„Ég trúði þessu ekki og það var töluvert áfall að finna húð við húð þegar ég þreifaði á skýlunni.“ Þetta segir Tómas Guðbjartsson í samtali við Fréttablaðið. Hann var lengi þekktur sem lækna-Tómas sem hnoðaði hjarta sjúklings með berum höndum en hefur á síðustu mánuðum oftar ratað í fjölmiðla fyrir baráttu sína fyrir hönd íslenskrar náttúru.

Fyrr í vikunni, miðvikudag eða fimmtudag, lenti Tómas í afar pínulegu atviki í sundlaug Vesturbæjar. Tómas nýtir sér reglulega laugar landsins og syndir þá tvo kílómetra til heilsubótar. Hann var við það að stinga sér til sunds þegar annar gestur laugarinnar, ferðamaður hljóp á eftir honum til að sinna borgaralegri skyldu sinni. Tómas segir:

„Ég hélt að hér væri kominn virkjunarsinni sem vildi mig feigan. En ástæðan var sú að þjóhnappar mínir voru til sýnis í gegnum risa saumsprettu á Arena sundbuxunum. Ég trúði þessu ekki þar til ég þreifaði á mínum kæru gluteus maximus og fann að húð mætti húð,“ segir Tómas og bætir við:

„Mér til frekari hryllings rakst ég á líffæri sem eiga að vera framar á líkamanum.“

Tómas þakkaði ferðamanninum fyrir og kveðst hafa bakkað inn í sturtuklefann með lófana fyrir aftan bak til að hylja rasskinnarnar. Tómas segir:

„Ég þakkaði kærlega fyrir og bakkaði inn í sturtuklefann með lófana fyrir aftan bak. Ákvað að þakka meðborgara mínum á ensku - enda minna trauma að þykjast vera útlendingur við svona pínlegar aðstæður, sem ullu mikilli kátínu í sturtunni.“

Tómas leigði sér síðan sundskýlu og synti sína tvo kílómetra. Hann segir þakklátur fyrir eftirfarandi:

„Að það var myrkur. Að ég fór ekki fyrst í pottinn. Að það voru aðallega útlendingar í sundi. Að borgarar þessa lands virði skyldur sínar.“

Í samtali við Fréttablaðið segir Tómas að ekki hafi gefist tími til að kaupa nýja sundskýlu. Það stendur þó til að bæta úr því.

„Ég hef ekki haft tíma til að kaupa nýja sundskýlu og á aðra sem er eldri, þynnri og snjáðari en sú sem rifnaði. Ég er því í meiri hættu en áður að endurupplifa þetta pínlega atvik,“ segir Tómas sem ætlar í verslunarferð eftir helgi og festa kaup á nýrri sundskýlu.