Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson verður stigakynnir fyrir Íslands hönd næsta laugardag þegar aðalkeppni Eurovision fer fram í Tel Avív. Jóhannes mun þannig kynna fyrir Evrópubúum niðurstöður atkvæðagreiðslu Íslendinga. Jóhannes segist mjög spenntur að fá að taka þátt í Eurovision í ár með þessum hætti og segir að hann hafi aldrei verið jafn jákvæður gagnvart íslenska framlaginu.
Hvernig líst þér á að vera stigakynnir á laugardaginn?
„Mér líst vel á það. Maður hefur fylgst með þessu í gegnum tíðina. Aldrei datt mér þó í hug að ég yrði einn af þessu fólki en svona er nú lífið fullt af óvæntum uppákomum,“ segir Jóhannes Haukur í samtali við Fréttablaðið í dag.
Ætlarðu að kynna einhver nýmæli eða fara hefðbundnar leiðir við að kynna stigin?
„Ég er að hugsa um að fara hefðbundnar leiðir. Aðallega vegna þess að ég hef verið svo reiður þegar stigakynnar bregða út af laginu. Á þessum tímapunkti er maður svo spenntur að heyra stigin og þetta tekur svo langan tíma. Þannig ég held að hratt og örugglega sé lykilatriði á þessum tímapunkti. Ég mun hafa það hugfast.“
Ekki búinn að ákveða í hverju hann ætlar að vera
Spurður hvort hann sé búinn að ákveða í hverju hann ætli að vera segir Jóhannes að hann hafi lítið hugsað út í það en hafi verið bent á af vinum að það væri ef til vill viðeigandi að fylgja þema íslensku keppendanna.
„Í sjálfu sér myndi það ekki tefja að vera í þematengdum fötum. Ég hef fram á laugardaginn til að ákveða það,“ segir Jóhannes.
En hvernig líst þér á íslenska framlagið í ár?
„Mér finnst það frábært. Ég er rosalega ánægður með þetta lag og hef aldrei verið svona jákvæður eða viss um að við séum að fara að sigra. Ég held að við eigum alvöru sjéns núna,“ segir Jóhannes að lokum.
Jóhannes Haukur ætti að vera mörgum þekktur en hann hefur leikið í mörgum þekktum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Bæði íslenskum og erlendum, en þar má helst nefna Game of Thrones. Hann er þó einnig þekktur fyrir leik sinn í myndunum Ég man þig, Svartur á leik auk þess sem hann hefur leikið í fjölmörgum áramótaskaupum