Leiklist

The Last Kvöldmáltíð

Leikhópurinn Hamfarir í Tjarnarbíói

Leikstjóri: Anna María Tómasdóttir

Höfundur: Kolfinna Nikulásdóttir

Leikarar: Albert Halldórsson, Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Helga Braga Jónsdóttir, Ólafur Ásgeirsson og Ragnar Ísleifur Bragason

Sviðsmyndahönnun: Brynja Björnsdóttir

Búningahönnun: Brynja Skjaldardóttir

Ljósahönnun: Ólafur Ágúst Stefánsson

Tónskáld: Salka

Tvær og hálf stjarna

Að leikhópur frumsýni nýtt íslenskt leikverk er engin nýlunda lengur, frekar nánast undantekningarlaus regla. Stofnanaleikhúsin sýna auðvitað einstaka sígild verk þekktra erlendra höfunda og stöku samtímaverk en hvers vegna fjölbreytt erlend samtímaleikrit ná ekki betri fótfestu á íslenskum leiksviðum er rannsóknarverkefni sem vel hefði mátt leggjast í á tímum heimsfaraldurs. Hversu vel þekkjum við til verka helstu samtímaleikskálda Norðurlanda? Evrópu? Ameríku? Afríku? Þessar hugrenningar urðu áleitnar á frumsýningu The Last Kvöldmáltíð því óneitanlega er freistandi að skoða verkið út frá áhrifum einangrunar, útilokunar og úrkynjaðrar sjálfsupphafningar.

Sambandsleysi við verkið

Fimm einstaklingar hafast við á þurrum botni sundhallar í Reykjavík, líklega um miðbik þessarar aldar. Einhvers konar óljós heimsendir er skollinn á, allir aðrir dánir og mannskepnan búin að skemma jörðina án þess að skilgreint sé með hvaða hætti. Þessir einstaklingar eru þokkalega birgir af niðursuðuvörum og eru að undirbúa veislu í tilefni 17. júní. Siðferðið virðist fokið út í veður og vind þó óljóst sé hvort persónurnar, sem sænga hver hjá annarri, séu blóðskyldar eða ekki. Þannig er nær ómögulegt að ráða í texta verksins, hvort höfundur ljúgi að persónum sínum eða áhorfendum. Það er jafnvel ekki útilokað að þetta sé allt saman „atriði“ eða leikrit inni í leikritinu. Þetta veldur sambandsleysi áhorfenda við verkið, manni stendur hjartanlega á sama um persónur sem maður veit ekki hvort séu í raun og veru að segja satt. Í kynningu verksins er spurt hvort þessir fimm einstaklingar geti bjargað mannkyninu og heiminum með því að lifa lífinu á annan og nýjan hátt. Maður stendur sig hálfpartinn að því að vona að þeir drepist frekar.

Skipti milli ensku og íslensku

Áhorfendur eru varaðir við því að sena í leikverkinu feli í sér kynferðisofbeldi. Hvergi er hins vegar minnst á að stór hluti verksins fari fram á ensku. Í þessari framtíðarsýn hefur íslenskri tungu verið hrært saman við ensku í slíkum mæli að jafnvel þýðingartextaþörfum viðmælenda Gísla Marteins hlýtur að bregða í brún. Þetta er spennandi tilraun hjá Kolfinnu Nikulásdóttur sem gjarnan mætti þróa áfram sem sjálfstæðan örþátt í forvarnarskyni fyrir framtíð íslenskrar tungu. Í tveggja tíma sýningu gengur þetta þó ekki upp. Rétt eins og taumlaus og yfirdrifin klúryrðin, verða skiptin milli ensku og íslensku fljótt þreytandi. Til þess að koma þessu ofan í áhorfendur er málfar verksins frekar einfalt á báðum tungumálum. Það olli því að karakterarnir virkuðu yfirborðskenndir og náðu hvorki að miðla dýpt né undirtexta, samkennd og tenging áhorfenda við þessa síðustu kvöldmáltíðargesti heimsins var illmöguleg.

Og fyrst haft er fyrir því að vara miðakaupendur við kynferðisofbeldi í verkinu, hví eru þeir ekki líka upplýstir um það að verulegur hluti leikritsins fari fram á ensku? Það skilja ekki allir ensku, líkt og Eiríkur Rögnvaldsson hefur bent á, í skrifum sínum um málfarslega stéttaskiptingu og þá hættu að viðkvæmir hópar fyllist minnimáttarkennd eða skömm yfir því að skilja ekki hvað verið er að segja.

Umgjörð verksins er helsti styrkur þess ásamt auðvitað tilraunamennsku höfundar sem lofa skal, þrátt fyrir að hún hafi ekki heppnast fyllilega. Sviðsmyndin er falleg og lýsingin vel unnin. Það var gaman að sjá Helgu Brögu Jónsdóttur aftur á sviði og samleikur þeirra Ásthildar Úu Sigurðardóttur var oft ágætur. Innbyrðis tengsl og stöður persóna verksins voru hins vegar of óljósar af hálfu höfundar og leikstjóra til þess að leikararnir gætu blómstrað í hlutverkum sínum og verkið allt of langt miðað við efnivið.

Niðurstaða: Styrkur verksins er umgjörðin ásamt tilraunamennsku höfundar en karakterarnir eru yfirborðslegir.