„Við ákváðum að loka um leið og fyrsta samkomubannið var sett á því okkur fannst ekki við hæfi að hafa staðinn opinn á Hlemmi þar sem mikið af fólki kemur saman. Hvorki fyrir starfsfólkið okkar né fyrir gestina okkar,“ segir Gísli Matthías Auðunsson, eigandi veitingastaðarins vinsæla Skál! á Hlemmi.

Skál! hlaut hina virtu Michelin Bib Gourmand-viðurkenningu árið 2019, en hún stendur fyrir háklassa matreiðsla á sanngjörnu verði.

„Eftir að hafa legið undir feldi og metið breytta stöðu í samfélaginu fundum við leið til að halda áfram að veita fólki mat á þessum sérstöku tímum og með það í huga að vernda störf okkar frábæra starfsfólks. Við ætlum ekki að láta neina starfsmenn fara hjá okkur,“ segir Gísli.

Skál eldað heima!

Í samkomubanninu ætla Gísli og meistarakokkarnir á Skál að bjóða upp á Skál eldað heima!

„Hugmyndin með Skál eldað heima! eru máltíðir í anda Skál! sem eru tilbúnar til eldunar og samsetningar heima, og ættu ekki að taka meiri tíma en 10 til 15 mínútur. Til að byrja með verða þetta réttir sem við höfum verið með á Skál!, til dæmis okkar gríðarlega vinsæla bleikja og nauta skirt steik, en matseðillinn mun koma til með að breytast á milli vikna,“ upplýsir Gísli sem hefur sett upp tölvupóstlista fyrir fréttabréf og matseðla sem sendir verða út vikulega á meðan á samkomubanninu stendur.

„Aðal markmiðið er að halda uppi góðum gæðum en samt mæta þeim hertu kröfum sem orðið hafa gagnvart veitinga- og þjónustustörfum í samkomubanninu,“ segir Gísli.

Pakkarnir verða í tveimur stærðum og í boði alla daga vikunnar; fyrir tvo fullorðna og svo tvo fullorðna og tvö börn, og er allt hráefni innifalið.

„Ef fólk er í fíling verður auðvitað hægt að fá sér gómsæta eftirrétti og kalda rétti og þá ekkert annað að gera nema byrja að borða. Við hlökkum innilega til að bjóða öllum matinn á Skál! á ný og með bros á vör!“ segir Gísli kátur og fullur bjartsýni á betri tíð.

„Að hluta til fannst okkur þetta skemmtileg hugmynd þar sem margir hafa kannski meiri tíma á höndum sér nú og þætti gaman að elda einfaldar máltíðir heima. Í raun að fá svona hálftilbúnar máltíðir frá okkur og leggja svo sitt loka „touch“ á réttinn og í leiðinni að fara út að borða á Skál! en heima hjá sér!“.

Kíktu á Skál!