Námskeið eru frábær leið til þess að rækta nýja hliðar sjálfsins og kanna hvar hæfileikar manns liggja. Til er urmull af frábærum og spennandi námskeiðum í boði hjá hinum ýmsu endurmenntunarstofnunum, skólum og einkaaðilum. Og stundum þarf bara eitt lítið skref til þess að koma manni af stað til að skrá sig.

Þá kemur veraldarvefurinn til hjálpar. Internetið er stútfullt af stórsniðugu kennsluefni og leiðbeiningum um allt á milli himins og jarðar. Fólk lærir að prjóna, aðrir fara í útsaum eða læra að gera rýjateppi. Enn aðrir læra undirstöðuatriðin í myndvinnsluforriti eða kynna sér undirstöðuatriðin í nuddi og svo mætti lengi telja.

En ekki er allt kennsluefni jafn vel unnið, og það er meira en að segja það að finna efni sem bæði kennir manni það sem maður þarf að vita og langar að læra á skiljanlegan máta. Hér eru þrjú dæmi um frítt kennsluefni á netinu sem kemur manni vel af stað og kveikir heldur betur áhugann.

Fínasti myndvinnslugrunnur

Hefurðu einhvern tíma tekið ótrúlega flotta ljósmynd á myndavélina eða símann en svo kom í ljós um seinan að skugginn af fuglinum á myndinni minnir á eitthvað dónalegt? Eða að birtan gerði það að verkum að andlit fólksins á myndinni urðu appelsínugul? Eða að himinninn á landslagsmyndinni verður alveg hvítur ef þú lýsir myndina til að fjöllin líti vel út? Eða langar þig kannski bara til þess að „fótósjoppa“ vængi á labradorhvolpinn þinn?

Myndvinnsluforrit eru til margs nýtileg.
Getty Images

Fjölda kennslumyndbanda er að finna á veraldarvefnum sem kenna þér að laga þessi atriði og fleiri með töfrum myndvinnsluforrita. PiXimperfect rásin á YouTube er dæmi um frítt kennsluefni fyrir þá sem vilja byrja að læra á Photoshop eða Lightroom. Unmesh Dinda, sá sem kennir, hefur afar heillandi og þægilega nærveru og kennir manni skref fyrir skref á einfaldan en skiljanlegan hátt hvernig hægt er að nýta sér töfra myndvinnsluforrita til þess að gera ljósmyndirnar enn betri.

Jógaengillinn hún Adriene

Langar þig að prófa jóga en ert smeyk/ur um að líkamsgasið losni úr læðingi í vel teygðri hundastellingu?

Það er vel hægt að gera jógaæfingar heima fyrir til þess að koma sér í smá form og auka teygjanleikann, áður en maður mætir með jógadýnuna í upphitaðan salinn með öllu þessu lipra og einkennisklædda jógafólki sem virðist kunna öll jógahugtökin upp á hundrað. Yoga with Adriene er stórskemmtileg YouTube-rás þar sem hin glettna og tilgerðarlausa Adriene kennir þér undirstöðuatriðin í jóga á bæði skemmtilegan og krefjandi máta.

DIY drottningar

Klæjar þig í puttana að breyta og bæta í íbúðinni? Langar þig til þess að gera auðveldar en áhrifamiklar breytingar á gamla útskriftarkjólnum hennar mömmu? Kanadísku vinkonurnar Kelsey og Becky kalla sig The Sorry Girls á YouTube. Þar skoða þær það sem er vinsælt hverju sinni í tískunni, á heimilinu og í húsgögnum og gera tilraunir til þess að búa til eða breyta hlutum sem þær eiga eða finna á flóamörkuðum og í ódýrari verslunum, á hagkvæman og einfaldan hátt.