Jakob Ómarsson, rithöfundur og bókaútgefandi, er í skýjunum þessa dagana en hans fyrsta bók, Ferðalagið, var rétt komin í höfn þegar hún hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barnabóka.

„Ég get eiginlega ekki sagt það,“ segir Jakob þegar hann er spurður hvort hann hafi séð tilnefningar eða verðlaun í hillingum á meðan hann vann að Ferðalaginu, sem hann lýsir sem styrkleikabók handa börnum.

Óvissuferð

„Þegar ég byrjaði vegferðina og að skrifa bókina þá kom sú hugmynd ekki einu sinni upp að hún gæti fengið tilnefningu til einhverra verðlauna.“ Hann bætir við að hann hafi miklu frekar spáð í hvort hún myndi seljast og hvernig hann gæti stuðlað að því.

Þegar bókin var tilbúin og hann gat horft á hana úr aðeins meiri fjarlægð var hann þó svo ánægður með hana að hann ákvað að leggja hana fram.

„Og þá er ég ekki að segja að ég hafi búist við þessu. Þvert á móti fannst mér það mjög ólíklegt. Virkilega. En, ég meina, þetta var niðurstaðan og maður er náttúrlega bara hoppandi kátur með það.“

Einstök frumraun

Dómnefndin rökstuddi tilnefningu Ferðalagsins með þessum orðum: „Bókin er skemmtileg lesning og hvetur til aukins tilfinningaþroska. Aukaefni fylgir bókinni sem útskýrir efni hennar og nýtist við lesturinn. Framsetning bókarinnar gerir hana að einstakri frumraun.“

Jakob segir aðspurður að fyrir honum sé tilnefningin meðal annars áþreifanleg staðfesting á því sem hann hefur lengi vel haldið, að grunnhugmynd hans að bókinni hafi bara verið býsna góð.

Ekki spillir fyrir gleðinni að Jakob gefur bókina út sjálfur og stofnaði bókaútgáfuna Af öllu hjarta sérstaklega utan um verkefnið sem hófst með samtali hans við dóttur sína þegar hún var átta ára.

„Þetta byrjar í rauninni þegar ég er að tala við dóttur mína um styrkleika og ég er að útskýra merkingu orðsins fyrir henni.“ Samtal feðginanna leiddi til þess að þau gerðu styrkleikaæfingu saman með spjöldum sem Jakob átti fyrir.

„Og þarna eftir þessa æfingu vissi ég alveg strax að þetta væri ótrúlega góð hugmynd og að ég yrði að vinna eitthvað með þetta.“

Ferðalag Ferðalagsins

Jakob segir gaman að því að þótt Ferðalagið sé fyrsta bókin sem hann skrifaði, þá hafi næsta bók hans, Búálfar-Jólasaga, komið út á undan. Ástæðan er að Ferðalagið var sjálft á ferðalagi.

Ferðalagið var nefnilega lengi á leið til landsins og þannig sat bókasendingin meðal annars föst í einhverjum höfnum og á tímabili var talið að skipið hefði siglt fram hjá einum áfangastaðanna. „Það fór bara eitthvert út í buskann og við héldum að það væri bókstaflega týnt, en síðan kom í ljós að bókin var ekkert í því skipi,“ segir Jakob, um hina raunverulegu ferðasögu sem að lokum fékk farsælan endi. Rétta skipið fannst og skilaði sér til landsins í síðustu viku.

Opinn og einlægur

Jakob segist hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð við bókinni sem kann að skýrast af því að hann prufukeyrði bókina á börnum og fullorðnum í ferlinu. „Ég vil meina að það sé algerlega lykillinn að þessu, þar sem ég sá þarna hvað væri að virka, hvað ekki og hvað ég gæti bætt. Ég vil meina að þetta sé ástæðan fyrir því að hún er eins fín og hún er.“

Að sjálfsögðu er ómögulegt annað en spyrja höfund styrkleikabókarinnar hverjir séu hans helstu styrkleikar. „Þetta er góð spurning. Ég myndi segja hugrekki og félagsfærni, alveg hiklaust. Ímyndunarafl, eigum við ekki að segja það líka, og opinn og einlægur ef ég myndi nefna fimm.“