Síðastliðinn föstudag kom út fyrsta stuttskífa söngkonunnar Rakelar Sigurðardóttur, Nothing ever changes. Platan inniheldur fjögur lög, en lagið Ég var að spá sem hún tekur með JóaPé og CeaseTone hefur hlotið mikið lof. Hún gerði á dögunum samning við Sony í Danmörku um dreifingu á tónlist sinni. Rakel segir erfitt að koma því nákvæmlega í orð hvernig tónlist þetta er.

„Mér finnst þetta erfið spurning. Indí eða elektróník. En svo er stundum líka bara klassískur kassagítar.“

Smeyk við að flytja eigið efni

Rakel byrjaði að læra á fiðlu þegar hún var sex ára og hélt náminu áfram til átján ára aldurs.

„Svo byrjaði ég að læra djass og söng þegar ég var fjórtán ára á Akureyri, en ég er þaðan. Ég útskrifaðist af nokkurs konar poppdeild, eða skapandi línu, frá MÍT, síðasta vor. Tíminn líður svo hratt. Ég hef alltaf verið að gera tónlist en í gegnum tíðina hef ég meira verið að koma fram með öðrum, frekar en að gefa út mitt eigið efni. Ég var frekar smeyk við það.“

Rakel hefur komið fram með tónlistarmanninum Axel Flóvent í mörg ár.

„En hann er einmitt frá Húsavík. Ég túraði svolítið með honum. Svo hef ég komið fram með mörgum öðrum vinum mínum, eins og til dæmis Salóme Katrínu Magnúsdóttur.“

Hún segist fyrst og fremst vera söngkona, þegar kemur að því að semja.

„Laglínurnar koma yfirleitt til mín fyrst, svo finn ég út úr restinni. Ég vinn mikið með strák sem heitir Hafsteinn Þráinsson. Hans sólóverkefni kallast CeaseTone. Við erum mjög gott teymi.“

Hlakkar til að halda tónleika

Henni finnst gaman að koma fram þótt hún hafi ekki gert það mikið með eigið efni.

„Við Salóme og Sara Flindt héldum streymistónleika frá Mengi. Það var mjög gaman og í raun eina skiptið sem ég hef komið fram með mína eigin tónlist. Platan var var tilbúin þegar Covid-19 skall á. Þannig að ég hef ekkert náð að fylgja henni eftir. Heimsfaraldurinn hafði ekki áhrif á gerð plötunnar sjálfrar, heldur frekar útgáfuna. Allt var frekar óskýrt, hvað væri sniðugast og best að gera,“ segir hún.

Rakel hefur nú þegar gefið út tvö lög af plötunni.

„Það er alveg spennandi að geta haldið bráðum tónleika og flutt efnið.“

Rakel segist ekki eiga sér neitt draumasamstarf en alltaf hafa notið þess að vinna með vinum sínum líkt og Salóme.

„Það er fullt af tónlistarfólki sem væri gaman að vinna með. Verkefnið með Salóme er líka mjög spennandi og við gefum út plötu í haust. En mér finnst erfitt að segja upphátt hvert draumasamstarfið væri, því þá myndi ég kannski „jinxa“ það.“

Hugsað í lausnum

Hún segist strax vera farin að vinna að annarri plötu.

„Sumarið fer sem sagt bara í það að vinna í tónlist.“

Heimsfaraldurinn gerði það að verkum að Rakel fór að prufa sig áfram með öðruvísi tónlist og fleiri hljóðfæri.

„Ég er búin að vera að semja til dæmis á rafmagnsgítar sem ég fékk lánaðan hjá vini mínum, sem ég hef ekki gert áður. Þannig að maður var oftar að grípa í eitthvað bara úr nærumhverfinu, hugsa í lausnum.“ ■

Nothing ever changes er hægt að nálgast á öllum helstu streymisveitum.