Þar er að finna meira en 90 verk eftir fjölbreyttan hóp listamanna; allt frá ungum og efnilegum myndlistarmönnum upp í vel þekkt nöfn sem haldið hafa einkasýningar víða um heim. Sýning á hluta verkanna var opnuð á veitingastaðnum Sjálandi í vikunni þar sem boðið var upp á léttar veitingar og kólumbíska smárétti frá Mijita, fyrstu kólumbísku matvælaframleiðslunni á Íslandi, auk þess sem hljómsveitin Dimention AfroLatino lék seiðandi tónlist fyrir sýningargesti.

Þau Natalia og Jimmy eru sem fyrr segir bæði frá Kólumbíu; hann kom hingað til lands sem flóttamaður fyrir 16 árum og starfar í dag við kvikmyndagerð en Natalia hefur haft hér annan fótinn undanfarin fimm ár og er nýlega alflutt til landsins. Það var sameiginlegur áhugi þeirra á myndlist og vilji til að byggja brú milli menningarheima sem varð til þess að þau ákváðu að stofna SMaRT gallerí. Nánasta fjölskylda Jimmys hefur verið virk í myndlistarsenu Suður-Ameríku um áratuga skeið og það hefur veitt parinu innblástur og fyllt þau eldmóði að koma myndlist álfunnar á framfæri víðar.

„Íslendingar hafa svo mikinn áhuga á myndlist en það er kannski ekki mikil þekking eða vitneskja hérlendis um þá gríðarlega grósku sem er til staðar í myndlist frá Suður-Ameríku,“ segir Natalia. „Margir hafa þá ímynd af Kólumbíu til dæmis að það sé mjög hættulegt land þar sem eiturlyfjabarónar ráði öllu og gera sér ekki grein fyrir að landið á sér mjög ríka menningarhefð og sterka myndlistarsenu. Þessi heimsálfa hefur til dæmis alið af sér stórkostlega listamenn eins og Fridu Kahlo, Diego Rivera og Fernando Botero.“

Það er hægt að kaupa allt frá prentverkum á viðráðanlegu verði yfir í gríðarstór og mikilfengleg málverk á Smart Gallerí, en þau segja að það sé ekki aðalmálið – heldur að kynna suður-amerískt samfélag, landslag og menningu fyrir Íslendingum, þannig að þeir geri sér grein fyrir samhengi verkanna og jarðveginum sem þau eru sprottin úr.

Sem stendur er galleríið á netinu en þau Jimmy og Natalia hafa á stefnuskránni að halda fleiri sýningar á völdum verkum í framtíðinni og markmiðið er að á endanum eignist galleríið sitt eigið húsnæði. „Við stefnum svo líka að því að koma upp listasmiðjum milli íslenskra og suður-amerískra myndlistarmanna, þar sem íslenskir myndlistarmenn heimsæki til dæmis kólumbíska kollega sína, geti skoðað vinnustofurnar þeirra, lært aðferðir og hugmyndafræði, og svo öfugt,“ segir Jimmy að lokum.

Hér að neðan gef­ur að líta svip­mynd­ir frá opnuninni.

Smart gallerí

Smart gallerí

Smart gallerí

Smart gallerí