Mörgæs með brostið hjarta – ástarsaga er ný skáldsaga eftir Stefán Mána. Um efni bókarinnar segir höfundurinn: „Aðalpersónan er ungur rithöfundur sem býr einn í risíbúð í miðbænum. Hann glímir við áfallastreituröskun og er að baksa við að skrifa sína fyrstu skáldsögu sem fjallar um mörgæs með brostið hjarta. Hann er skotinn í stelpu sem vinnur á kaffihúsinu sem hann sækir daglega, en er lítill í sér og feiminn. Þetta er lágstemmd og án efa stórfurðuleg ástarsaga.“

Stefán Máni er þekktastur fyrir harðsoðnar glæpasögur en af hverju vildi hann skrifa ástarsögu? „Ég fékk hugmynd sem þróaðist yfir í einhvers konar ástarsögu,“ segir hann. Það er margt sem gerist í bókinni þótt hún sé stutt. Meðal annars skapast í henni ástand sem kallast nokkuð á við ástandið sem við lifum við núna, heimskreppa og einangrun. Bókin er reyndar undir töluverðum áhrifum frá þeirri klassísku og góðu bók Palli var einn í heiminum.“

Formföst og stílhrein

Bókin er stutt, 128 blaðsíður. Stefán Máni er spurður hvort hún sé stysta bók sem hann hafi skrifað. „Þessi og Myrkravél sem kom út árið 1999 eru svipaðar að lengd en gjörsamlega eins og svart og hvítt. Myrkravél er mjög myrk og drungaleg en þessi er furðu krúttleg miðað við að þar er verið að fjalla um alls konar dramatíska hluti.“

Hann segir krefjandi að skrifa stutta bók með meitluðum texta. „Því styttri sem texti er því meira áberandi verður hann. Svona stutt bók verður eiginlega að vera gallalaus, formföst og stílhrein. Um leið og maður gerir einhverja gloríu verður hún svo áberandi.

Mér finnst mjög gaman að gefa bókina út og er mjög kátur með hana. Svo á eftir að koma í ljós hvort lesendur taki henni opnum örmum. Ég er mjög meðvitaður um það að hún er mjög líklega ekki metsölubók. Mínir lesendur eru aðallega glæpasagnafólk, en vonandi næ ég til einhverra nýrra lesenda.“

Einn dagur í einu

Spurður hvort von sé á glæpasögu um næstu jól segir hann: „Það er aldrei að vita. Maður tekur bara einn dag í einu og horfir á daglegan blaðamannafund til að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.

Ég vona að fólk noti og njóti þessara skrýtnu tíma til að gera eitthvað uppbyggilegt eins og að lesa en gleymi sér ekki alveg yfir sjónvarpinu og símanum. Ég hef engar áhyggjur af því að fólk sé ekki að lesa í dag. Ég held að einmitt núna sé tíminn þegar fólk getur gripið bók og lesið, nokkuð sem það hefði ekki gert annars.“

Í ljósi aðstæðna skal þess getið að hægt er að fá bókina heimsenda á sogurutgafa.is og Heimkaup.