Tómas samdi texta lagsins og syngur það ásmt Tobbu systur sinni. Þetta eru þó ekki hans fyrstu skref inn í tónlistarheiminn því Tómas er vanur að vera á bakvið myndavélina að taka upp tónlistarmyndbönd fyrir meðal annars Jóa P og Króla, Chase, YXY og fleiri tónlistarmenn. 

Tómas hefur starfað sem kvikmyndagerðamaður undanfarin þrjú ár en starfar nú hjá stafrænu auglýsingastofunni KIWI og lá því leiðin ekki beint inní lagasmíði og söng. Hann man þó eftir sér ungum að syngja mikið en hefur verið feimin við að syngja fyrir aðra. Tómas þakkar því Benna vini sínum sem er meðlimur í Séra Bjössi teyminu um hvernig hann tók sín fyrstu skref í að gefa út sitt fyrsta lag. „Það var ekki fyrr en félagi minn Benni, sem er í Séra Bjössa hópnum fékk mig til sín í studio að búa til beats þegar ég lét bara á það reyna að syngja fyrir framan hann. Það gekk bara eins og í sögu og við erum langt komnir með albúm eins og er.”

Verst að fara í bíó með Tourette

Þeir sem þekkja Tómas vita að hann er ófeiminn við að tala um sjúkdóminn sem hann hefur þjáðst af í 13 ár Tourette. Sjúkdómurinn er stór partur af lífi hans en Tómas kallar hann sinn versta óvin. 

„Verst er að fara í bíó með Tourette, því kippirnir og hljóðin eiga það til að koma fram og öðrum bíógestum er ekki skemmt, halda jafnvel að ég sé að vera með stæla. Ég fór til dæmis fyrir svona fjórum árum síðan i í bíó á frekar rólega mynd. Sat þarna á meðan spennan í myndinni var að byggjast upp hægt og rólega. Það var þá sem Tourette ákvað að láta vita af sér og ég fékk ákveðið Tourette kast. Það leið ekki á löngu þar til ung kona stóð upp fyrir framan mig og sagði í frekar hvössum tón „Ertu til í að halda kjafti?". En ég sá strax á andlitinu á stráknum sem hún var þarna með að hann þekkti Tourette, enda dró hann hana með sér út í hléinu. Svona hlutir hafa oft skeð og það er líka oft sem fólk heldur að ég sé að hlæja að einhverju sem kannski á ekki við.“

Tómas grunar að að Tourette einkennin sín eigi eftir að vera áberandi þegar hann fer að færa sig upp á svið að flytja tónilist sína fyrir framan áhorfendur enda verða einkennin meiri undir álagi og spennu. Hann segist þó ekki velta sér upp úr því eins og staðan er. 

„Tourette á ekki að vera eitthvað sem heldur aftur af manni, þó svo það geti oft látið frekar mikið fyrir sér fara. Þetta verður bara hluti af persónunni sem maður er og fólk venst því alveg að umgangast þetta. En eins og með þessa hugsun, að fara upp á svið og fá kæki þar, það er kannski ógnandi en alls enginn heimsendir.“

Lagið Sideways er fyrsta lag plötu sem Tómas er með í bígerð og ætlar sér að gefa út á næstu misserum. Aðspurður segir Tómas að hann hafi stax fílað lagið lagið og söngnum hafi verið náð í einni töku en textinn var þá enn óformaður og Tómas söng einfaldlega það sem kom til hans í upptökunni í takt við lagið.

Hefur gert fjölmörg tónlistarmyndbönd

Tómas hefur mikla ástríðu fyrir kvikmyndagerð og byrjaði boltinn að rúlla þegar hann tók upp lítið tónlistarmyndband fyrir vini sína, þá JóaPé og Króla fyrir lagið Spreða. Eftir það opnuðust margar dyr og fólk víðsvegar fór að biðja hann um myndbandsgerð af ýmsu tagi. Þá gerði hann einnig tónlistarmyndbandið við lagið „Ég vil það” með JóaPé og Chase. 

Tómas hóf nám við Kvikmyndaskóla Íslands aðeins 17 ára en varð þó fljótlega svo eftirsóttur í ýmis verkefni og lagði því námið á hilluna eftir aðeins eina önn en útilokar ekki frekara nám. Tómas hafði ekki mikið hugað að lagasmíði áður en hafði leikir sér við að búa til takta eða „beats”. Hann segist ekki fókusa mikið á textagerð en hún fæðist í lok ferlisins þegar takturinn er tilbúinn. Hann er þó spenntur yfir lagi sem kemur út seinna á árinu þar sem hann á heiðurinn af textagerð, það lag er unnið með Jóa P og finnst honum ekki ólíklegt að það verði sumarsmellur.