á há­tíðina eru skriðurnar sem féllu á Seyðis­fjörð í desember 2020. Á­hrifa þeirra gætir enn í bænum og fyrir LungA höfðu skriðurnar meðal annars þau á­hrif að há­tíðar­svæðið var flutt frá iðnaðar­höfninni Norður­síld vegna skriðu­hættu. Norður­síld var til­komu­mikið há­tíðar­svæði með rúmt pláss fyrir svið og tón­leika­gesti og ægi­fagurt út­sýni yfir fjörðinn. LungA er aug­ljós­lega enn svo­lítið að finna sig eftir þann missi en í fyrra var brugðið á það ráð að búa til stór­tón­leika­stemningu í í­þrótta­húsi bæjarins.

Í ár leituðu há­tíðar­haldarar aftur til upp­runans og héldu tón­leikana utan­dyra í brekkunni fyrir framan barna­skólann og girtu af svæðið fyrir framan sam­komu­húsið Herðu­breið, mið­stöð LungA til margra ára. Þetta virkaði ekki alveg sem skyldi og gerði það að verkum að há­tíðar­svæðið, sem oftast hefur ein­kennst af miklu sjónar­spili með sér­smíðuðu sviði og til­komu­miklum skreytingum, var nú að­eins skugginn af sjálfu sér. Í staðinn mætti há­tíðar­gestum ó­sköp fá­brotið hvítt tjald sem hefði sómt sér á hvaða bæjar­há­tíð úti á landi sem er og skreytingarnar saman­stóðu af marg­litum tuskum er strengdar höfðu verið á línu yfir há­tíðar­svæðið. Að­sókn á há­tíðina virtist að sama skapi ör­lítið minni heldur en í fyrra þótt erfitt sé að full­yrða um slíkt.

Flutningur Bríetar var einlægur.
Mynd/Aðsend

Tón­leikarnir sjálfir voru þó vel heppnaðir og komu margir góðir lista­menn fram með á­herslu á ungu kyn­slóðina í poppi og rokki.

Á föstu­dags­kvöldið reið ungstirnið Gugusar á vaðið og þrátt fyrir að tón­leika­gestir hafi enn verið að tínast inn náði hún að keyra stemninguna í gang með sinni grípandi blöndu af raf­tón­list og svefn­her­bergis­poppi. Ef Gugusar heldur rétt á spilunum er ljóst að hún hefur alla burði til að verða ein skærasta stjarna ís­lenskrar popp­tón­listar. Kvöldið endaði svo með sprengju frá Birni, einum vin­sælasta rappara landsins um þessar mundir. Eins og sannri popp­stjörnu sæmir var Birnir ekkert að drífa sig á svið en undir­ritaður sá hann hanga í mann­fjöldanum á­samt vinum sínum einungis nokkrum mínútum áður en hann átti að byrja.

Á­horf­endur þustu að eins og mý­flugur er hann steig loks á svið og tók hann vel heppnað sett með ýmsum góðum gestum á borð við Brynjar Barkar­son úr ClubDub sem tók lagið á­samt Birni og lista­manninn Bene­dikt Andra­son sem rakaði hár rapparans í miðju lagi við góðar undir­tektir. Kvöldið kláraðist svo með DJ-settum og raf­tón­leikum á tveimur mis­munandi svæðum innan­dyra, annars vegar í sam­komu­sal Herðu­breiðar, þar sem reynt var að skapa eins konar reif-stemningu, og hins vegar í efri sal í­þrótta­hússins, þar sem reynt var að skapa eins konar Ber­línar-klúbba­­stemningu.

Svala var kraftmikil að vanda.
Mynd/Aðsend

Seinna kvöldið á LungA var ekki síðra. Rokk­hundarnir Skrattar hófu leika og þótt undir­ritaður geti ekki fyrir sitt litla líf munað eftir einu einasta lagi þá var spila­mennskan engu að síður þétt. Há­punktur kvöldsins var án efa flutningur Bríetar, sem er á hraðri leið með að verða ein flottasta popp­söng­kona sem Ís­land hefur alið af sér. Hún vafði á­horf­endum um fingur sér á­reynslu­laust og sýndi að það þarf hvorki sjónar­spil né sýndar­mennsku til að ná upp góðri stemningu, að­eins inn­lifun og ein­lægni.

Reynslu­boltinn Svala lauk svo kvöldinu og þar með há­tíðar­tón­leikunum og myndaði gott mót­vægi við hina ungu Bríeti. Laga­listi hennar var þó nokkuð sundur­laus og saman­stóð bæði af hennar eigin lögum og klassískum diskóslögurum en Svala söng af inn­lifun með rödd sem er ein sú kraft­mesta í bransanum. Að tón­leikunum loknum hélt svo fjörið á­fram á dans­svæðum há­tíðarinnar innan­húss.

Niður­staða: LungA heldur velli þrátt fyrir skriður og sam­komu­tak­markanir, en ljóst er að há­tíðin þarf að leggjast í ein­hverja sjálfs­skoðun ef hún ætlar að ná sömu hæðum og áður.