Þórdís Stella Þorsteins var á unglingsaldri þegar hún greindist með sykursýki. Hún segir reglulega hreyfingu halda blóðsykrinum í jafnvægi og hljóp maraþon í Berlín til styrktar rannsóknum á sjúkdómnum.

„Ég var þrettán ára þegar ég fékk sykursýki af týpu 1. Faðir minn og bróðir hans eru með sykursýki svo þessi sjúkdómur hefur alltaf verið nálægt mér. Samt kom það okkur fjölskyldunni á óvart að ég skyldi fá sykursýki,“ segir Þórdís Stella Þorsteins en hún er 27 ára stærðfræðingur, búsett í London.

Á þessum tíma þjáðist hún af óslökkvandi þorsta, sem er eitt algengasta einkenni sykursýki. „Ég var farin að skammta mér vatn en gat samt ekki svalað þorstanum. Ég var oft með melónutyggjó og var viss um að það væri ástæðan fyrir því að ég var alltaf þyrst en þegar ég fór með vinkonum mínum í sumarbústað í Skorradal og varð að stoppa þrisvar á leiðinni til að fara á salerni var ljóst að eitthvað óeðlilegt var á seyði. Ég hafði líka grennst mikið á stuttum tíma og var orðin grá og guggin,“ rifjar Þórdís upp og bætir við að dæmigerð einkenni fyrir sykursýki séu þorsti, þreyta, þyngdartap og kraftleysi.

„Foreldrar mínir mældu í mér blóðsykurinn og þá kom í ljós að hann var allt of hár, eða 25 mmol/l en eðlilegur blóðsykur er 4-7 mmol/l. Læknirinn minn taldi að ég hefði verið með sykursýki í þrjá mánuði áður en það uppgötvaðist,“ segir hún.

Þórdís segir að vissulega hafi sykursýkin breytt lífi sínu og hún þarf að gæta þess vel að halda blóðsykrinum í jafnvægi. „Ég þurfti að læra að lifa með sykursýki og þar sem ég er mikill grúskari kynnti ég mér sjúkdóminn vel strax sem unglingur. Foreldrar mínir fylgdust vissulega vel með mér en ég var dugleg að sjá um það sjálf að mæla blóðsykurinn nokkrum sinnum á dag og sprauta mig með insúlíni fyrir máltíðir. Ég veit um dæmi þar sem foreldrar vakna á nóttunni til að mæla blóðsykurinn í börnum sínum,“ segir Þórdís sem hefur nokkrum sinnum á ævinni farið of lágt niður í blóðsykri og upplifað svima og óþægindi af þeim völdum.

„Sú tilfinning er mjög furðuleg og alls ekki þægileg. Í eitt sinn var ég að tala við fólk en ég gat ekki svarað því. Það er eins og maður hafi ekki fulla stjórn á líkamanum. Ég fann að ég var að verða of lág í sykri og varð að fá djúsglas. Í annað sinn vaknaði ég mjög ringluð og illa áttuð. Mig hafði dreymt að ég væri kúreki og þegar ég vaknaði var ég viss um að ég væri kúreki. Það var eins og ég væri föst í því hlutverki en ég lagaðist við að fá djús sem hækkar strax blóðsykurinn,“ upplýsir Þórdís og segir að þetta hafi verið skondið eftir á en ekki meðan á þessu stóð.

Margt hefur áhrif á sykurinn í blóðinu. „Í hita brennir maður t.d. meira og þarf því minna insúlín en ella. Í kulda er líkaminn ekki jafnnæmur fyrir insúlíni. Streita hefur líka áhrif á blóðsykurinn, sem og hreyfing en það fer líka eftir því um hvernig hreyfingu er að ræða,“ upplýsir Þórdís,

Lagði dansskónum og tók fram hlaupaskóna

Þórdís hefur búið í London um nokkurt skeið. Hún lauk mastersnámi í stærðfræði og vinnur við sitt fag þar í borg. Hún stundar hlaup og hefur tekið þátt í tveimur maraþonum. 

„Ég var lengi vel í dansi og útskrifaðist frá Listdansskólanum þegar ég var tvítug. Ég ákvað að leggja dansskóna á hilluna og fara í nám í stærðfræði en var svo full af orku að ég fór að stunda hlaup. Í byrjun var ég í hlaupahópi heima á Íslandi en mamma ákvað með tveggja ára fyrirvara að taka þátt í New York-maraþoninu þegar hún yrði fimmtug og plataði mig, systur sína og frænda okkar til að koma með sér. Við stofnuðum því eigin hlaupahóp og hlupum saman maraþon í New York árið 2015. Það átti að vera eina maraþonið en þegar því lauk langaði okkur öll í annað maraþon,“ segir Þórdís og bætir við að það sé einstaklega gaman að hreyfa sig utandyra. „Á ferðalögum er frábært að fara út að hlaupa því maður kynnist umhverfinu á nýjan hátt.“

Ólíkt því sem margir halda þá hefur hreyfing góð áhrif á sykursýki, að sögn Þórdísar. 

„Margir telja að maður geti ekki stundað íþróttir ef maður er með sykursýki en það er eiginlega þveröfugt. Maður þarf bara að vera skynsamur eins og allir aðrir og taka sér tíma ef ætlunin er að bæta við æfingum því það tekur tíma að aðlaga insúlínskammtana að þeim. Yfirhöfuð hjálpar regluleg hreyfing til við að halda blóðsykrinum í jafnvægi. Ég hef alltaf hreyft mig mikið og hjólað, hlaupið og dansað því mér líður svo miklu betur þegar ég hreyfi mig reglulega. Einnig langar mig að setja gott fordæmi og sýna að sykursýkin þarf alls ekki að stoppa fólk. Fyrir 100 árum voru lífslíkur fólks sem greinist með sykursýki innan við tvö ár en vegna þeirrar framþróunar sem hefur orðið í læknavísindum og umönnun er ekkert því til fyrirstöðu að sykursjúkir geti hlaupið maraþon, ef skynsemin er höfð að leiðarljósi,“ segir hún.

Fylgist með nýjum rannsóknum

Þórdís fylgist vel með nýjum rannsóknum á sykursýki og þá sérstaklega starfi samtaka sem heita JDRF. 

„Ég hef mikla trú á þessum samtökum því þau styrkja rannsóknir sem skipta verulegu máli. Þau studdu t.d. rannsóknir á nýrri insúlíndælu sem er komin í gagnið og hefur reynst mörgum vel. Megnið af tekjum þeirra kemur í gegnum fólk sem hleypur eða hjólar til styrktar samtökunum. Mig langaði til að leggja þeim lið og skráði mig í Berlínarmaraþonið í september sl. Ég náði að safna hærri upphæð en ég stefndi að og þykir rosalega vænt um hversu mikinn stuðning ég fékk. Stefnan er að hlaupa maraþon annað hvert ár til styrktar JDRF. Þegar ég greindist með sykursýki hélt ég að það yrði búið að finna lækningu við henni áður en ég yrði þrítug. Núna eru þrjú ár í það. Á tímabili fannst mér lítið hafa gerst í þessum efnum en síðustu tvö árin hefur orðið mikil framför. Ein mesta framþróunin sem hefur orðið um árabil er flaga sem mælir blóðsykurinn á mínútu fresti. Flagan er límd við mann en það er nál í henni sem situr undir húðinni en það þarf að skipta um flögu á tveggja vikna fresti. Flagan sendir upplýsingar í dælu sem skammtar insúlín í samræmi við mælingarnar. Blóðsykurinn helst í góðu jafnvægi með þessari aðferð. Ég er mjög bjartsýn á að enn frekari framfarir verði á næstu árum,“ segir Þórdís glaðlega að lokum.

Nánar má lesa um samtökin JDRF Á www.jdrf.org.