Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal, er stjórnarformaður Lagarlífs. „Óneitanlega er það ánægjulegt að geta loksins komið saman til fundar á nýjan leik. Þrátt fyrir að Covid hafi vissulega sett strik í reikninginn hjá flestum hefur aðildarfyrirtækjum Lagarlífs sannarlega vaxið fiskur um hrygg á tímum faraldursins. Við byrjuðum frekar smátt en þetta hefur vaxið ört og við erum þakklát þeim sem hófu það starf sem er Lagarlíf í dag.“

Að Lagarlífi standa fyrirtæki sem stunda eldi og ræktun í legi. Þar eru einnig aðilar sem þjónusta þessi fyrirtæki.

Frábært vettvangur

„Lagarlíf er vettvangur fyrirtækja í þessum vaxandi greinum hér á landi,“ segir Halldór. „Þetta byrjaði miklu smærra en hefur vaxið gríðarlega á skömmum tíma, ekki síst vegna þess að nú eru eldisfyrirtækin að koma inn í þetta. Þetta eru fyrirtæki í sjóeldi og landeldi. Fólk áttar sig kannski ekki almennt á því, en eldisfyrirtækin eru að verða burðarstoð í íslensku atvinnulífi og þar með burðarstoð Lagarlífs,“ segir Halldór og nefnir jafnframt að mikil og vaxandi eftirspurn sé eftir sjávarfangi á borð við eldisfisk, enda er sívaxandi krafa um umhverfisvæna matvælaframleiðslu í heiminum.

Mikil þróun í starfinu

Halldór bendir á að þörungavinnsla hafi breyst og þróast mikið frá því að Þörungaverksmiðjan að Reykhólum var opnuð fyrir 45 árum. Hún sé enn í fullum rekstri og mikil vöruþróun hafi átt sér stað, en vinnsla þörunga felist ekki lengur eingöngu í því að tína eða safna þörungum til að þurrka þá. Nú sé margs konar starfsemi á þessu sviði. „Við erum með þörungaræktun, þörungatöku og -vinnslu sem framleiðir hráefni til ýmissar framleiðslu sem fólk almennt tengir ekki mikið við þörunga. Við erum til dæmis að tala um ýmsar heilsu- og snyrtivörur. Töluvert fer í dýrafóður enda er mikilvægt að þar séu líka notaðar umhverfisvænar vörur og að hugmyndafræðin um gæði nái þar í gegn.

Ráðstefnan fjallar um málefni sem eru sameiginleg öllum þeim sem koma að þessum greinum, hvort sem um ræðir framleiðendur eða þau fyrirtæki sem þjónusta þá, en starfsemi aðildarfyrirtækja Lagarlífs styður mjög við uppbyggingu tengdrar starfsemi. „Áherslan er mjög á menntunar- og öryggismál, enda eru þau lykilatriði í þessum geira.“

Mikill áhugi fyrir ráðstefnunni

Halldór segir fyrirtækjunum hafa tekist býsna vel að halda uppi vinnslu og öðrum þáttum, eins og sölustarfsemi og þróun, þrátt fyrir Covid og allt sem því hefur fylgt. „Við höfum að mestu náð að halda dampi. En auðvitað eru þessar miklu takmarkanir hamlandi og skrítnar. Í meira en eitt og hálft ár hafa allir fundir verið á Teams og Zoom og hver setið fyrir framan sinn skjá. Þess vegna er afskaplega gleðilegt að geta komið saman á þessari ráðstefnu núna, hist og rætt saman augliti til auglitis. Við erum dálítið eins og kýrnar á vorin og ráðum okkur varla fyrir kæti.“

Námsfólki, sem hefur áhuga á að kynna sér það sem er að gerast í þessum vaxtargreinum, er boðið upp á sérkjör inn á ráðstefnuna. „Við höfum fundið fyrir miklum áhuga námsfólks, sem er mikilvægt. Þetta er þekkingarstarfsemi og því skiptir miklu máli að vera í góðum tengslum við skóla og námsmenn. Jafnvel má segja að þetta sé sprotastarfsemi og mjög þýðingarmikið er fyrir okkur að tengjast vel sérfræðingum framtíðarinnar.“

Erlendir gestir áhugasamir

Halldór segir áhuga erlendra aðila á Lagarlífi hafa farið hratt vaxandi og nú stefni í metþátttöku erlendra aðila á ráðstefnunni. „Fyrirtæki eru farin að sýna Lagarlífi mun meiri áhuga en áður. Bæði íslensk og erlend. Við fáum fyrirlesara víða að, gjarnan sérfræðinga sem starfa í fyrirtækjum hér á landi og erlendis, og þeim fylgir gjarnan stór hópur sem kemur til að fylgjast með ráðstefnunni og taka þátt í henni. Þetta finnst okkur mjög jákvætt. Ég hef einmitt hvatt fyrirtæki, sem eru að koma ný inn í þetta, til að koma í þetta af krafti, koma með hugmyndir. Þau geta miðlað af sinni þekkingu á þessum vettvangi. Þetta er þekkingarsamfélag þar sem skoðanaskipti og miðlun hugmynda er einmitt það sem leiðir til þróunar og þess að við færumst fram á við.“

Halldór segir að ekki megi vanmeta hve mikilvægt sé að geta haldið ráðstefnu þar sem fólk hittist í stað þess að hver sitji í sínu horni fyrir framan tölvuskjá. „Einn mikilvægur dagskrárliður er til dæmis að hittast á barnum eftir að fundum dagsins lýkur. Þar rabbar fólk saman, skiptist óformlega á hugmyndum og upplýsingum sem geta orðið grunnur að mikilvægu samstarfi í framtíðinni. Það er nefnilega þannig að þó að það sé auðvitað hægt að sinna mjög mörgu í gegnum fjarfundi kemur ekkert í stað þess að hitta fólk og blanda geði við það. Mannlegu samskiptin njóta sín ekki til fulls í gegnum tölvu.“

Lagarlíf til framtíðar

Halldór telur Lagarlíf geta átt sér glæsta framtíð. „Lagarlíf hefur alla burði til að vera mikilvægur vettvangur fyrir atvinnugreinar í eldi og ræktun sem og þjónustuaðila og aðra hagaðila sem þessu tengjast. Ég vil að þetta verði stórviðburður hér á landi, ráðstefna sem enginn í þessum greinum má missa af. Þetta á að vera þannig að um leið og ráðstefnunni lýkur bóki menn sig á ráðstefnuna næsta ár. Þetta er mín framtíðarsýn fyrir Lagarlíf, og við erum einhuga um þetta, stjórn og framkvæmdastjóri,“ segir Halldór Halldórsson, sem lætur af embætti formanns Lagarlífs næsta ár, enda má enginn sitja lengur í stjórn en tvö ár í senn.