Sárin gróa aldrei þótt Konráð Ragnarsson hafi nýtt erfiða lífsreynslu til góðs.

„Mér þykir mjög vænt um þetta, því að hér fannst mér ég aldrei velkominn,“ segir hannsem heldur sína fyrstu ljósmyndasýningu í heimabæ sínum, Hafnarfirði. Boð um að halda sýninguna kom honum þægilega á óvart og einnig sá velvilji sem bæjaryfirvöld sýndu honum. Konráð fékk styrk frá bænum. Sýningin verður opnuð í Bæjarbíói þann 30. maí næstkomandi og myndir Konráðs munu prýða búðarglugga í Strandgötunni. „Ég er mjög þakklátur, þetta er góður áfangi.“

Gerir grimmt grín

Konráð hittir blaðamann á Súfistanum við Strandgötu. Hann gengur fimlega um. Hann er nýkominn úr heimsókn í fyrirtækið Össur sem smíðar á hann nýjan gervifót. Hann er fremur hraustlegur á að líta. Hann býr í Svíþjóð þar sem hefur notið sólar í sumarbyrjun ólíkt því veðurfari sem hefur ríkt á Íslandi síðustu vikur.

Hann er þekktur háðfugl og sýnir blaðamanni myndskeið af sér í karateæfingum sem byrja glæstar og yfirvegaðar en enda á því að gervifóturinn flýgur af honum. „Það er nú ekki annað hægt en að gera bara grimmt grín að þessu öllu saman,“ segir hann.


Myndefni Konráðs er margvíslegt. „Ég held að það sé mikill húmor í mínum myndum, þær eru líka dökkar. Inni á milli eru fallegar landslagsmyndir. Ég hef notað myndavélina mikið til að tjá tilfinningar mínar frá degi til dags. Og er alveg óhræddur við það. Myndirnar geta verið mjög persónulegar,“ segir Konráð og telur að það hafi reynst honum nauðsynlegt að nýta sköpunarkraftinn til að glíma við sársauka sem hann hefur búið við nærri alla sína ævi.

„Ég leik mér með myndefnið. Mörgum myndanna breyti ég í myndvinnslu, ég er rosalega mikið fyrir liti og ýki þá gjarnan,“ segir hann frá.

Eru myndirnar tæki til sjálfstjáningar?

„Já, mér finnst það. Ég var gríðarlega heftur eftir vistina á Breiðavík og það var erfitt að koma heim,“ segir Konráð.


Sendur á Breiðavík fyrir hnupl

Hann er alinn upp í fátækt en á reglusömu heimili. Faðir Konráðs, Ragnar Konráðsson heitinn, var togarasjómaður og mikið í burtu. Móðir hans, Ása Hjálmarsdóttir, skildi við hann og sá eftir það ein um heimilið og vann mikið. Konráð var eitt sex systkina. Tvö þeirra eru fallin frá.

Árið 1968, þegar Konráð var um tíu ára gamall, var hann staðinn að hnupli. Barnaverndarvernd Hafnarfjarðar tók þá afdrifaríku ákvörðun að senda hann á Breiðavík. Þar beið hans helvíti. Hann var beittur andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.

Einu og hálfu ári síðar fékk hann að fara aftur heim. Og var þá niðurbrotinn og skemmdur á sálinni.

„Þegar ég kom aftur þá var ég bara stimplaður. Ég naut engrar virðingar og sjálfsvirðing mín var engin. Skólagangan ónýt. Það var ekkert unnið úr þessu. Maður átti ekki að tjá tilfinningar sínar og kunni það heldur ekki. Þetta er svo allt öðruvísi í dag, sem betur fer,“ segir Konráð.

Hann þáði sálræna aðstoð sem yfirvöld buðu fyrir nokkrum árum. Þrátt fyrir það fann hann ekki almennilegan frið. „Þegar ég fór að taka myndir færðist yfir mig meiri friður en áður. Ég geng um skógana í Svíþjóð og tek myndir. Fer þar um á gervifætinum, ekkert mál,“ segir hann og brosir.


Brotinn til baka

Kvikmyndaáhuginn kviknaði í æsku. „Ég og mínir bræður áttum 8 mm súper filmuvél og vorum alltaf að búa til bíó. Brotin sem við tókum upp voru seinna notuð í heimildarmyndina Syndir feðranna. Hefði ég ekki farið á Breiðavík þá hefðu listrænir hæfileikar mínir og sköpunarþörf notið sín fyrr. Ég var glaðlynt barn og alltaf að skemmta öðrum. Ég var oft stokkinn upp á svið þegar færi gafst. Óhræddur og glaður. En svo var ég bara brotinn niður á Breiðavík. Ég kom rétt áður en ég varð tólf ára gamall.“

Unglingsárin einkenndust af heift þótt hann hefði ekki alveg tapað lífsgleðinni. „Ég eyddi þessum árum í skemmtanir og slagsmál. Kannski var ég að deyfa mig, ég veit það ekki. En ég hélt að minnsta kosti þá að ég væri að skemmta mér. Ég var í rosalegum helgarfylliríum. Eitt endaði nú uppi á þaki á pósthúsinu. Þangað þurfti að sækja mig og félaga mína. Við slógumst uppi á þaki við lögregluna og það þurfti að handjárna okkur og kalla til slökkviliðið til aðstoðar,“ segir hann og brosir út í annað og horfir út um gluggann að húsinu sjálfu. „Mér fannst ég aldrei eiga neina virðingu í Hafnarfirði. Hér var mikil stéttaskipting. Fólk sem átti eitthvað var eitthvað, hinir þurftu að slást fyrir tilveru sinni. Ég fór bara í þann pakka.

En svo kynntist ég konu um þrítugt og róaðist aðeins. Við giftum okkur, fluttum til Svíþjóðar og eignuðumst börn. Annað líf tók við,“ segir Konráð en þar hafði hann auðvitað engan stimpil á sér, segir hann.


Aldrei hræddur

Konráð segist stundum hugsa um það hvernig líf hans hefði orðið ef hann hefði ekki verið sendur á Breiðavík. „Ég er ekki bitur en ég segi sjálfum mér satt. Ég hugsa oft um það hvernig líf mitt hefði orðið ef ég hefði fengið að njóta mín. Þessi ár koma ekki aftur, ég er hins vegar mjög meðvitaður um að lífið er núna. Ég læt engan ræna mig draumum mínum og hef aldrei verið hræddur við að hoppa í djúpu laugina.“

Konráð er rafvirkjameistari að mennt. Síðustu ár hefur hann hins vegar leikið aukahlutverk í kvikmyndum. Hann hefur tekið þátt í nærri 60 verkefnum. Hann lék til dæmis á móti Hollywood-leikaranum Russell Crowe í tónlistarmyndbandi við lagið Testify sem Crowe samdi með félaga sínum Alan Doyle. Í myndbandinu lék hann lögregluböðul. Hann var einnig nálægt því að hreppa hlutverk í mynd Bens Stiller The Secret Life of Walter Mitty, lék í Game of Thrones og fleiri verkefnum.


Slysaskotið

„Ég hef fengið hvert hlutverkið á fætur öðru. Ég vann tvisvar fyrir Russ­ell Crowe og líkaði samstarfið vel. Ég tók þátt í 60 verkefnum á árunum 2011 til 2014, þar til fóturinn var tekinn af 22. september það sama ár.“

Konráð varð fyrir slysaskoti á rjúpnaveiðum árið 1979. „Ég varð fyrir voðaskoti. Fékk haglabyssuskot í fótinn. Djöfull var þetta sárt. Það vantaði svo mikið á löppina, ég skaut tvær af þremur æðum í tætlur. Við þetta upphófust aðgerðir sem áttu eftir að fylgja mér alla ævi. Í fyrstu var sett þunn húð á löppina, tekið skinn af lærinu á mér og lokað.

Blóðrennslið var aldrei gott. Síðan byrjaði ég að fá sár. Það þurfti ekki annað en að ég væri í ullarsokkum, húðin bara rifnaði.

Þá var tekið til þess ráðs að taka kjötstykki úr hinni löppinni og færa það yfir á þessa. Fæturnir voru festir saman í þrjár vikur til að freista þess að fóturinn tæki við. Síðan var skorið á milli.

Það þótti nokkuð merkilegt að þetta skyldi takast. Sáramyndunin stöðvaðist um tíma. Síðan líða 10 til 15 ár sem eru nokkuð góð. Þá byrja ég allt í einu að fá sár aftur. Vandinn versnaði enn frekar eftir að ég fékk alvarlega sýkingu. Ég var með mjög ljót, blæðandi sár á fætinum í um tíu ár og lifði á sterkum verkjalyfjum sem gerðu mér kleift að vinna og taka að mér verkefni. Ég lét aldrei vita af þessu. Þá hefði ég ekki fengið að vera með í þessu ævintýri. Ég batt bara um sárin og þagði,“ segir Konráð og segir að stundum hafi leikstjórar tekið eftir þessu og þá hafi hann reddað sér fyrir horn með því að segjast hafa tognað deginum áður.


Lífið er slagur

„Líf mitt hefur einkennst af sársauka. Ég hef verið í sársauka síðan ég man eftir mér. En ég hugsa að ég hafi komist í gegnum þetta allt saman á mínu eigin viljaþreki. Líf mitt hefði getað farið verr. Síðustu þrjú ár hef ég barist við ótrúlega hluti, krabbamein, vefjagigt, ég missti fótinn og allar tennurnar, vegna sýkingar sem ég fékk. Ég er sko með títantennur. Lífið er bara slagur. Þess virði að vinna.

Ég var á morfíni, til að geta unnið og lifað, leikið og skemmt mér. Þegar verkirnir fóru að versna, þá byrjaði þetta á magnyl og endaði á morfíni. Þetta var orðið það slæmt síðustu 10 árin að ég held ég hafi verið kominn á 600 grömm af morf­íni á dag,“ segir Konráð sem tók þá ákvörðun að hætta á öllum verkjalyfjum eftir að fóturinn var tekinn af honum.

„Ekki nóg með það að ég var að læra að ganga upp á nýtt og borða upp á nýtt, heldur var ég í hreinasta helvíti í fráhvörfum í heilt ár. Martraðirnar voru skelfilegar, sviti og ólýsanlegir verkir. Það var stundum eins og það væri verið að stinga mig eða gefa mér raflost. Þetta gerði ég einn í herberginu mínu heima og var verst á kvöldin. Ég ætla ekki að lýsa því, það er ekki hægt. Þeir í Svíþjóð skildu þetta ekki. Það hafði enginn gert þetta áður. Þetta á ekki að vera hægt. Þetta er lífshættulegt. Ég hafði allar töflurnar við hliðina á mér, allan tímann. Það kom aldrei neitt augnablik að mig langaði til að taka töflurnar.

Mitt lífsferli hefur verið erfitt og með tíð og tíma öðlast ég þennan gríðarlega vilja og seiglu. Kannski missa sumir krafta sína á meðan aðrir eflast. Það eru margar kenningar um þetta. Núna er ég staðráðinn í því að halda áfram að koma mér í vesen og ævintýri og Strandgatan hér er næst.“

Þeim sem vilja aðstoða Konráð og veita honum brautargengi er bent á söfnun sem hann stendur fyrir á Karolina Fund og tengist sýningunni sem er fram undan.