Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannes­son verður stiga­kynnir fyrir Ís­lands hönd næsta laugar­dag þegar aðal­keppni Euro­vision fer fram í Tel Avív. Jóhannes mun þannig kynna fyrir Evrópu­búum niður­stöður at­kvæða­greiðslu Ís­lendinga. Jóhannes segist mjög spenntur að fá að taka þátt í Euro­vision í ár með þessum hætti og segir að hann hafi aldrei verið jafn já­kvæður gagn­vart ís­lenska fram­laginu.

Hvernig líst þér á að vera stiga­kynnir á laugar­daginn?

„Mér líst vel á það. Maður hefur fylgst með þessu í gegnum tíðina. Aldrei datt mér þó í hug að ég yrði einn af þessu fólki en svona er nú lífið fullt af ó­væntum upp­á­komum,“ segir Jóhannes Haukur í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.

Ætlarðu að kynna ein­hver ný­mæli eða fara hefð­bundnar leiðir við að kynna stigin?

„Ég er að hugsa um að fara hefð­bundnar leiðir. Aðal­lega vegna þess að ég hef verið svo reiður þegar stiga­kynnar bregða út af laginu. Á þessum tíma­punkti er maður svo spenntur að heyra stigin og þetta tekur svo langan tíma. Þannig ég held að hratt og örugg­lega sé lykil­at­riði á þessum tíma­punkti. Ég mun hafa það hug­fast.“

Ekki búinn að ákveða í hverju hann ætlar að vera

Spurður hvort hann sé búinn að á­kveða í hverju hann ætli að vera segir Jóhannes að hann hafi lítið hugsað út í það en hafi verið bent á af vinum að það væri ef til vill við­eig­andi að fylgja þema ís­lensku kepp­endanna.

„Í sjálfu sér myndi það ekki tefja að vera í þema­tengdum fötum. Ég hef fram á laugar­daginn til að á­kveða það,“ segir Jóhannes.

En hvernig líst þér á ís­lenska fram­lagið í ár?

„Mér finnst það frá­bært. Ég er rosa­lega á­nægður með þetta lag og hef aldrei verið svona já­kvæður eða viss um að við séum að fara að sigra. Ég held að við eigum al­vöru sjéns núna,“ segir Jóhannes að lokum.

Jóhannes Haukur ætti að vera mörgum þekktur en hann hefur leikið í mörgum þekktum kvik­myndum og sjón­varps­þáttum. Bæði ís­lenskum og er­lendum, en þar má helst nefna Game of Thrones. Hann er þó einnig þekktur fyrir leik sinn í myndunum Ég man þig, Svartur á leik auk þess sem hann hefur leikið í fjöl­mörgum ára­móta­skaupum