Þjóðargersemin Þórhallur Sigurðsson, betur þekktur sem Laddi, hefur slegið í gegn í myndlistarheiminum og heldur hann sína þriðju sýningu næstkomandi föstudag. Laddi segir að hann hafi alltaf langað að vera listmálari en hann hafði aldrei neinn tíma til að sinna áhugamálinu. Nú þegar hann er kominn á elliárin, þá málar hann næstum því alla daga.

„Ég er með málverkasýningu í Smiðjunni listhúsi. Þetta er mín þriðja sýning þar og ég er að selja málverk á striga og teikningar á pappír,“ segir Laddi.

Spurður hvort listin hafi tekið yfir lífi hans segir hann svo vera.

Eitt af súrrealísku verkum Ladda sem verður til sýningar á föstudaginn næstkomandi.
Mynd/aðsend

„Bara gjörsamlega. Þetta stóð nú alltaf til alveg frá því að ég var unglingur, það var bara aldrei neinn tími til þess að fara að mála. Ég lenti í öðru, hljómsveit og svo í skemmtibransanum og öllu þessu, þá varð þetta bara að bíða til elliáranna. Nú er komið að þeim og það verður ekki aftur snúið,“ segir Laddi, sem málar alla daga eins og vitleysingur að eigin sögn.

Á málverkum Ladda má sjá alls kyns fígúrur, hálfgerða menn og álfa, sem eru hans hugarfóstur. „Þetta eru alls konar súrrealískar myndir sem ég er að mála,“ segir hann.

Laddi segir að viðtökurnar við myndum hans hafi verið góðar.

„Á þessum tveimur sýningum sem ég hef haldið þá seldist allt upp. Þannig það hefur gengið ágætlega,“ segir Laddi.

Sýning Ladda verður opnuð föstudaginn 18. nóvember í Smiðjunni listhúsi klukkan 18.