Ég minnist þess ekki að hafa skipst á orðum við listakonuna Valgerði Guðlaugsdóttur. Þó var hún nærverandi á mörgum sýningum í Reykjanesbæ sem ég átti aðild að. Nærvera hennar einkenndist hins vegar af svo mikilli hlédrægni, jafnvel einhverju sem kalla mætti þögula fullvissu, að viðstaddir – ekki bara undirritaður – veigruðu sér við að ganga á einkarými hennar. Enda kannski óþarfi, þar sem verk hennar höfðu iðulega sterkari nærveru en flest annað sem fyrir augu bar í listasölunum hverju sinni. Og þegar Valgerður sýndi ein síns liðs voru áhrifin oft yfirþyrmandi fyrir þá sem ekki voru vanir svo ögrandi og sársaukafullu uppgjöri listamanns við eigið sjálf og kyn. Kannski hefði ekki verið auðvelt fyrir aðvífandi karlmann að ræða opinskátt við listakonuna um þessi verk.

Valgerður var feminískur listamaður í víðasta skilningi. Þótt verk hennar séu á köflum beint og óbeint innlegg í #metoo umræðuna, þá eru þau ekki unnin undir merkjum þeirrar þröngu og oft eitruðu fordæmingarpólitíkur sem sú umræða hefur getið af sér. Í grunninn eru verk hennar tilvistarlegs eðlis, fjalla um það hvað felist í því að vera kona og hvernig konum er meinað að uppfylla sínar eðlislægu og kyntengdu þarfir í nútímaþjóðfélagi.

Um leið lítur Valgerður ekki einvörðungu á konuna sem fórnarlamb ákveðinna aðstæðna, heldur meðvirka að hluta til í sköpun þeirra. Klisjukenndar birtingarmyndir kvenleikans á vettvangi samfélagsmiðla og afþreyingariðnaðarins eru ekki eingöngu höfundarverk illa upplýstra (og illa uppalinna ...) karlmanna, heldur eiga konur sjálfar stóran hlut í því að móta þessar birtingarmyndir, sjá áhrifamiklar ritstýrur tísku- og lífsstílsblaða og bloggsíðna.

Kick ass Wheel er meðal verka Valgerðar á sýningunni.

Trúðslegar lambhúshettur

Það er ekkert einfalt og sjálfsagt við þessa umræðu, og ekki heldur við það hvernig Valgerður tekur á henni. Gott dæmi er notkun hennar á prjónuðu lambhúshettunni, sem er eitt af nokkrum leiðarstefjum í verkum hennar. Hettan getur verið tákn fyrir kyngervinguna sem sérhver kona öðlast fyrir eigið tilstilli (samanber fleyg orð Simone de Beauvoir), og einnig fyrir þær kröfur sem þjóðfélagið gerir til kvenna, sjá glyðrulegan varalit, kinnroða og farða sem saumaður er á hverja hettu. Um leið getur hettan verið gríma – dulargervi konunnar – sem gerir henni kleift að fara huldu höfði við aðstæður sem eru henni mótdrægar. Loks er lambhúshettan sérstök einkunn hryðjuverkamanna, það er þeirra sem vilja ganga á milli bols og höfuðs á ríkjandi þjóðfélagsástandi.

Meðal mögnuðustu verka Valgerðar á minningarsýningunni Lipstick State of Mind hjá galleríi Listamönnum er sennilega myndröðin Creation, þar sem konur með trúðslegar lambhúshettur eru sýndar, hver í sínu móðurlífi, önnum kafnar við að búa sér til líf á eigin forsendum, ekki móðurinnar. Jafnvel hér – þar sem henni er sennilega mest niðri fyrir – lætur listakonan okkur um endanlega túlkun.

Tilvísanir Valgerðar og táknmyndir eru sem sagt margræðar, stundum uppfullar með svartan húmor og þversagnir, og þær taka mið af jafnt dægurmenningu sem viðtekinni myndlistarsögu. Þeir sem vilja geta svo sem tengt á milli listakonunnar og harðsnúinna myndlistarkvenna á borð við Guerrilla Girls, Kiki Smith, Önnu Medietu eða Köru Smith. En tamast er Valgerði að gaumgæfa kvenleikann og kvengervinguna út frá bóklegum aðföngum: tískublöðum, vemmilegum forsíðumyndum ódýrra ástarsagna, dúkkulísum, frumstæðum grafíkmyndum sem hún hefur séð í þjóðfræðiritum, kennslubókum í náttúrufræði eða frásögnum í myndabókum fyrir börn. Rorschach-mynstrið úr einhverju sálfræðiritinu, alþjóðlegt merki persónuleikagreiningar, verður henni til dæmis að eftirminnilegu tákni fyrir konuna sem tilfinningaveru.

Hin meðfærilega kona

Nánast öll þessi aðföng eiga eitt sammerkt; þau eru „meðfærileg“, rétt eins og konurnar sem fjallað er um. Þær eru sýnishorn sem hægt er að festa á spjöld eins og sjaldgæf skordýr og draga fram við hátíðleg tækifæri, þær eru sprellidúkkur uppi á vegg og þegar eigandi þeirra kippir í spotta glenna þær út fæturna, þær eru vindrella með fótleggjum íklæddum silkisokkum og sexí skóm sem snýst og snýst ef við þær er komið og þær eru Hood ornaments, skraut til að hafa ofan á húddi á bíl. Utan um þessi verk og allt um kring er svo kadmíumrautt mistur, litróf blóðs, fýsnar og eitraðra efnasambanda.

Valgerður lést fyrir nokkrum vikum. Eins og nefnt er í sýningarskrá skilur hún eftir sig „áleitið höfundarverk sem talar beint inn í samtímann“. Af lofsverðri hugdirfsku – og í anda listakonunnar – hafa ættingjar hennar skipulagt þessa sýningu eins og ekkert hafi í skorist.