Lady Gaga virðist skemmta sér konunglega þessa dagana við að troða óvænt upp víðs vegar um Bandaríkin. Stutt er síðan hún vann Óskarsverðlaun fyrir besta frumsamda lagið í kvikmynd, en hún kom óvænt fram á djassklúbbi í Los Angeles í gær.

Gaga tók nokkur Frank Sinatra lög á Black Rabbit Rose klúbbnum í Los Angeles og vakti mikla ánægju gesta.

Þá tók Gaga og mótleikari hennar í kvikmyndinni A Star is Born, Bradley Cooper, óvænt lagið á tónleikum Lady Gaga í Las Vegas í janúar. Tvíeykið tók lagið Shallow og tónleikagestir gjörsamleg ærðust af kátínu.

Þrálátur orðrómur um meint ástarsambands Cooper og Lady Gaga hefur svifið yfir vötnum í Hollywood, en þau þykja nokkuð náin. Cooper er í sambandi með fyrirsætunni Irina Shayk og á með henni dóttur. Gaga er hins vegar nýlega orðin einhleyp eftir samvistaslit með heitmanni sínum fyrrverandi Christian Carino.

Eins komst á stað orðrómur um að Gaga væri ólétt, sem hún neitaði með nokkuð afgerandi hætti á Twitter-síðu sinni í vikunni. „Ólétt? Já, ég er ólétt af [nýrri plötu],“ sagði Gaga á Twitter.