Flugfreyjan og förðunarfræðingurinn Elísa Gróa Steinþórsdóttir var kjörin Miss Universe Iceland í haust. Hún á safn kjóla sem hún notaði í keppninni hér heima og í Ísrael.

Elísa Gróa er 27 ára gömul og starfar sem flugfreyja hjá Play Air. Hún hefur einnig starfað sem förðunarfræðingur og sem danskennari og danshöfundur, en hún hefur æft dans frá barnsaldri. Í haust rættist langþráður draumur hjá Elísu, þegar hún keppti í Miss Universe Iceland. Hún vann keppnina og fór í kjölfarið af því til Ísrael og keppti í Miss Universe.

„Þetta var langþráður draumur sem rættist loksins 2021, en ég hef verið að keppa í svona keppnum síðastliðin sex ár,“ segir Elísa Gróa, aðspurð hvers vegna hún ákvað að taka þátt í keppninni hér heima. Hún segir að keppnin í Ísrael hafi verið mögnuð upplifun og gaman að geta skoðað landið í leiðinni.

„Þetta var rosaleg vinna og mikil dagskrá, en ég reyndi að njóta alltaf augnabliksins. Það var æðislegt að vera fulltrúi Íslands í stærstu svona keppni í heiminum,“ segir Elísa Gróa.

Fyrir svona keppnir þarf að eiga marga kjóla og Elísa Gróa á safn af síðkjólum sem hún hefur keypt sér í gegnum árin.

„Ég bætti nýjum við í safnið þegar ég keppti í september hérna heima og stuttu eftir að ég vann fór ég til Bandaríkjanna, meðal annars til að velja mér kjóla og fatnað fyrir Miss Universe. Ég á svo yndislega styrktaraðila í mismunandi fylkjum sem leyfðu mér að velja allt sem ég þurfti til að nota úti í Ísrael,“ segir hún.

„Uppáhaldssíðkjóllinn held ég pottþétt að sé sá sem ég valdi fyrir sviðið, en það er silfurlitaður Fernando Wong kjóll með löngum slóða. Mig dreymdi alltaf um að keppa á risastóru sviði í kjól með skikkju eða slóða.“

Elskar glitrandi efni og steina

Elísa Gróa segist hafa mikinn áhuga á tísku en hún fylgi tískustraumum samt takmarkað.

„Minn stíll helst yfirleitt frekar óbreyttur en ég laðast að flestu sem er glitrandi og litríkt. Bleikur hefur alltaf verið uppáhaldsliturinn. Ég elska fallega kjóla, enda á ég safn heima hjá mér, og nánast hver einasti er úr glitrandi efni eða með steinum,“ segir hún.

Aðspurð að því hvort hún eigi sér uppáhaldshönnuð segist hún eiga nokkra. „Ég og get eiginlega ekki gert upp á milli Fernando Wong, Sherri Hill og Alyce Paris,“ segir hún.

Síðkjóll eftir Fernando Wong með löngum slóða er uppáhaldssíðkjóll Elísu Gróu.

Þrátt fyrir að Elísa Gróa elski glitrandi síðkjóla eru það skiljanlega ekki fötin sem hún gengur í alla daga.

„Hversdags er ég yfirleitt í flugfreyjubúningnum, ræktarfötum eða bleikum jogginggalla, en þegar ég klæði mig upp á þá er það alltaf „full glam“: kjólar, glimmer og litir. Lífið er of stutt til að þora ekki að klæða sig nákvæmlega eins og þú vilt.“

Hversdags er Elísa oftast í jogginggalla. Eða í vinnufötunum, flugfreyjubúningi.

Bleikur samfestingur í uppáhaldi

Uppáhaldsflík Elsu, fyrir utan alla síðkjólana, er bleikur samfestingur sem var hannaður og sérsaumaður á hana fyrir dómaraviðtalið í Miss Universe keppninni.

„Ég fékk að velja nákvæmlega hvernig ég vildi hafa flíkina, og þetta kom út eins Elísu-legt og hægt er. Skærbleikur, útvíður samfestingur með einni ermi og á ermina voru settir margir mismunandi glitrandi steinar.“

Fyrir utan síðkjólana er þessi bleiki samfestingur uppáhaldsflík Elísu Gróu en hann er sérsaumaður á hana.