Tískuhönnuðurinn Christian Louboutin ætlar að beita óhefðbundinni aðferð við að kynna vor- og sumarlínu sína á tískuvikunni í París. Línan verður kynnt í stafrænum heimi í snjallsímaforritinu Zepeto. Þar verður hægt að spígspora um í nýju skónum hans á frægum stöðum í París og eiga samskipti við aðra notendur sem eru að gera það sama. Fjallað var um kynninguna á vefnum Footwearnews.

Louboutin ætlar að nota forritið til að kynna vor- og sumarlínu fyrir næsta ár, fyrir bæði karla og konur. Fjölmiðlafólk og útvaldir gestir fá að skoða Loubi World á morgun. Það er stafræn veröld þar sem notendur geta fengið sér ís eða pönnuköku, farið á tónleika með söngkonunni King Princess, átt samskipti við aðra notendur og prófað skóna í nýju línunni.

Stafrænar útgáfur af Christian Louboutin, King Princess og Quincy Brown. MYND/CHRISTIANLOUBOUTIN

Nær til yngri kynslóðarinnar

Þetta er harla óvenjuleg leið til að markaðssetja nýja línu, sérstaklega fyrir lúxusmerki eins og Louboutin, en á tímum COVID-19 og aukinnar snjallvæðingar á öllum stigum lífsins, gæti þetta verið ein besta leiðin til að ná til Z-kynslóðarinnar, sem sækir afþreyingu og upplýsingar nær eingöngu á stafrænan vettvang.

Zepeto forritið er frá Suður-Kóreu og var sett í loftið árið 2018. Samkvæmt tölum frá Louboutin sem fylgdu kynningu á Loubi World, eru notendur þess yfir 178 milljónir, 600 milljón stafrænar vörur hafa verið seldar í gegnum það og þar hafa orðið til 780 milljón myndir og myndbönd.

Hér er forsmekkur af því sem verður hægt að sjá og upplifa í Loubi World, en þar er meðal annars glansandi Eiffel­turn og hringekja.

Meirihluti notenda eru stelpur og konur á aldrinum 13-24 ára og flestir notendanna eru frá Asíulöndum, Rússlandi og Bandaríkjunum. Nike og North Face eru meðal vörumerkjanna sem eru á Zepeto, en Louboutin er fyrsta lúxusvörumerkið.

Kynning fyrir öðruvísi kúnna

Sjálfur segir Christian Louboutin að lúxusvöruiðnaðurinn sé ekki bara fyrir þá sem hafa efni á að kaupa vörurnar, heldur líka fyrir fólk sem hefur áhuga á tísku og dreymir um hana. Þetta nýja framtak er tilraun til að kynna merkið á öðruvísi hátt fyrir öðruvísi viðskiptavini.

Louboutin segist ekki mjög tæknivæddur og varla fær um að kveikja á sjónvarpinu, en hann tók eftir því hve margir leituðu í tölvuleiki í einangruninni á þessu ári.

Í Loubi World er meðal annars hægt að sjá verslunarganginn Galerie Véro-Dodat, þar sem Louboutin opnaði sína fyrstu verslun árið 1991.

Í Zepeto þurfa notendur fyrst að búa sér til persónu og þær hafa allar unglegt og dúkkulegt útlit, en kyn er ekki atriði og það eru engar takmarkanir á stíl, svo allir notendur geta verið í hverju sem þeir vilja. Notendur geta svo búið til prófíla sem svipar til Instagram, sent hver öðrum skilaboð, eða tekið þátt í stafrænum samkomum þar sem allt að 25 þúsund manns geta komið saman í einu.

Í Loubi World er hægt að sjá nokkra af uppáhaldsstöðum hönnuðarins í París. Þar eru Eiffel-turninn, útikaffihús, hringekja og Galerie Véro-Dodat, 200 ára gamli verslunargangurinn þar sem Louboutin opnaði sína fyrstu verslun árið 1991, sem og eftirlíking af flaggskipsverslun Louboutin við Rue Saint Honoré.

Þeir sem vilja ekki taka þátt eða spila geta líka horft á myndband sem sýnir Loubi World.

Loubi World verður aðgengilegt í suðurkóreska snjallforritinu Zepeto.