Söngkonan Lady Gaga segir að tónlistariðnaður nútímans sé konum gífurlega erfiður og kemur rapparanum Cardi B jafnframt til varnar í nýrri færslu á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem hún tjáir sig um þann „skít“ sem segist hafa fengið síðustu daga eftir sigur sinn á Grammy verðlaunahátíðinni á sunnudag.

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá hélt Cardi B sannkallaða eldræðu á samfélagsmiðlinum Instagram, áður en hún hætti alfarið á honum, þar sem hún sagðist gífurlega ósátt við það sem talið er hafa verið netníð í hennar garð eftir að í ljós kom að hún vann til Grammy verðlaunanna fyrir bestu rappplötuna.

Sjá einnig: Cardi B hættir í bræði á Instagram

„Ég er dauðþreytt á þessu kjaftæði, ég vann ógeðslega hart að mér fyrir þessa helvítis plötu,“ segir rapparinn en hún fór ítarlega í það hversu erfitt það var fyrir sig að framleiða plötuna en rapparinn var ólétt á meðan framleiðsluferlinu stóð. Lady Gaga situr ekki á skoðunum sínum um málið.

„Það er svo erfitt að vera kona í þessum iðnaði. Það sem það tekur, hversu mikið við vinnum í gegnum vanvirðinguna, bara til þess að skapa list. Ég elska þig Cardi. Þú átt skilið verðlaunin þín. Fögnum baráttunni hennar. Lyftum henni upp og heiðrum hana. Hún er hugrökk.“